132. löggjafarþing — 29. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[00:23]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er ágætt að skýra þetta betur. Ég veit alveg hvað hún er að tala um. Þetta stendur í rauninni allt í skýrslunni. Ég hef sjálfsagt ekki komið því nógu skýrt frá mér.

Ég tók líka fram að núverandi stjórn og starfsháttum er hrósað í skýrslunni. Það er tekið fram að orðið hafi breyting eftir 2002. En ég sagði líka í ræðu minni áðan að breytingar á fjármálamarkaði hér heima hefðu orðið til þess að tryggustu og traustustu viðskiptavinir Byggðastofnunar hefðu leitað annað með lánin sín og það verður til þess að stofnunin verður af tekjum frá þeim. Það voru nákvæmlega tekjurnar af traustum viðskiptavinum sem stóðu undir rekstrinum þegar lán töpuðust. En eftir því sem þeim fækkar þeim mun verra verður að standa undir útlánatapi. Það liggur í augum uppi.

Það kemur líka fram í þessari skýrslu sem ég er alltaf að vitna í að ef ekki hefði verið bætt í afskriftasjóð aftur og aftur væri hann löngu orðinn tómur og með því framhaldi sem virðist vera núna þá stendur hann náttúrlega ekki lengi undir því tapi sem fyrirsjáanlegt er. Það er einmitt líka tekið fram að þau lán sem voru veitt fyrir 2001 voru miklu áhættusamari í raun en talið var í matinu þegar þau voru veitt. Samkvæmt skýrslunni — ég get auðvitað ekkert hengt mig upp á það eða tekið neina ábyrgð á því — voru því lánin eða áhættan rangt metin. Þess er stofnunin að gjalda núna.

En ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er mjög mikilvæg starfsemi. Ég held að það hafi nú komið fram í ræðu minni áðan.