132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Verðsamráð olíufélaganna.

[10:14]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég get vottað það fyrir mitt leyti að þessa níu mánuði hefði mátt nota til heillar meðgöngu en ég vil lýsa undrun minni á þeirri linkind sem lýsir af framgöngu nýs fjármálaráðherra í þessu hagsmunamáli almennings í landinu. Tvær rannsóknarstofnanir ríkisins, Samkeppnisstofnun og ríkislögreglustjóri, hafa báðar eftir áralanga rannsókn komist að þeirri eindregnu niðurstöðu að hér hafi verið framið víðtækt og skipulagt samsæri gegn almenningi, m.a. hafi verulegar fjárhæðir verið hafðar af ríkissjóði. Enn þá situr hæstv. fjármálaráðherra og klórar sér í kollinum og spyr sig hvort líkur séu til að hann vinni málið eða ekki. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að sýna eilitla djörfung á fyrstu embættisdögum sínum og sýna þjóðinni að hann muni ekki líða fyrirtækjum í landinu að fara þannig með sjóð almennings, ríkissjóð, heldur muni hann stefna hverjum þeim sem með þessum hætti gengur fram. Það hefur Reykjavíkurborg fyrir löngu gert og það sér auðvitað á hvernig þessi mál standa að þá þegar óskuðu olíufélögin eftir viðræðum við borgina um það hvernig þau gætu bætt fyrir misgjörðir sínar gegn henni.

Sumir þeirra aðila sem hér eiga í hlut hafa einfaldlega þegar játað brot sín þannig að það liggur fyrir og ekki eftir neinu að bíða fyrir hæstv. fjármálaráðherra að lýsa því skörulega yfir að hér verði stefnt, nema til standi að hlífa einhverjum.