132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:13]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.

Efni frumvarpsins er tvíþætt. Í fyrsta lagi tengist efni frumvarpsins frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2006. Á undanförnum árum hefur Ábyrgðasjóður launa ekki getað staðið undir skuldbindingum sínum samkvæmt lögunum enda hefur útstreymi úr honum verið nokkuð meira en áætlað var við setningu laganna árið 2003.

Í árslok 2003 var eigið fé sjóðsins uppurið og hefur sjóðurinn af þeim ástæðum myndað skuld við ríkissjóð sem í árslok 2004 var 536 millj. kr. Enda þótt teikn séu á lofti um að hámarki hafi verið náð í útgjöldum sjóðsins þykir ljóst að hækka verði gjaldið vegna stöðu hans. Verði gjaldinu haldið óbreyttu eru horfur á að halli sjóðsins haldi áfram að aukast þrátt fyrir að dregið hafi úr útgjöldum hans það sem af er árinu 2005. Þegar miðað er við að árleg útgjöld sjóðsins nemi um 500 millj. kr. má ætla að halli hans verði um 1,1 milljarður kr. í árslok 2006 og tæpir 2,2 milljarðar kr. í árslok 2011, að óbreyttu gjaldi.

Í þessu ljósi, hæstv. forseti, er lagt til að ábyrgðargjaldið. sem ætlað er til að fjármagna Ábyrgðasjóð launa, verði hækkað. Hefur náðst samkomulag við atvinnurekendur um að gjaldið verði hækkað úr 0,04% í 0,1% af gjaldstofni frá og með 1. janúar 2006 verði það samþykkt á Alþingi. Verði ábyrgðargjaldið hækkað í 0,1% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir og árleg útgjöld Ábyrgðasjóðs verða um 500 millj. kr. er gert ráð fyrir að jafnvægi verði náð í rekstri sjóðsins árið 2011.

Í öðru lagi er lögð til breyting á heimild aðila máls til að kæra ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa til félagsmálaráðuneytis. Skipulag íslenskrar stjórnsýslu gerir almennt ráð fyrir tveimur stigum þar sem fyrir hendi eru lægra sett stjórnvöld, sem oftast eru stofnanir sem fara með framkvæmd tiltekinna málefna í umboði ráðherra. Er þá litið á ráðherra sem æðra stjórnvald á því sviði. Til að auka réttaröryggi almennings er gert ráð fyrir að heimilt sé að kæra ákvarðanir til lægra setts stjórnvalds til æðra stjórnvalds sem er þá skylt að taka ákvörðunina til endurskoðunar.

Í gildandi lögum virðist sem miðað sé við þrjú stjórnsýslustig í þessu tilviki. Gert er ráð fyrir málskoti til stjórnar sjóðsins áður en heimilt er að kæra ákvörðun til félagsmálaráðuneytisins. Hins vegar þykir það samræmast betur skipulagi íslenskrar stjórnsýslu að ákvarðanir Ábyrgðasjóðsins, sem teknar eru á grundvelli laganna, séu teknar í umboði stjórnar Ábyrgðasjóðs launa sem síðan væru kæranlegar beint til félagsmálaráðuneytis. Varsla Ábyrgðasjóðs launa er á ábyrgð stjórnar sjóðsins en stjórnin hefur gert þjónustusamning við Vinnumálastofnun um daglega umsýslu fyrir sjóðinn. Annast því starfsfólk stofnunarinnar að jafnaði afgreiðslu umsókna í umboði stjórnar Ábyrgðasjóðs launa.

Þegar upp koma mál sem talin eru þarfnast nánari skoðunar er gert ráð fyrir að starfsmenn leggi þau mál fyrir stjórn sjóðsins sem taki ákvörðun um hvernig málið skuli afgreitt. Þrátt fyrir að einstakar umsóknir hljóti þannig umfjöllun stjórnar sjóðsins verða öll mál afgreidd á sama stjórnsýslustigi. Er þá litið svo á að ákvörðun hafi verið tekin af stjórnvaldinu, þ.e. Ábyrgðasjóði launa, hvort sem málið hefur hlotið umfjöllun stjórnar eða eingöngu starfsmanna.

Í reynd hefur framkvæmd laganna, hæstv. forseti, verið með þessum hætti. Breytingartillaga þessi er gerð í því skyni að treysta og skýra framkvæmdina og tryggja réttaröryggi þeirra sem þurfa að leita til Ábyrgðasjóðsins.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.