132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[10:53]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við verðum vitni að mjög svo erfiðum fæðingarhríðum ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Hér er á ferðinni mjög gott mál sem við í Frjálslynda flokknum höfum lýst yfir að við styðjum. Við fórum yfir það í umræðum fyrir nokkrum dögum þar sem við tókum til máls og fluttum ræður, gagnrýndum málið svolítið vegna þess að það lá ekki fyrir neinn kostnaðarrammi í kringum það en tókum hins vegar heils hugar undir það.

Það kemur mjög á óvart að sjá atkvæðagreiðslutöfluna eins og hún lítur út núna með öllum þessum rauðu ljósum. Það kemur mjög á óvart að ríkisstjórnin vilji ekki styðja þetta þarfa verkefni, að jafna ferðakostnað íþróttafélaga fyrir börn og unglinga sérstaklega innan lands. Það er mikil þörf á slíku. En hér höfum við dæmigert mál sem flokkast undir það sem á íslensku kallast lýðskrum, lýðskrum hjá Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Þetta er notað sem beita fyrir hverjar kosningar til að blekkja fólkið í landinu og það er komið tími til að þessum ljóta leik fari nú að linna.