132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:32]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Á þessu máli verður að taka og það er ekkert annað en ábyrgt af hæstv. ráðherra og ríkisstjórn að takast á við þann vanda sem uppi er með þennan ábyrgðarsjóð. Eins og komið hefur fram í umræðum er um mikilvægan sjóð að ræða. Hann er mikið öryggistæki fyrir launþega sem hafa oftast ekki mikið um rekstur þeirra fyrirtækja sem þeir starfa hjá að segja. Það getur komið sér mjög illa fyrir þá ef þeir missa skyndilega vinnuna, það er svo augljóst að ekki þarf að hafa um það mörg orð.

Ég vildi velta hér upp ákveðnum áhyggjum sem ég hef og tengjast þessu máli. Ég vil einnig þakka fyrir þau málefnalegu andsvör sem hér komu fram, sérstaklega hjá þingmönnum Frjálslynda flokksins, mér fannst þeir taka á málum sem við þurfum að ræða og skoða.

Þegar ég skoða stöðu sjóðsins, ég vitna þá í minnisblað sem var dreift til okkar nefndarmanna, vekur það athygli mína að tekjurnar árið 2004 eru samtals 337 millj. kr. Af því er ábyrgðargjaldið 196 millj. kr. en úr þrotabúum koma 142 millj. kr. Gjöldin eru 741 millj. kr. þannig að hallinn er 404 millj. kr., tekjurnar 337 millj. kr., gjöldin 741 millj. kr. og hallinn upp á 404 millj. kr. Gjöldin lækka miðað við áætlun 2005 en tekjurnar einnig. Þrátt fyrir að ábyrgðargjaldið hækki þá lækka tekjur úr þrotabúum úr 142 millj. kr. í 70 millj. kr. og miðað við áætlun 2006 lækkar það enn og er þá komið niður í 50 millj. kr. Miðað við áætlanir er varða breytingar á frumvarpinu er gert ráð fyrir 100 millj. kr. afgangi árið 2006 miðað við þessa miklu hækkun. Afgangur upp á 100 millj. kr. í því árferði sem nú er — ég held við getum ekki kallað það neitt annað en góðæri hvernig sem horft er á það — og er ég þá að miða við þessa miklu hækkun — gerir það að verkum að maður fer að hugsa til þess hvað gerist ef syrta fer í álinn. Við gætum lent í slæmum málum, eins og t.d. að hér kæmi vinstri stjórn, þá yrði góðærið fljótt að fara. Það segir reglan okkur. Einhverjar aðrar ástæður gætu líka komið til.

Eins og hér hefur komið fram, og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ræddi ágætlega í gær, og eru svo sem engin ný sannindi, þá skiptir máli í hlutum eins og þessum að sparað sé til mögru áranna eins og segir í ágætri bók. Við þurfum að ganga þannig frá, hvort sem um er að ræða þennan sjóð eða Atvinnuleysistryggingarsjóð, að þegar vel stendur á, eins og núna, leggi menn í sjóð þannig að ekki þurfi að fara út í það þegar illa gengur að hækka gjöld á fyrirtækjum eða fara út í einhverjar aðrar aðgerðir til að stoppa upp í gatið.

Ég er sammála hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni þegar hann segir að það þurfi að skoða þessi mál. Hann spurði hvort það gæti verið að menn væru að gera út á sjóðinn og er þá vísa í einhver atriði. Þegar maður lítur á þessa tölu finnst manni hlutirnir ekki alveg ganga upp. Gjöldin eru ansi há miðað við árferðið og þegar maður sér hver þróunin hefur verið, hvernig það sem komið hefur úr þrotabúunum fer lækkandi, ég vísa í reikninginn frá 2004 og síðan áætlun 2005 og 2006, ég hef ekki eldri tölur, þá sér maður að það er eitthvað sem gengur ekki upp. Ég tel æskilegast að vera með sjóði eins og þessa sem mundu safna upp fjármunum í góðæri og við gætum ef því er að skipta lækkað gjöldin þegar syrtir í álinn. Hér er vissulega ekki um að ræða gjald sem leggst á launafólk beint en samt, eins og hæstv. félagsmálaráðherra minntist á, minnkar það svigrúm sem atvinnurekandinn hefur þegar hann greiðir út laun ef hann er með há launatengd gjöld. Það segir sig sjálft. Það kom líka fram hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni þó að hann hafi ekki farið rétt með að þetta væri hlutfallslega sami skatturinn og flatur skattur og kæmi eins niður á þeim sem væru með lág laun og há laun. Þetta er prósentuskattur og þar af leiðandi greiða menn mun lægri prósentu á lág laun en á há laun. Það er nákvæmlega eins og hv. þingmaður segir, þetta er sama prósentan en 1% af þúsund krónum er miklu lægri tala en 1% af 100.000 kr. Þar af leiðandi greiðir atvinnurekandi meira með þeim sem eru með hærri laun en með hinum sem hafa lægri laun. Það er mjög mikilvægt að því sé haldið til haga í umræðu sem þessari ef farið er út í þau mál.

Aðalatriðið er þetta. Við þurfum að skoða það vel í nefndinni hvernig stendur á þeirri þróun sem verið hefur að undanförnu. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson velti því upp hvort verið væri að gera út á þennan sjóð af einstaka atvinnurekendum. Ég hef ekki trú á því að það sé algengt. Það hljóta þá að vera einhver afmörkuð tilvik. En við hljótum að spyrja að því hvort eitthvað slíkt sé í gangi og hvort til einhverra ráða sé hægt að grípa til að draga úr útgreiðslum í sjóðinn. Ég tel að við þurfum að ná meiri fjármunum inn á þessum tímum þannig að úr einhverju sé að spila þegar og ef aðstæður breytast.