132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:47]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það eru ákveðnir hlutir sem vekja athygli í þeim sundurliðunum sem hér fylgja. Setningin „Styrkir á grundvelli umsókna til safna sem falla ekki undir verksvið Safnasjóðs“ vakti athygli mína. Ég tek strax fram að ég greiði atkvæði með breytingartillögunni vegna þess að hér er um gríðarlega viðamikil og merk menningarverkefni að ræða. En ég vil samt sem áður vekja athygli á því að á sama tíma og fjárlaganefnd Alþingis veitir til safna rúmlega 257 millj. kr. fær Safnasjóður til sinna úthlutana einungis milli 70 og 80 millj. kr. og byggða- og minjasöfn undir hatti Þjóðminjasafnsins fá bara um 40,9 millj. kr. Það þýðir að fjárlaganefnd er að taka sér æ meira vald til að fara fram hjá Safnasjóði. Ég spyr: Hvaða söfn eru það sem ekki heyra undir verksvið Safnasjóðs? Þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða við 3. umr., frú forseti, en ég segi já við breytingartillögunni.