132. löggjafarþing — 29. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[00:21]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni lánastarfsemi og afskriftir Byggðastofnunar í sinni yfirgripsmiklu ræðu. Ég held að það hljóti að vera ljóst — mér fannst það ekki koma nægilega skýrt fram í ræðu hv. þingmanns — að eðli málsins samkvæmt eru lán Byggðastofnunar alltaf áhættulán. Þar af leiðir að við hverja einustu lánveitingu lagt í afskriftasjóð. Af því að hv. þingmaður vitnaði í skýrslu sem unnin var fyrir hæstv. iðnaðarráðherra á vordögum, sem ég hef að vísu ýmsar athugasemdir við, þá kemur þar fram m.a. að í afskriftasjóð hjá Byggðastofnun hafa verið lagðir 4,3 milljarðar á tíu ára tímabili. Hins vegar hefur 4,1 milljarður verið afskrifaður. Það hefur því verið gert ráð fyrir þessum afskriftum. Þetta eru áhættulán og alltaf má búast við því að hluti þessara lána verði afskrifaður.

Lánastarfsemin sem slík hjá stofnun eins og Byggðastofnun er hluti af atvinnuþróunarstarfi og að mínu mati mun eðlilegri og ódýrari leið en t.d. hlutafjárkaup, að ég tali nú ekki um styrkveitingar. Lánastarfsemin sem slík stendur undir því sem er lagt í afskriftasjóðinn. Lánastarfsemin er til þess að styrkja atvinnulífið á landsbyggðinni og sinnir að því leyti byggðaþróunarstarfi og atvinnuþróunarstarfi.