132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[13:04]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hvar varðar 1. gr. frumvarpsins sem á að einfalda alla málsmeðferð og kæruheimildir svo ekki þurfi að fara fyrir þrjú stig í stjórnsýslunni með kvartanir þá er það í sjálfu sér jákvætt mál en ég tel að gera þurfi miklu betur. Skoða þarf úrskurðarnefndirnar og úrskurði ráðuneytanna í heild vegna þess að fram kom í fyrirspurn á síðasta þingi að nefndirnar væru hvorki fleiri né færri en 42 og kostnaðurinn við þær árið 2003 væri vel á fjórða hundrað milljónir króna. Þarna má vel taka til hendinni og einfalda. Einnig verður að bæta alla málsmeðferð og skýra málsmeðferðarreglur innan þessara úrskurðarnefnda. Þar er víða pottur brotinn. Ég þekki það sjálfur eftir viðskipti mín nýlega við Fiskistofu og úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þar voru mjög einkennileg vinnubrögð á ferðinni. Þar tók t.d. úrskurðarnefnd undir sjálfu forsætisráðuneytinu ákvörðun sem byggði á gögnum sem annar málsaðilinn, sá sem hér stendur, fékk aldrei að tjá sig um eða sjá. Svona má lengi telja. Síðan koma úrskurðir jafnvel frá ráðuneytunum eins og í því tilfelli sem ég lenti í þar sem ráðuneytið úrskurðaði en síðan fór Fiskistofa ekkert eftir þeim úrskurði. Það er með ólíkindum. Ég tel að gera þurfi betur. Þetta er í sjálfu sér lítið skref sem vel má styðja en þessi málefni þarf að taka fyrir í heild sinni.

Hvað varðar tryggingagjaldið má vel vera að ég hafi talað óskýrt í andsvörum þannig að leitt hafi til misskilnings hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni en engu að síður má vel líta á tryggingagjaldið sem flatan launaskatt sem leggst með sama þunga á öll laun. Sama prósentan leggst á há laun og lág laun en hefðbundinn launaskattur gerir það ekki vegna þess að þar kemur persónuafslátturinn inn í. Fólk sem er undir ákveðnum tekjumörkum greiðir t.d. engan launaskatt meðan þeir sem hafa há laun greiða tiltölulega háa prósentu af launum sínum. Það er það sem ég vildi sagt hafa hér og ég vona að það komi skýrt fram. Ég hef einmitt varað við þeirri þróun þegar innheimta á tekjur, t.d. í verkefni sem þetta, að tryggja launagreiðslur eða hvaðeina sem ríkið ætlar sér að gera við fjármunina, að hækka tryggingagjaldið og lækka persónuafsláttinn vegna þess að með því að hækka tryggingagjaldið, sem leggst flatt á öll laun, er verið að auka hlutfallslega skattbyrðina á þá sem hafa lágu launin. Það bætir heldur ekki úr skák þegar verið er að lækka persónuafsláttinn, en hann fylgir ekki launaþróun eða neinu, að það verður enn og aftur til þess að auka skattbyrðina á þá sem hafa lágu launin.

Ég tel að einnig eigi að koma inn á í umræðunni um Ábyrgðasjóð launa hvernig við getum minnkað kostnað vegna þess að þessar ábyrgðir virðast fara vaxandi. Þá er ein leiðin, eins og ég nefndi fyrr í umræðunni, að atvinnurekendur kaupi sér tryggingar. En svo er önnur leið sem einnig mætti fara og hún er sú að verkalýðsfélögin og atvinnurekendur kæmu sér saman um að starfrækja sameiginlega reiknistofu launa til að tryggja að þessar greiðslur berist á réttan stað. Það er nú svo að mörg og flest íslensk fyrirtæki eru mjög lítil og skriffinnskan í kringum launagreiðslur er orðin talsverð og hjá minni atvinnurekendum fer oft mikill tími í þetta. Greiða þarf í ákveðinn lífeyrissjóð og jafnvel aukalífeyrissjóð og svo eru eilífar sendingar á milli fyrirtækja með skattkort. Loks þurfa launagreiðendur að vasast í málum sem þeir kæra sig ekkert um, snerta jafnvel persónuvernd svo sem að greiða meðlagsskuldir og skattskuldir. Það er ótækt að leggja þetta á launagreiðendur.

Ég tel að með því að koma á reiknistofu launa sem verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur gætu jafnvel starfrækt sameiginlega væri hægt að komast hjá svona löguðu. Þetta gæti jafnvel orðið til sparnaðar ef hægt væri að koma á kerfi sem væri sambærilegt Reiknistofu bankanna og þá stæðu menn ekki í þessu hringinn í kringum landið við eldhúsborðið hjá sér síðasta dag fyrir útborgun. Það bætti líka ákveðið eftirlit lífeyrissjóða og verkalýðsfélaga með greiðslunum. Við værum þá ekki í þeim sporum sem við stöndum í í dag að auka útgjöld ríkisins heldur væri komið þarna ákveðið kerfi sem væri skilvirkara í að tryggja þessar greiðslur á rétta staði. Þannig væri hægt að minnka útgjöld og einnig yrði þetta kerfi sanngjarnara vegna þess að þeir atvinnurekendur sem fara eftir leikreglunum og starfrækja fyrirtæki sín svo árum og jafnvel áratugum skiptir og greiða laun á réttum tíma og í ábyrgðasjóðinn séu ekki að greiða fyrir þá sem hafa stofnað fyrirtæki ekki bara einu sinni heldur margoft, eins og hefur komið fram í umræðunni, og sett þau jafnoft á hausinn. Þetta er mál sem þarf að fara að skoða, hvort ekki sé hægt að tryggja að þessar greiðslur fari á réttan stað þannig að einfalda megi skil á vörslufé og sköttum á réttum tíma.

Þetta er eins og áður segir ágætismál að því leyti til að það er svona hænuskref í þá átt að einfalda stjórnsýsluna og við fögnum því.