132. löggjafarþing — 29. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[01:47]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú hefur það komið fram í ræðu minni að ég geri engar athugasemdir við að alþingismenn skipti um stjórnmálaflokka eftir kosningar. Fylgi stjórn en ekki stjórnarandstöðu ef þeim býður svo við að horfa, fylgi með öðrum orðum sannfæringu sinni. Ég gerði engar athugasemdir við þær gerðir hv. þingmanns en það er áhyggjuefni, en kannski eðlilegt, að honum vafðist nokkuð tunga um tönn við að svara einfaldri spurningu. Spurningin var einfaldlega þessi: Hv. þingmaður hefur staðið að tillöguflutningi á Alþingi tvö undanfarin ár um að verja skuli nærri 600 millj. kr. til að uppfylla samning ríkisstjórnar Íslands við Öryrkjabandalag Íslands. Hann hefur haldið því fram ásamt okkur að sá samningur hafi ekki verið efndur og hann hefur ítrekað greitt því atkvæði að þann samning eigi að efna. Nú liggur sú tillaga fyrir Alþingi Íslendinga þriðja sinni og ég spyr hv. þingmann einfaldlega: Mun hann í þessu efni fylgja sannfæringu sinni og greiða henni atkvæði þriðja árið eða telur hv. þingmaður núna allt í einu að samkomulagið hafi verið efnt eða það þurfi ekki að efna það fyrr en eftir tvö, þrjú eða fjögur ár eða einhvern tíma í framtíðinni — hv. þingmaður talaði mestan part fram í tímann en ekki um það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir.