132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:39]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það var ákaflega ánægjulegt að hæstv. byggðamálaráðherra vaknaði loks til lífsins. Hún kemur og útskýrir fyrir okkur hvers vegna ríkisstjórn sem hún situr í sker niður framlag til byggðaáætlunar. (Gripið fram í.) Núna er Byggðastofnun óstarfhæf, nánast lokuð. Það verður engin byggðastefna 1. janúar næstkomandi og hér er þessi niðurskurður. Virðulegi forseti. Byggðastefna hæstv. ríkisstjórnar er gjaldþrota .

Á síðasta kjörtímabili var hér þingmaður og ráðherra sem hét Páll Pétursson. Hann lýsti því einu sinni yfir og sagði að Framsóknarflokkurinn hefði gleymt landsbyggðinni í markaðssetningu sinni á höfuðborgarsvæðinu. Nú er það svo, virðulegi forseti, að markaðssetning Framsóknarflokksins hefur tekist mjög vel á höfuðborgarsvæðinu. Þeir mælast nánast ekki. Það ber auðvitað að þakka fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra Páli Péturssyni fyrir að vera svo hreinskilinn sem hann var í þessum orðum sínum. Það væri óskandi að hæstv. iðnaðarráðherra, (Forseti hringir.) ráðherra byggðamála væri jafnhreinskilin. (Gripið fram í.)