132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:31]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að eftir því sem álögurnar eru meiri þeim mun minna verður svigrúmið til greiðslu launa en þetta er samt sem áður aðferð sem við höfum verið sammála um að beita. Ég hef ekki orðið var við að atvinnurekendur eða fulltrúar launþegahreyfingarinnar geri athugasemdir við að með þessum hætti reyni menn að strengja þetta öryggisnet.

Ég get hins vegar alveg tekið undir með hv. þingmanni í þeim efnum að að sjálfsögðu er fyllsta ástæða fyrir okkur að leita á hverjum tíma allra leiða til að samhæfa starfsemi ríkisins, fækka stofnunum og einfalda kerfið. Í þeim tilgangi hefur ríkisstjórnin sett af stað átak sem ber yfirskriftina Einfaldara Ísland og einnig sett af stað vinnu sem lýtur að því að einfalda Stjórnarráðið og stjórnkerfið, fækka ráðuneytum og stofnunum. Sú vinna er í fullum gangi.