132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:27]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra út í frumvarpið sem hér er til umræðu. Mér sýnist hér vera um að ræða flata hækkun sem leggst jafnt á öll laun, há laun og lág laun. Þess vegna kemur ekki persónuafsláttur neitt hér inn í. Þetta er svona skattur sem leggst jafnt á öll laun. Þetta er þá kannski liður í því að launakostnaðurinn — ef ég skil þetta rétt — og kostnaður atvinnurekenda við há og lág laun verður hlutfallslega jafnmikill á launin og ekki er tekið tillit til persónuafsláttar. Það má segja að tryggingagjaldið sé flatur skattur á öll laun.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé nær að skylda atvinnurekendur einfaldlega til þess að kaupa sér tryggingar í stað þess að vera með þetta sjóðskerfi því að þeir sem standa í skilum svo áratugum skiptir eru kannski að greiða jafnvel laun hjá þeim sem koma og fara og eru í samkeppni en fara ekkert eftir reglum. Þeim svíður það jafnvel að þetta fyrirkomulag sé með þessum hætti. Er kannski mögulegt að fara í einhverjar breytingar á innheimtunni?