132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:02]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hafði ekki séð fyrir mér að sérstakrar skýringar þyrfti við að maður styddi að fjárlagafrumvarpið gengi til nefndar á nýjan leik og 3. umr. En þá gerast þau tíðindi að hæstv. fjármálaráðherra kemur upp í atkvæðagreiðslu um að vísa frumvarpinu til 3. umr. En til hvers notar hann ræðutíma sinn? Til að ráðast á stjórnarandstöðuna með ákaflega ómálefnalegum útúrsnúningum og gefa tillöguflutningi hennar og málafylgju einkunnir eða falleinkunnir. Ég kann heldur illa við þetta.

Ég varð ekkert var við að hæstv. forseti benti hæstv. fjármálaráðherra á að þetta væri í hæsta máta óviðeigandi. Er venjan að fara í efnisumræðu og árásir á andstæðinga sína í atkvæðagreiðslu um að vísa máli milli umræðna? (SKK: Er þetta atkvæðaskýring?) Það er mjög óhefðbundið. (SKK: Er þetta atkvæðaskýring?) Ætli mér leyfist ekki eitthvað svipað og sumum öðrum? Eigum við ekki að leyfa forseta að stjórna fundinum? (Fjmrh.: Ert þú ekki að reyna að stjórna fundinum?) Forseti stjórnaði fundinum áðan. (Fjmrh.: Ert þú ekki að reyna að stjórna fundinum?) Vill ekki hæstv. fjármálaráðherra bara skammast sín? Er það ekki niðurstaðan af þessu? (Fjmrh.: Vill ekki hv. þingmaður bara halda sig við efnið?) (Forseti hringir.) Ég mótmæli þeim snuprum sem komu frá hæstv. fjármálaráðherra um breytingartillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þær eru ekki þensluhvetjandi heldur þvert á móti. Fjármálaráðherra á að skammast sín.