132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[12:57]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög mikilvægur sjóður sem hér er verið að fjalla um og full ástæða til að ræða hvort hækkun á tekjum hans með þessum hætti sé nægileg, bæði hvað varðar fjárhæð og líka hvort aðrar ráðstafanir geti orðið til þess að lækka útgjöld sjóðsins. Ég tel að menn hafi ekki gætt að sér hvað varðar þennan sjóð. Ég bendi á að bankar og lánastofnanir taka gjarnan fyrirtæki sem skulda þeim í gjörgæslu sem kallað er og heimta þá upplýsingar af þeim fyrirtækjum, líklega oftar en ársreikningar gefa upplýsingar. Það gæti því jafnvel verið á þriggja mánaða fresti sem bankar og lánastofnanir krefðust stöðumats á fyrirtækjum sem eru að þeirra mati í erfiðri stöðu.

Það liggur líka fyrir að töluvert löngu áður en fyrirtækin fara í gjaldþrot er mjög oft um það að ræða að laun, launatengd gjöld, lífeyrissjóðir og önnur slík gjöld séu ekki greidd af fyrirtækjunum og safnist upp. Það er vissa mín að í mörgum tilfellum hafi t.d. verkalýðsfélög og lífeyrissjóðir ekki gengið hart fram í slíkum málum vegna þeirrar vissu að þeir fái þá fjármuni sem félagsmenn þeirra eiga rétt á úr ábyrgðasjóði og auðvitað er gott að hann sé fyrir hendi. En þarna eru a.m.k. vísbendingar um hvað er að gerast hjá viðkomandi fyrirtækjum sem ættu að skila sér með einhverjum hætti til þeirra sem hagsmuna eiga að gæta og þá væri hægt að taka þau fyrirtæki, sem vísbendingar eru um að standi ekki undir rekstri, í gjörgæslu og sjá til þess að þau fari þá í gjaldþrot eða einhvers konar endurskipulagningu áður en enn verr fer.

Það er stundum ótrúlegt að sjá tölur sem koma upp á borðið þegar fyrirtæki verða gjaldþrota. Þá hefur þeim tekist að safna gríðarlegum skuldum sem virðist ekki vera nokkur glóra í að hafi ekki leitt til þess að fyrirtækin hafi farið miklu fyrr í gjaldþrot. En á endasprettinum eru það oft örlögin að skuldum við starfsfólkið vegna launatengdra gjalda og lífeyrissjóðsgjalda er safnað upp og einhverjir aðrir reikningar borgaðir í staðinn sem viðkomandi finnst meiri ástæða til að greiða í þeirri vissu kannski að starfsfólkið, verkalýðsfélögin og lífeyrissjóðirnir nái fjármunum sínum annars staðar.

Mér finnst menn þurfa að skoða þetta fyrst og fremst með það fyrir augum hvort ekki sé ástæða til að koma á einhverju kerfi þar sem hægt er að fylgjast betur með rekstri fyrirtækja sem farin eru að sýna merki um að þau geti ekki staðið undir sér í rekstri til framtíðar. Ég beini því til þeirra sem fjalla um þetta mál í nefndinni að skoða hvernig fara megi yfir þessa hluti.

Það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af því að verulega mikil aukning geti orðið á útgjöldum hjá sjóðnum í nánustu framtíð. Staða fyrirtækja á landsbyggðinni í sjávarútvegi og mörgum öðrum greinum, í ferðaþjónustu og þjónustugreinum sem eru í raunverulegri samkeppni við innflutning, er bara ákaflega erfið. Við getum alveg átt von á því að meira verði um gjaldþrot en verið hefur og hefur þó nóg verið að gerast hvað það varðar.

Ég vil svo svara því sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talaði hér um. Hann taldi mestu hættuna stafa af því að vinstri stjórn kæmist til valda og þá mundu vandamálin hrannast upp. En hv. þingmaður ætti að líta sér nær því að vandamálin hafa verið að hrannast upp og því miður eru ófriðarblikur á lofti á vinnumarkaðnum og menn þurfa virkilega að gefa því gaum. Það eru gjaldþrot fram undan í fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi og í mörgum öðrum samkeppnisgreinum. Þetta er mikill vandi sem flestum er ljós sem fylgjast eitthvað með í atvinnulífinu, þrátt fyrir það sem menn vilja kalla góðæri.

Erindi mitt í ræðustól var fyrst og fremst að benda á að það hlýtur að vera ástæða til þess að taka alvarlega vísbendingar um að fyrirtæki séu illa rekin. Ég vil taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem fjallaði hér um kennitöluflakkarana, að eitt af viðbrögðunum við þeim vanda gæti verið að slík fyrirtæki væru a.m.k. í sérstakri gæslu og fylgst með rekstri þeirra og að löggiltir endurskoðendur þeirra fyrirtækja gæfu skýrslu til þeirra aðila sem passa eiga upp á að allt fari hér ekki úr böndum þannig að menn gætu þá skipt sér af því. Ég tel að það sé alveg ljóst að í mjög mörgum tilfellum er sú ákvörðun að taka fyrirtæki til gjaldþrotaskipta tekin löngu eftir að átt hefði að vera búið að taka hana.