132. löggjafarþing — 29. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[01:13]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S):

Frú forseti. Umræðan um fjárlög er yfirgripsmikil enda nær hún til allra þátta samfélagsins. Í raun má segja að umræða um fjárlög á hverju ári endurspegli hinar almennu pólitísku skoðanir allra flokka svo ekki sé minnst á persónulegar skoðanir þeirra þingmanna sem láta sig umræðuna varða. Einstaka þingmenn ræða eingöngu um tiltekin atriði sem snúa að þeirra sérþekkingu á meðan aðrir vilja ræða um hið stóra pólitíska svið sem fjárlögin á hverju ári sannarlega eru. Ég vil nota tækifærið og koma á framfæri þeim áherslum sem ég aðhyllist í almennum ríkisrekstri.

Á undanförnum árum hafa stór ríkisfyrirtæki verið einkavædd með misgóðum árangri. Nú síðast var Síminn einkavæddur og fyrir vikið ýtt úr vör nýju tímabili á sviði fjarskiptamála þar sem einkanlega tvö fyrirtæki berjast um hituna. Söluverðmæti Símans skilaði tæpum 70 milljörðum kr. í sameiginlega sjóði landsmanna og hefur nú þegar verið ákveðið hvernig fjármagninu skuli varið. Að stórum hluta verður söluandvirðinu varið í að styrkja samgöngur og efla heilbrigðiskerfið ásamt öðrum smærri liðum en einnig var ákveðið að niðurgreiða skuldir upp á rúma 30 milljarða kr. Fyrir vikið munu vaxtagjöld ríkissjóðs minnka til muna en einnig mun ríkissjóður njóta digurra vaxtatekna á næstu missirum fyrir það fé sem nú bíður verkefna á komandi árum.

Stór hluti stjórnarandstöðunnar var í meginatriðum samþykkur þeirri skiptingu sem ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu á söluandvirðinu þó auðvitað hafi verið um mismunandi áherslur að ræða í þeim efnum. Til að mynda þótti mér sjálfum miður að ekki skuli hafa verið tekin ákvörðun um öfluga innspýtingu fjármagns til málaflokka sem tilheyra eldri borgurum en einnig vil ég lýsa yfir ánægju minni yfir þeirri niðurstöðu að sala Símans skuli gera nýja framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum mögulega svo dæmi sé tekið.

Þrátt fyrir góða stefnu ríkisstjórnarinnar, að mínu mati, við einkavæðingu stórra ríkisfyrirtækja og sterka stöðu ríkissjóðs í dag er engu að síður staðreynd að umsvif hins opinbera hafa verið að aukast. Fyrir þær sakir er að mínu viti rétt að við taki nýtt pólitískt tímabil á næstu missirum sem lýtur að frekari einkarekstri og markaðslausnum fyrir landið í heild og því mikilvægt að í ríkari mæli verði komið á öflugri samkeppni milli rekstrarforma í landinu. Á ég þá við samkeppni á milli annars vegar hins vanabundna ríkisrekna forms sem stundum er nauðsynlegt og dýrmætt ríkisrekstrinum og svo hins vegar þeim lausnum sem einkaaðilar geta skilað til aukinnar hagkvæmni og þjónustu öllum landsmönnum til hagsbóta.

Að sjálfsögðu kemur skattstefnan málinu við. Að sjálfsögðu er mikilvægt að hugsað sé til betri lausna sem leitt geti til sparnaðar og þá um leið betri þjónustu til að mynda á velferðarsviðinu sem og öðrum mikilvægum grunnþáttum sem íslenskt samfélag byggir á. Því er eðlilegt að spurt sé: Hvar getum við sparað? Enn mikilvægara er að spurt sé: Hvar vantar fjármagn og betri þjónustu frá ríki til landsmanna?

Áberandi í umræðunni eru málefni eldri borgara. Getur ekki verið að mikið bjáti á þar? Getur verið að umræðan um sama mál séu skýr skilaboð til stjórnvalda? Ég tel svo vera, hæstv. forseti, enda hef ég kynnt mér þetta tiltekna málefni nokkuð ítarlega frá því ég settist fyrst inn á þing. Vandi eldri borgara er margþættur. Hins vegar má aðskilja hina miklu þörf til skjótra aðgerða á tvo vegu. Í fyrsta lagi er það fjárhagshliðin og sú ótrúlega tekjutenging sem er á milli almennra tekna og lífeyristekna annars vegar og hins vegar samsettra bóta almannatrygginga.

Í annan stað er um að ræða mjög erfiða stöðu á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að vistunarmálum og biðlistum á hjúkrunarheimili en vandinn er staðbundinn og virðist fyrst og síðast eiga við höfuðborgarsvæðið og allra nálægustu byggðir svo sem á Reykjanesi. Hér er að mínu viti um að ræða eitt allra brýnasta viðfangsefni sem stjórnvöld þurfa að bregðast við og það með skjótum hætti. Eitt ár er dýrmætur tími fyrir fullorðið fólk og það hlýtur að vera skiljanlegt að því fólki þyki erfitt að bíða eftir lausnum sem eiga að skila sér til þeirra eftir tvö ár, þrjú ár eða lengri tíma.

Það er því mikilvægt að brugðist verði skynsamlega við og leitað sparnaðarleiða og hagkvæmni í almennum ríkisrekstri. Uppgangur atvinnulífsins og sú dínamíska þróun sem átt hefur sér stað hér á landi á síðustu árum er hægt og rólega að skila til okkar öflugri einkafyrirtækjum en áður hefur þekkst. Flóra félaganna er mikil og fjölbreytileiki atvinnulífsins að sama skapi. Fyrir sakir einkavæðingar á fjármálafyrirtækjum og sterkrar stöðu þeirra í dag hefur á umliðnum árum skapast olnbogarými til uppbyggingar á þjónustu- og hátæknifyrirtækjum, svo dæmi séu tekin. Sömu fyrirtæki banka hastarlega á dyrnar hjá stjórnsýslunni þessa dagana. Þau vilja upplýsa stjórnmálamenn, ríkisstjórnina og ráðamenn ríkisstofnana og ráðuneyta um þær rekstrarlegu lausnir sem þau hafa upp á að bjóða fyrir hinn opinbera rekstur sem kostaður er af skattfé Reykvíkinga. Getur verið að sömu einkafyrirtæki geti boðið upp á ódýrari lausnir og á sama tíma betri þjónustu en ýmis ríkisfyrirtæki og stofnanir bjóða upp á í dag?

Hæstv. forseti. Ég er sannfærður um en umfram allt tel ég mestu skynsemina fólgna í því að tryggja öfluga samkeppni milli ólíkra rekstrarforma eins og áður hefur verið greint frá. Í því skyni vil ég, með leyfi forseta, lesa skýrslu sem Viðskiptaráð Íslands sendi nýlega frá sér um sama efni. Hún ber heitið Samkeppni ríkisfyrirtækja við einkaaðila.

„Fyrir um ári síðan var spurt að því í skoðun Viðskiptaráðs hvort að ríkisvæðing væri að taka við af einkavæðingu. Var tilefnið ábending Ríkisendurskoðunar um að fjölmargar ríkisstofnanir hefðu farið fram úr fjárlögum. Áður hafði Viðskiptaráð bent á að samhliða almennri einkavæðingu ríkisfyrirtækja hefur ríkisstofnunum fjölgað undanfarin ár og rekstur þeirra orðið sífellt umfangsmeiri. Þá er þátttaka ríkisins í atvinnulífinu enn umfangsmikil þótt lítið fari fyrir henni í daglegri umræðu.“

Í upphafi þessa árs kom fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi að ríkið á hlut í næstum 200 félögum, hlutafélögum og einkahlutafélögum, ýmist með beinum hætti eða í gegnum fjárfestingarsjóði sína eins og Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóð. Eignarhluti ríkisins í þessum félögum er allt frá 100% niður í 0,1%. Flest þessara félaga eru í atvinnurekstri sem keppir með beinum hætti við aðra einkaaðila á markaðnum. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að ríkið brengli þannig aðstæður á markaðnum á ógagnsæjan máta í gegnum eignaraðild að hlutafélögum. Viðskiptaráð telur brýnt að ríkið hverfi frá slíkri beinni þátttöku í fyrirtækjum sem betur væru komin í einkarekstri.

En beinum sjónum nú frá ríkisfyrirtækjum að ríkisstofnunum sem ekki bara hefur fjölgað undanfarin ár heldur hafa þær einnig stækkað. Allar þessar stofnanir hafa lögbundnu hlutverki að gegna sem yfirleitt er nokkuð skýrt afmarkað. Í mörgum tilvikum blasir hins vegar við að starfsemi ríkisstofnana fer út fyrir hið lögbundna hlutverk þeirra. Það er ekki nema von að oft liggi óljós mörk milli þess sem menn telja að ríkið eitt hafi getu til eða eigi að framkvæma og þess sem markaðurinn sinnir alla jafnan. Um leið og einkaaðilar hasla sér völl á ákveðnu sviði á það að vera regla en ekki undantekning að sambærileg verkefni hjá ríkisstofnunum séu lögð niður. Skilin milli verkefna ríkisins og markaðarins hljóta einnig að breytast með tímanum og oft færast þau skyndilega til. Þá kemur upp sú spurning hvort ekki sé kominn tími til að huga að breyttu lögbundnu hlutverki ríkisstofnunar. Í ljósi viðbragða markaðarins er jafnframt nauðsynlegt að endurskoða á hverjum tíma þörfina fyrir tilteknar ríkisstofnanir.

Í apríl 1996 gaf fjármálaráðuneytið út athyglisverða skýrslu sem nefndist Bætt samkeppnisstaða Íslands í framtíðinni. Skýrslan var afrakstur vinnu starfshóps um sama efni sem skipaður var af þáverandi fjármálaráðherra Friðriki Sophussyni. Rauði þráðurinn í skýrslunni er sá að samkeppni sé ein meginundirstaða framþróunar. Þar kemur fram að um þriðjungur atvinnustarfsemi sé rekinn án þess að um neina samkeppni sé að ræða. Er þá oftsinnis um að ræða atvinnustarfsemi sem ríkið sinnir og þar er erfitt ef ekki ómögulegt fyrir einkaaðila að komast inn í vegna gífurlega sterkrar stöðu ríkisins. Ríkið er jafnframt með starfsemi þar sem samkeppni er fyrir og skekkir það stöðuna til muna. Verður vart sagt að um frjálsa og eðlilega samkeppni sé að ræða þar sem ríkið er í atvinnurekstri. Það eykur enn á þessa misjöfnu samkeppnisstöðu að margar ríkisstofnanir innheimta ekki virðisaukaskatt á þjónustu við aðra opinbera aðila.

Þegar fjallað er um ríkisstofnanir er vert að hafa í huga að hin ýmsu embætti ríkisins falla undir þá skilgreiningu að vera ríkisstofnanir þótt almennt sé ekki litið svo á. Þannig eru t.d. héraðsdómstólar og sýslumannsembætti um land allt talin til ríkisstofnana. Fjöldi ríkisstofnana telst því um 240. Viðskiptaráð teldi óvarlegt að fjalla um þær allar í því samhengi sem þessi skýrsla lýtur að enda þótt ráðið teldi að auðveldlega mætti fækka stofnunum ef vilji væri til þess. Reyndar er þróunin í þá átt, eins og nýlegar fréttir af áformum dómsmálaráðherra um að fækka lögregluembættum sýna.

Það er talið að a.m.k. um 30 af þeim 240 ríkisstofnunum séu þess eðlis að um samkeppni þeirra geti verið að ræða við einkaaðila. Þar er aðallega um að ræða hinar hefðbundnu ríkisstofnanir, eins og menn hafa tilhneigingu til að skilgreina þær, sem hafa einhvers konar víðtækara þjónustuhlutverki að gegna en þeirri þjónustu sem leiðir af stjórnsýslunni.

Aðhald í ríkisrekstri hefur aukist á undanförnum árum og eru gerðar kröfur til forstöðumanna ríkisstofnana um að þeir hagræði og sýni ráðdeild í rekstri. Til þess verður þó að líta að stofnanir hafa tilhneigingu til að blása út en það virðist oft ranglega vera viðhorf að um sé að ræða vel rekna stofnun ef útgjöld hennar aukast jafnt og þétt. Þannig má leiða líkur að því að ef framlög frá ríkissjóði til stofnana minnka eða aukast minna en áður leitist stofnanir við að finna önnur úrræði til að afla tekna. Því gæti verið vert að athuga hvort stofnanir reyni að afla sér aukinna tekna með því að útfæra starfsemi sína. Stofnanir krefjast þá annaðhvort heimildar til innheimtu, þ.e. þjónustugjalda fyrir nýja þjónustu, eða stofnunin selur einkaaðilum þjónustuna eins og einkaaðili mundi gera. Í báðum tilvikum er ekki ólíklegt að stofnunin sé að fara inn á svið sem einkaaðili hefur áður sinnt eða gæti sinnt jafn vel ef ekki betur en opinber aðili.

Íslensk lagahefð byggir á lögbundinni stjórnsýslu. Enn fremur gildir svonefnd lögmætisregla sem felur í sér að stjórnvöldum er ekki heimilt að gera neitt nema til standi sérstök heimild í lögum. Viðfangsefnin þarf því að nálgast út frá þeirri meginforsendu að umsvif ríkisins séu takmörkuð og því verði að teljast meginregla að ríkið sinni ekki tilteknum verkefnum og þá hlýtur starfsemi ríkisins fræðilega að vera undantekning. Viðurkennd lögskýringarregla er að undantekningar skuli skýra þröngt og því má ætla að skýra skuli lagaákvæði þar sem mælt er fyrir um tilgang og starfssvið ríkisstofnana þröngt.

Eins og sjá má af þeim örfáu dæmum sem nefnd eru hér á eftir er hins vegar augljóst að nokkuð frjálslega hefur verið farið með þessi ákvæði og þau gjarnan skýrð nokkuð rúmt. Í lögum um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, er mælt fyrir um hlutverk Ríkisendurskoðunar sem er einkum endurskoðun ríkisreiknings og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins. Þá er Ríkisendurskoðun heimilt að gera svokallaða stjórnsýsluendurskoðun sem felst í því að kanna meðferð og nýtingu ríkisfjár, hvort hagkvæmni og skilvirkni sé gætt í rekstri stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins og hvort gildandi lagafyrirmælum sé framfylgt í því sambandi. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2005 kostaði rekstur Ríkisendurskoðunar 357 millj. kr. Skýr heimild er fyrir Ríkisendurskoðun um að fela utanaðkomandi sérfræðingum á viðkomandi sviði verkefni sem stofnuninni verður falið með lögunum. Rétt er að velta því upp hvort það sé almennt gert.

Ríkisendurskoðun hefur tekið að sér margs konar úttektir hjá stofnunum og fyrirtækjum ríkisins. Viðskiptaráð vakti athygli á því á síðasta ári að stofnunin hefur til að mynda gert starfsánægjukönnun meðal starfsmanna Landhelgisgæslunnar. Er þetta aðeins eitt fjölmargra dæma um það þegar Ríkisendurskoðun hefur sjálf tekið að sér verkefni sem endurskoðunarfyrirtæki eða mannauðsráðgjafar eru a.m.k. jafn vel í stakk búnir til að inna af hendi. Má jafnvel halda því fram að utanaðkomandi aðilar væru betur í stakk búnir til að sinna eins sérhæfðu verkefni og nefnt er í dæmi Landhelgisgæslunnar, vegna sérhæfðrar reynslu og þekkingar sem þeir kynnu að hafa.

Viðskiptaráð leggur til að sem flest verkefni verði unnin af sjálfstætt starfandi endurskoðendum og öðrum sérfræðingum. Til dæmis væri hægt að bjóða upp einstök stærri verkefni eða bjóða upp heildstætt verkefni sem til falla á tilteknu tímabili.

Í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, er gert ráð fyrir veiðimálastjóra sem fer með stjórnsýslu veiðimála. Lögin gera jafnframt ráð fyrir aðskilinni Veiðimálastofnun sem ætlað er í fyrsta lagi að sinna rannsóknum á ám og vötnum með það að markmiði að veita ráðgjöf um veiðinýtingu og þróun í þeim efnum. Þá veita lögin í öðru lagi Veiðimálastofnun heimild til að taka að sér rannsóknir og önnur verkefni á starfssviði sínu fyrir einstaklinga, félög og stofnanir gegn endurgjaldi. Það eru verkefni sem stærri verkfræðistofur og sjálfstætt starfandi vísindamenn gætu auðveldlega sinnt. Gert er ráð fyrir kostnaði af rekstri Veiðimálastofnunar upp á 122,5 millj. kr. ár hvert. Til dæmis var gert ráð fyrir sértekjum upp á 80 millj. kr. árið 2004.

Námsgagnastofnun er 25 ára á þessu ári en aldurinn veitir þó ekki vísbendingu um hversu lengi hið opinbera hefur haft afskipti af útgáfu námsbóka. Stofnunin tók nefnilega við starfi Ríkisútgáfu námsbóka sem sett var á laggirnar árið 1937. Kannski má halda því fram að um miðja síðustu öld hafi verið ástæða til að ríki hlutaðist til um námsgagnagerð þótt vissulega megi færa fyrir því rök að þróun námsgagna hafi með því orðið minni en ella. Í dag eru hins vegar aðstæður með þeim hætti að öflug bókaforlög hafa haslað sér völl í námsgagnagerð. Þannig reiða framhaldsskólar sig á hinn almenna markað um allar kennslubækur. Lög nr. 23/1990, um Námsgagnastofnun, fela Námsgagnastofnun hins vegar að sjá grunnskólum fyrir náms- og kennslugögnum. Þó er einnig heimild fyrir því að fela stofnuninni að annast verkefni fyrir framhaldsskóla og tónlistarskóla. Stofnuninni er ætlað að annast gerð, útgáfu, framleiðslu og dreifingu á náms- og kennslugögnum og um leið að kaupa eða framleiða fræðslumyndir eða vera aðili að gerð þeirra.

Námsgagnastofnun er með öðrum orðum heimilt að kaupa, selja og dreifa náms- og kennslugögnum frá öðrum aðilum. Þó er Námsgagnastofnun ætlað að hafa með höndum þróun námsgagna og frumkvæði að könnunum og rannsóknum að gerð þeirra og notkun. Sjálf framleiðslan á námsefninu, þ.e. prentun og önnur tæknileg vinna er í flestum tilvikum boðin út. Engin rök leiða til þess að námsgagnagerð á grunnskólastigi lúti öðrum lögmálum en þeim sem að framhaldsskólastiginu lýtur, þ.e. markaðslögmálinu. Rekstur stofnunarinnar kostar 382 millj. kr. samkvæmt fjárlögum ársins 2005. Viðskiptaráð hvetur til þess að starfsemi Námsgagnastofnunar verði endurskoðuð. Telur ráðið vel koma til greina að leggja stofnunina alfarið niður. Að öðrum kosti verði hlutverki hennar breytt í þá veru að hún annist frekar úttekt og ráðgjöf vegna námsgagnavals skólanna.

Lög um landmælingar og kortagerð, nr. 95/1997, gera ráð fyrir starfsemi Landmælinga Íslands, sérstakrar ríkisstofnunar sem ætlað er að sinna m.a. staðfræðilegum og landfræðilegum mælingum og útgáfu landslagskorta af Íslandi á prentuðu og stafrænu formi. Starfsemi ýmissa einkafyrirtækja svo sem Loftmynda ehf. og verkfræðistofunnar Hnits hf. ganga m.a. út á að kortleggja landslag Íslands. Starfsemi Landmælinga er því að miklu leyti á því sviði sem þau fyrirtæki sinna.

Í október síðastliðnum gerðu þessi fyrirtæki ríkissjóði tilboð um að taka yfir rekstri Landmælinga gegn greiðslu 100 millj. kr. á ári næstu 5 árin. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2005 kostar 226 millj. kr. að reka stofnunina. Hér er því um kostaboð að ræða fyrir íslenska skattgreiðendur. Stofnunin heyrir undir umhverfisráðherra og nú liggur fyrir að hann hyggist beita sér fyrir breytingum á áðurnefndum lögum með það að markmiði að draga verulega úr samkeppni Landmælinga Íslands við einkaaðila. Viðskiptaráð hvetur til þess að Landmælingar hætti þeirri starfsemi sem er í samkeppni við einkaaðila en að önnur starfsemi stofnunarinnar verði boðin út.

Lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, fjalla um Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Ákvæðið um Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er ekki þess eðlis að þar séu talin upp með tæmandi hætti möguleg verkefni stofnunarinnar. Kveðið er á um verkefni á borð við rannsóknir á hráefnum og framleiðslu fiskiðnaðarins í því skyni að tryggja fyllstu nýtingu hráefna og gæða afurðanna, einnig um aðstoð og leiðbeiningar við undirbúning og byggingu fiskiðjuvera og val véla og tækja til fiskiðnaðar. Þá er Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins ætlað að kynna nýjungar í fiskiðnaði, tækjum og vinnsluaðferðum og prófun á gagnsemi þeirra. Einnig stendur stofnunin fyrir námskeiðum fyrir matsmenn, vélstjóra og verkstjóra í fiskiðnaðinum. Nauðsynleg rannsóknaþjónusta við fiskiðnaðinn er svo talin meðal verkefna stofnunarinnar. Lögin veita enga vísbendingu um hversu víðtæk slík rannsóknaþjónusta geti orðið. Enda er raunin sú að rannsóknastarfsemi stofnunarinnar hefur í auknum mæli keppt við einkaaðila. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2005 kostar 386 millj. árlega að reka stofnunina. (Gripið fram í: Hvað segir viðskiptaráðherra?)

Viðskiptaráð leggur til að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins verði lögð niður. Ríkið rekur rannsóknastofur á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Ýmist eru þetta sjálfstæðar rannsóknastofur, eins og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, eða rannsóknastofur inni á öðrum stofnunum ríkisins sem hafa að einhverju leyti víðtækari starfsemi með höndum, t.d. Iðntæknistofnun. Þessar rannsóknastofur, sjálfstæðar eða ekki, eru mjög gjarnan í samkeppni við einkaaðila sem í auknum mæli bjóða nú upp á rannsóknir af hvers kyns toga. Viðskiptaráð leggur til að hlutverk rannsóknastofa ríkisins verði endurskoðað þannig að þær annist ekki rannsóknir í samkeppni við einkaaðila.

Nýlega bárust fréttir af nýrri starfsemi hjá sýslumannsembættunum sem fyrirhuguð er í tengslum við útgáfu nýrra tegunda vegabréfa. Þannig er ráðgert að myndataka fyrir vegabréf fari fram hjá sýslumönnum og er ljóst að þar með er starfsemi sýslumannsembætta komin á svið atvinnuljósmyndara. Það stefnir þó ekki einu sinni í samkeppni sýslumanna við ljósmyndara því samkvæmt fréttum verður gert ráð fyrir að myndataka fyrir vegabréf geti aðeins farið fram hjá sýslumönnum en ekki atvinnuljósmyndurum. Ríkið er því að mæla fyrir um einokun á starfsemi sem hingað til hefur áfallalaust verið haldið út eingöngu af einkaaðilum. Kostnaður við þetta mun nema tugum millj. kr. á ári.

Fullyrðingar um að þetta sé nauðsynlegt af öryggisástæðum eiga ekki við rök að styðjast enda tíðkast þetta fyrirkomulag t.d. ekki á Norðurlöndunum sem lúta þó jafnframt að Schengen í þessum efnum. Myndatökur í passamyndir eru oft stór hluti af starfsemi ljósmyndara og því er jafnvel haldið fram að þetta geti riðið sumum ljósmyndurum að fullu. Viðskiptaráð leggur til að ríkið láti af hugmyndum sínum um að sýslumenn annist myndatökur í vegabréf.

Vinnueftirlitið. Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, er gert ráð fyrir Vinnueftirliti ríkisins. Í lögunum er Vinnueftirlitinu ætlað margvíslegt hlutverk á þeim sviðum sem lögin fjalla um. Að miklu leyti sem umsagnaraðili vegna ýmissa reglna sem félagsmálaráðherra er ætlað að setja. Samkvæmt 75. gr. laganna eru þó talin upp verkefni Vinnueftirlitsins í 12 liðum og er þó ekki um tæmandi talningu að ræða. Verkefnin eru allt frá almennu stjórnsýsluhlutverki til almennrar fyrirtækjaráðgjafar. Ákvæði lagagreinarinnar um ráðgjöf til handa einkaaðilum eru afar opin og undir þann þátt má heimfæra ýmiss konar þjónustu Vinnueftirlitsins. Vinnueftirlitið hefur til að mynda tekið að sér ýmsar starfsmannaúttektir sem ráðgjafarstofur gætu hæglega tekið að sér.

Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2005 kostaði rekstur Vinnueftirlitsins 370 millj. kr. Viðskiptaráði er kunnugt um eftirfarandi raunverulegt dæmi um hvernig þetta hefur horft við einkaaðila á markaðnum. Verkefnið var unnið af Liðsinni í samstarfi við Samiðn og Samtök iðnaðarins ásamt fjórum öðrum einkaaðilum. Tilgangur verkefnisins var að kortleggja áhættuþætti í vinnuumhverfi í málm- og byggingaiðnaði til að finna leiðir til að draga úr slysum starfsmanna. Matskerfi frá LSP var notað og gert var skimunarúrtak hjá fjórum fyrirtækjum með um 150–200 starfsmenn og var meginniðurstaðan slök öryggisvitund. Í kjölfarið voru sett á laggirnar tvö verkefni á vegum Vinnueftirlits ríkisins. Verkefni sem LSP hefði auðveldlega getað sinnt. Niðurstaðan af þessu frumkvæði einkafyrirtækjanna varð sú að Vinnueftirlitið bætti viss verkefni á sviði eflingar öryggisvitundar á meðal starfsmanna þessara fyrirtækja, m.a. með skýrslu LSP úr ofangreindri greiningu til grundvallar. Þá var átaki í heilsueflingu hrundið af stað innan Samtaka atvinnulífsins í samvinnu við Vinnueftirlitið.

Að lokum kemur enn annað dæmi um samkeppni Vinnueftirlitsins. Árið 2003–2004 framkvæmdi ráðgjafarfyrirtæki áhættugreiningu á tveimur togurum fyrir útgerð, með eins árs heilsueflingu í kjölfarið. Markmið ráðgjafarfyrirtækisins var að nýta þá reynslu og þekkingu á öðrum rekstrarsviðum útgerðarfélagsins. Stuttu eftir ráðgjafarvinnuna bauð Vinnueftirlit ríkisins útgerðarfyrirtækinu tilraunaverkefnið um áhættugreiningu í landvinnslu fyrirtækisins sem útgerðarfyrirtækið þáði enda þeim að kostnaðarlausu. Áður hefur svo Viðskiptaráð vakið athygli á starfsánægjukönnun Vinnueftirlitsins sem var svo kölluð í fréttum meðal starfsmanna Landspítalans. Vinnueftirlitið gerði athugasemd við ályktun sem Viðskiptaráð prófaði af fréttum af þeirri könnun og áréttaði þá túlkun sína af lagaákvæðum um vinnueftirlit að slíkar kannanir væru liður í því að kanna aðbúnað starfsmanna á vinnustað. Viðskiptaráð mótmælir hins vegar áfram svo rúmri lagatúlkun.

Með hliðsjón af þeirri meginstefnumörkun sem ríkisstjórnir síðustu ára hafa haft varðandi ríkisrekstur almennt er þó óhætt að fullyrða að mörk ríkisrekstrar og einkarekstrar séu nokkuð skýr ef nánar er að gáð. Með einkavæðingu síðustu ára hefur markvisst verið unnið að því að leggja niður samkeppni ríkisins við einkaaðila. Sömu sjónarmið eiga við um ríkisstofnanir. Það getur vissulega verið umfangsmikið verkefni fyrir ríkisstofnanir að fylgjast með því á hvaða sviðum einkaaðilar hafa haslað sér völl. Það er hins vegar ekki nema eðlilegt að gera þá kröfu til forstöðumanna ríkisstofnana að þeir sjái til þess að stofnunin sé ekki í samkeppni á markaðnum. Að þessu leyti hvílir einnig mikil ábyrgð á einkaaðilum. Þeir verða að búa svo um hnútana að opinberir aðilar upplifi ekki hvatningu til að veita þjónustu sem er í samkeppni við einkaaðila. Þannig þurfa einkaaðilar að meta það með skipulegum hætti hvort rétt sé að þiggja opinbera þjónustu sem er í samkeppni við einkaaðila jafnvel þó svo hinu opinbera sé veitt gegn vægara gjaldi eða jafnvel ókeypis.“

Frú forseti. Ég er á þeirri skoðun að ríkisstjórnin ráðist í krefjandi verkefni sem skila mun almennum sparnaði í ríkisrekstri öllum landsmönnum til farnaðar. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar um innkaupastefnu ríkisins frá 2002 felst m.a. sú eðlilega krafa til ríkisstofnana að skoðað sé með reglulegum og skipulegum hætti hvort verkefni séu leyst með hagkvæmari hætti innan stofnunar en með því að kaupa þjónustuna á almennum markaði. Ákveðið aðhald felst í því að einkaaðilar geti beint fyrirspurnum til stofnana um rekstur einstakra þátta sem stofnanir verði að bregðast við. Í tengslum við mótun innkaupastefnu verða ráðuneyti að fara yfir með viðkomandi stofnun þá þætti sem mögulegt er að bjóða út og tilgreina markmið og tímasetningar í því sambandi.

Ég er hjartanlega sammála samþykktinni en að sama skapi spyr ég: Er eftir henni farið í einu og öllu? Ég tel mikilvægt að fagráðherrar í ríkisstjórn Íslands virði í einu og öllu þá samþykkt sem felst í innkaupastefnu ríkisins um þessi mál. Með metnaði og vilja er ég sannfærður um að ríkisbúskapinn megi reka með hagkvæmari hætti sem og betri þjónustu. Samhliða slíkum fullyrðingum tel ég þó brýnasta verkefnið í dag að ríkisreksturinn og ríkisfjármálin hlúi að fullorðnu fólki í okkar ríka landi með því að tryggja viðeigandi og mannvirðuleg vistunarúrræði fyrir þá sem slíka þjónustu vantar og síðast en ekki síst breyti þeirri ófarnaðarstefnu að letja eldri borgara til vinnu sem og að hún rífi frá áunnin lífeyrisréttindi að stóru leyti vegna ómanneskjulegra tekjutenginga.

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að gagnrýna rétt eins og að lofa. Það er hlutverk okkar þingmanna að leita leiða og benda á það sem betur má fara. Sjálfur er ég bjartsýnn á framtíðina. Ég er á þeirri skoðun að með fastmótaðri skattstefnu þar sem hlutur hins vinnandi manns verði réttur, samhliða þeim áunnu skattakjörum sem lögaðilar búa við í dag muni hún veita íslensku samfélagi gríðarsterka stöðu í alþjóðasamkeppni nútímans.

Ég er á þeirri skoðun að flatur tekjuskattur á fyrirtæki og einstaklinga sem og virðisaukaskattur verði sem næst 15%. Ég er sannfærður um að slík stefna mundi skila afkomendum okkar þegar allt kemur til alls þeim hagvexti, tekjum, tækifærum og ávinningi sem við viljum.

Okkur stjórnmálamönnunum ber skylda til að útfæra jákvæðan hvata til atvinnulífsins og samfélagsins. Við eigum að þora og leita leiða. Írland, Singapúr og fleiri stórhuga ríki hafa náð undraverðum árangri með róttækum skattstefnum í takt við þá skattstefnu sem ég hef séð þróast hér á landi. Einstaka stjórnarandstöðuþingmenn hafa komið hér upp og varla bent á nokkuð annað en niðurskurð í sendiráðum til ríkissparnaðar. Á sama tíma segja þeir vanta framtíðarstefnumótun í ríkisfjármálin. Ég spyr: Hvar hefur þetta fólk búið síðasta áratuginn? Ríkissjóður hefur aldrei staðið betur. Ég hef kynnt mér kostnað vegna nýrra sendiráða og hef enn þá skoðun að hægt sé að spara töluverða fjármuni í þeim efnum. Engu að síður hef ég ekki enn heyrt af heilbrigðri pólitískri stefnumótun til framtíðar frá neinum stjórnarandstöðuflokkanna sem skilar af sér betri þjónustu sem og frekari hagræðingu í ríkisrekstri, hvað þá betri tækifærum til afkomenda okkar.

Mín lokaorð verða þau skilaboð til ríkisstjórnarinnar að bretta upp ermar í málefnum eldri borgara og tryggja fullorðnu og stoltu fólki í samfélaginu þau lífsskilyrði sem það á skilið eftir að hafa skilað bændasamfélaginu Íslandi í stöðu einnar ríkustu þjóðum veraldar á umliðnum áratugum.