132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:38]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram. Annars vegar er um að ræða 500 millj. kr. sem þingmenn Samfylkingar leggja til að fari til sérstakra mála á landsbyggðinni.

Það hefur fallið í okkar hlut að ræða landsbyggðarmálin. Sem dæmi um dugleysi iðnaðarráðherra má nefna að nú þegar nokkrir þingdagar eru eftir fram að jólaleyfi bólar ekkert á byggðaáætlun sem á að taka gildi 1. janúar næstkomandi ef allt væri eins og það á að vera. Sú áætlun er enn ekki komin fram og verður væntanlega ekki lögð fram fyrir jól.

Þess vegna er mjög ánægjulegt að geta sagt frá því hér að eftir áramót munu þingmenn Samfylkingarinnar flytja þá tillögu sem boðuð hefur verið, þ.e. að flytja málaflokkinn, byggðamálin, úr iðnaðarráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið og freista þess að fá í hann meiri kraft, frekar en það dug- og kraftleysi sem einkennir núverandi byggðamálaráðherra.