132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:58]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg í augum uppi, eins og hæstv. ráðherra var að segja, að það þarf að leggja fram frumvarp ef breyta á Rarik í hlutafélag. Mér heyrðist hæstv. ráðherra segja það hér áðan. Það á þá að afgreiða á þeim 3–5 þingdögum sem eftir eru. Þetta eru vinnubrögð hæstv. iðnaðarráðherra. (Iðnrh.: Hvað er að?)

Ég verð að segja hið sama: Hvað er að, virðulegi forseti? Í hvert einasta skipti sem eitthvað kemur frá hæstv. iðnaðarráðherra fer ég að skjálfa. Vegna þess ... (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Gefið ræðumanni hljóð.) Ég heyri að stjórnarsinnum er frekar órótt. Ég skil vel að þeir skjálfi líka. Hæstv. iðnaðarráðherra lagði fram raforkufrumvarpið sem átti að hafa 1% hækkun í för á raforku til almennings. Hver eru dæmin? Hæstv. iðnaðarráðherra hefur fengið það beint í æð, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég hlýt að fá smáviðbót, virðulegur forseti. (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Nei, þú ert búinn.) Hver var niðurstaðan? Allt að 40% hækkun hjá fjölmörgum íbúum dreifbýlisins. (Gripið fram í: Tíminn er búinn.) Hæstv. forseti. (Forseti hringir.) Gætum við fengið (Gripið fram í: Tíminn er búinn.) yfirvegaðan og rólegan fjármálaráðherra í sætið eins og var áður fyrr?

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég hef lokið máli mínu.

(Forseti (SP): Það er allt of mikill hávaði í salnum. Hv. þingmaður talaði miklu lengur en honum var heimilt. En það er greinilega líka mikill skjálfti í hv. þingmönnum.)