132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:37]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er með nokkrum trega að ég tek þátt í að flytja tillögu af þessu tagi. Ég batt eins og margir aðrir vonir við það, þegar byggðamálin voru flutt frá forsætisráðuneytinu, að betur yrði staðið að þeim í framtíðinni. Það hefur aldeilis ekki reynst þannig. Menn hafa staðið í að hluta Byggðastofnun niður, flytja frá henni verkefni, fara að byggðamálum úr öllum áttum öðrum en í gegnum þessa stofnun. Hún er orðin ónýt í augum margra landsmanna.

Það koma tillögur utan af landsbyggðinni um að leggja stofnunina niður. Við setjum mikla peninga í byggðamál. Hvernig stendur á því að menn geta ekki verið sammála um að láta þá stofnun sem til þess er komið á fót um að fást við þessi mál, þar sem rannsóknir fara fram, þar sem krafturinn á að vera til að meta það sem gert er? Það er ekki þannig heldur er búið að eyðileggja þessa stofnun. (Forseti hringir.) Þess vegna er þessi tillaga flutt og þess vegna styð ég hana.