132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Verðsamráð olíufélaganna.

[10:19]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Þetta er aldeilis mögnuð umræða. Það vantar ekki dirfskuna, djörfungina og kraftinn í hv. þingmenn sem hér tala en hvernig hefur sú dirfska og sú djörfung gagnast þeim? Það er það sem ég velti fyrir mér.

Alla jafnan gerir stjórnarandstaðan kröfu um að ríkisstjórnin vandi til verka sinna, hún rasi ekki um ráð fram í einu eða neinu og þegar höfðað er mál fyrir hönd hins opinbera þá séu menn vel undirbúnir og verði ekki gerðir afturreka með þau á einn eða neinn hátt. Er það annars ekki rétt hjá mér að hv. alþingismenn geri slíka kröfu til hálfu ríkisvaldsins og framkvæmdarvaldsins? (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega það sem verið er að gera núna. Það er verið að fara vel yfir þetta mál. Það er verið að vanda til undirbúningsins, til þess að þegar og ef sú niðurstaða verður í málinu að höfða skuli mál að vel athuguðu máli þá gangi það eftir.

Hv. þingmenn sumir hverjir tala hér eins og fjármálaráðherrann sé ekki málsaðili sem á að taka ákvörðun um að höfða málið heldur sé hann dómarinn í málinu og það sé hann sem eigi að tukta menn til. Þá eru menn að rugla saman. Það er ekki fjármálaráðherrann sem er dómarinn, það er dómsvaldið sem dæmir í þessu máli. Það verður vandað til þessarar ákvörðunar og þegar hún verður tekin þá mun niðurstaðan ganga vel eftir. (LB: Það liggur fyrir játning.) Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sem er menntaður lögfræðingur grípur fram í og kallar að það liggi fyrir játning en hann hlýtur að gera sér grein fyrir því að það er annað mál að höfða skaðabótamál en að höfða mál til að sanna sekt eða sýknu í einstökum atriðum, því það þarf að sýna fram á skaðann.

En hins vegar aðeins til að hjálpa hv. þingmönnum í líkingamáli sínu sem talsvert hefur borið á í þessari ræðu, að ef þá vantar að vita meðgöngutíma einhverra annarra dýrategunda eins og hann var að vitna til, þá gætu þeir leitað til mín til að fá þær upplýsingar.