132. löggjafarþing — 29. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[00:28]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Þetta er allt hárrétt hjá hv. þingmanni. Ég vil bara bæta því við að ég vona að við getum litið á þessa erfiðleika núna sem tækifæri og nýtt upphaf. En ef svo á að verða verður að koma til vilji þess sem ber endanlega ábyrgð á stofnuninni, þ.e. ráðherra. Því miður er ég ekki óttalaus í því efni.

Ég er líka smeyk um að gerðar verði miklar breytingar á stofnuninni því ég held að það sé alls ekki það sem landsbyggðin þurfi núna. Staða gengisins gerir fyrirtækjum á því svæði sem ég var að tala mest um, þ.e. Vestfjörðum, einkar erfitt fyrir því að þar er talsvert um sjávarútveg og útflutningsgreinar t.d. Það gerir nú ekki auðveldara fyrir viðkomandi fyrirtæki að standa í skilum við stofnunina, en 40% af lánum stofnunarinnar, ef ég man rétt, samkvæmt skýrslunni eru einmitt til sjávarútvegs. Ýmiss konar vandi er því þarna á ferðinni fyrir stofnunina og fyrir okkur í heild, landið, því að þetta er í raun ekki vandi einnar stofnunar heldur vandi allra landsmanna, mundi ég segja, vandi sem hvílir þungt á herðum okkar þingmanna. Það á vera á herðum allra þingmanna að reyna að halda lífvænlegri byggð í landinu sem víðast. Það getur gerst með hjálp Byggðastofnunar ef vel er stutt við bakið á henni.