132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Verðsamráð olíufélaganna.

[10:02]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég taldi rétt þegar atkvæðagreiðsla við 2. umr. fjárlaga er á dagskrá að fara hér upp um störf þingsins og spyrja hæstv. fjármálaráðherra um það hvernig ríkið hefur staðið að hagsmunagæslu sinni gagnvart olíufélögunum og því verðsamráði sem fram fór og uppvíst varð um fyrir nokkrum árum. Í febrúar á þessu ári spurði ég þáverandi hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann hygðist standa að hagsmunagæslu fyrir hönd ríkisins því að a.m.k. í sex tilvikum, þ.e. varðandi dómsmálaráðuneytið, Landssímann, Íslandspóst, lögregluna í Borgarnesi, Landhelgisgæsluna og Vegagerðina, er ljóst að verðsamráð olíufélaganna olli ríkinu miklu tjóni. Sennilega nemur það tjón tugum ef ekki hundruðum millj. kr. Þegar þáverandi hæstv. fjármálaráðherra var spurður út í þetta mál sagði hann að verið væri að skoða málið. Síðan eru liðnir níu mánuðir og ekkert hefur gerst og ekkert hefur spurst til málsins.

Við vitum að Reykjavíkurborg hefur ákveðið að höfða mál en olíufélögin óskuðu eftir því við Reykjavíkurborg að setjast niður og ræða hugsanlegar skaðabætur.

Nú lýtur málið ekki að því hvort dómar falli eða ekki því að öll þessi brot eru meira og minna játuð og staðfest og þar af leiðandi er bótaábyrgðin nokkuð skýr. Því vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra sem fer með þessi mál fyrir hönd ríkisins:

1. Ætlar ríkið að höfða mál til að gæta réttar síns?

2. Hvar stendur undirbúningur þess máls núna, meira en níu mánuðum eftir að sagt var á hinu háa Alþingi að málið væri í skoðun hjá fjármálaráðuneytinu?