132. löggjafarþing — 29. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[01:43]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Erni Örlygssyni fyrir að loka þessari löngu umræðu okkar um fjárlög fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins en sem kunnugt er er hann nýr þingmaður þess flokks. Það var sérstakt, en um leið kannski hreint og beint af þingmanninum að lesa að mestu leyti upp úr tillögum Viðskiptaráðsins og áliti Viðskiptaráðsins enda þekkjum við í þessum sal að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gengur mestan part erinda Viðskiptaráðsins í þessum sölum og að mörgu leyti því viðeigandi að þeir hafi upplestur á þeirra orðum fremur en að setja þau í sinn eigin búning.

Nú hefur hv. þingmaður nýverið skipt um stjórnmálaflokk og ekkert við það að athuga. Menn eiga að fylgja sannfæringu sinni. En ég geri mér ferð í ræðustólinn til að inna þingmanninn eftir því hver afstaða hans verði þetta árið til tillögunnar um það að ríkisstjórnin uppfylli samkomulagi sem hún gerði við Öryrkjabandalagið í aðdraganda kosninganna 2003. Hér liggur fyrir tillaga um að verja 600 millj. kr. til að efna það samkomulag. Þetta er ekki fyrsta árið sem tillagan er flutt heldur er þetta þriðja árið sem hún er flutt. Ég þekki vel hug þingmannsins til þess máls. Hann hefur komið skýrt fram, m.a. í tvígang í atkvæðagreiðslum á Alþingi um þá tillögu þar sem hann hefur léð henni liðsinni sitt með atkvæði sínu enda fylgt sannfæringu sinni eins og stjórnarskráin býður honum. Ég vil þess vegna inna hv. þingmann eftir því hvort hann muni styðja þá tillögu að veita 600 millj. kr. til að tryggja að ríkisstjórnin geti uppfyllt það samkomulag sem hann sannarlega hefur talið að hún hafi gert við Öryrkjabandalagið og þá lífeyrisþega sem hann kveðst bera hag fyrir brjósti.