132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Verðsamráð olíufélaganna.

[10:05]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Níu mánuðir duga venjulegu fólki til að eignast heilt barn en þeir duga fjármálaráðherra og ráðuneytunum öllum samanlögðum ekki til þess einu sinni að komast að því hvort stefnt skuli að því að höfða mál. Það er til skoðunar, sagði hæstv. fjármálaráðherra, og það er til umræðu í ráðuneytunum, öllum nema hans eigin því það bíður eftir niðurstöðum um hvort hugsanlegt sé að mál eigi að höfða eða hvort málið er ekki þannig vaxið að eigi að höfða það.

Þessi maður hér og forveri hans og félagar eru sérstaklega kjörnir til að gæta hagsmuna almennings á Íslandi gegn svikurum, gegn svindlurum og gegn pakki sem fer þannig með peninga fólksins að það ætti fyrir löngu að vera búið að koma þeim öllum saman fyrir á ónefndum stað. Það er ekki málið hér, eins og fyrri ræðumaður sagði, heldur er málið þetta: Ætlar ríkið ekki að reyna að ná aftur einhverju af því fé sem hefur verið tekið af því? Reykjavíkurborg hefur lyft upp hendi og þeir koma hlaupandi, olíufurstarnir. Neytendasamtökin eru komin í mál og auðvitað hafa útvegsmenn gert kröfur um að fá aftur það fé sem af þeim var tekið.

Það er sjálfsagt að gera þetta og það þurfa ekki að líða níu mánuðir, eða tvisvar sinnum níu mánuðir eins og andlitsdrættir hæstv. fjármálaráðherra bentu til að mundu líða, til þess að almenningur fái a.m.k. svör við því hvort á að gæta hagsmunanna eða ekki. Ef hagsmunagæslumennirnir eru orðnir svo þreyttir á störfum sínum að þeir treysta sér ekki til þess að gæta hagsmuna almennings í þessu máli, ef þeir eru svo miklir vinir þeirra sem hlut eiga að máli hinum megin að þeir þora ekki í þá, þá eiga þeir að hætta hagsmunagæslu sinni og fara að gera eitthvað annað.