132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:04]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ekki verður sagt að stjórnvöld hafi hugsað mikið um að auka framlög til málefna barna með þeim 100 milljarða tekjuauka sem streymt hefur í ríkissjóð á undanförnum mánuðum enda verja Íslendingar hlutfallslega langminnst Norðurlandaþjóðanna til málefna barna.

Barnaverndarstofa telur að tilfinnanlega skorti á viðhlítandi meðferðartilboð utan stofnana fyrir síbrotaunglinga en sú meðferð beinist einkum að þeim sem stríða við andfélagslega hegðun og afbrotahneigð, en unglingar með langa sögu alvarlegra afbrota eru sá hópur sem Barnaverndarstofa á erfiðast með að sinna.

Við leggjum því til að 50 millj. kr. framlag fari til þessa verkefnis. Samfylkingin átelur harðlega að þessum málaflokki skuli ekki vera betur sinnt af stjórnvöldum með auknum framlögum. Það sýnir ljóslega að allt tal stjórnarherranna um að bæta stöðu fjölskyldunnar er ekki marktækt.