132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Verðsamráð olíufélaganna.

[10:17]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það bar ekki á því að það væri mikill kraftur eða djörfung í nýjum hæstv. fjármálaráðherra hvað varðaði þau svör sem hér komu fram áðan, né að mikill hugur væri í honum til að gæta hagsmuna almennings í þessu tiltekna máli.

Ég vil aðeins rifja það upp að á sínum tíma komst Samkeppnisstofnun að þeirri niðurstöðu að olíufélögin hefðu hagnast um 6,5 milljarða á verðsamráði sínu. Nú stendur eftir að þau eigi að greiða 1,5 milljarða í sekt. Með öðrum orðum standa 5 milljarðar nettó enn þá eftir í hagnað og við getum ekki horft upp á að það sé látið óátalið.

Hvaða skilaboð eru það líka til annarra aðila sem vinna á þessum markaði, eins og Atlantsolíu, sem hugsanlega þurfa að þola að það verði látið óátalið að svona samráð hafi átt sér stað og jafnvel það að ríki hafi ekki enn þá tekið ákvörðun um hvort það ætli að stefna eða ekki?

Ég nefndi áðan að liðnir væru níu mánuðir síðan ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um málið. Þá var það til skoðunar en það eru komin yfir tvö ár síðan öllum varð ljóst hvernig í pottinn var búið, það er þannig ekki aðeins að framtakssamir menn og konur hafi getað átt barn á þessum tíma, þetta er mun lengri tími, tvö ár, og hefði verið hægt að stofna heilu fjölskyldurnar á meðan. Þess vegna finnst mér ekki stórmannlegt af hæstv. fjármálaráðherra að koma hér upp og lýsa því yfir að hagsmuna ríkisins verði gætt í hvívetna og að sjálfsögðu muni ríkið stefna að því að gæta hagsmuna sinna þegar vegið er að því og brotið gegn því. Það er ekki stórmannlegt af hæstv. fjármálaráðherra að lýsa þessu yfir. Ég hvet hann eindregið til að kveða nú upp úr um að hann sé maður einhverra verka, nýr hæstv. fjármálaráðherra í fjármálaráðuneytinu.