132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Búnaðargjald.

332. mál
[13:13]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, á þingskjali 364.

Þann 10. maí síðastliðinn tóku gildi lög nr. 68/2005, um breytingu á lögum nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins, sem veittu mér heimild til þess að selja allar eignir og skuldbindingar sjóðsins. Ég fól einkavæðingarnefnd að annast sölu lánasjóðsins. Því ferli er nú lokið með þeim árangri sem staðfestur verður hér í fjárlögum. Lánasjóðurinn seldist á 2,6 milljarða og niðurstaða ríkisstjórnar og þingsins var sú að verja þeirri upphæð í Lífeyrissjóð bænda til þess að styrkja hann og efla til framtíðar. Um leið hefur farið fram mikil endurskipulagning á fjármálum bænda. Það kom til af því að áhugi bankanna á að taka þátt í lánastarfsemi til landbúnaðarins og sveitanna var gríðarlegur og um það ríkir eðlilega mikil samkeppni. Það var Landsbanki Íslands sem eignaðist Lánasjóð landbúnaðarins og fer með þau lán sem þar voru. Hann hefur sett upp stöðvar um allt land til að sinna þeirri starfsemi af miklum myndarskap en aðrir bankar hafa einnig eins og ég sagði mikinn áhuga fyrir lánastarfsemi sveitanna.

Virðulegur forseti. Með frumvarpi þessu er verið að leggja til breytingu á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald. Búnaðargjald var einn af tekjustofnum Lánasjóðs landbúnaðarins. Með frumvarpinu er verið að leggja til að það gjald sem áður rann til Lánasjóðs landbúnaðarins falli niður og skipting búnaðargjalds breytist.

Lagt er til að búnaðargjaldið lækki í 1,2% í stað 2% áður. Jafnframt er lögð til breyting á viðauka laganna og hlutfallslegri skiptingu gjaldsins á milli Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda, búgreinasamtaka og Bjargráðasjóðs að teknu tilliti til breyttrar prósentu búnaðargjaldsins. Ég vek athygli á því að í frumvarpinu er að finna töflu sem sýnir skiptingu á búnaðargjaldinu eins og það er samkvæmt núgildandi lögum og eins og breytingartillagan leggur til að skiptingin verði. Hefur orðið samstaða hjá Bændasamtökunum og öðrum um þá skiptingu sem hér er lögð til.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.

Hitt frumvarpið sem ég mæli fyrir er frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, á þingskjali 365.

Þær breytingar sem verið er að leggja til eru til komnar vegna sölu á Lánasjóði landbúnaðarins, og frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi og varðar lækkun búnaðargjalds en hluti þess rann til Lánasjóðs landbúnaðarins.

Í 19. og 20. gr. laganna nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, eru ákvæði sem taka til verðskerðingar- og verðmiðlunargjalda. Með frumvarpi þessu er lagt til að verðmiðlunargjald við flutning sauðfjár að afurðastöð og kindakjöts á markað falli niður í 19. gr. laganna, en það gjald nam 5 kr. á kíló. Í stað þess er lagt til að verðskerðingargjald samkvæmt 20. gr. laganna verði tekið upp á kindakjöt sem nemi 2 kr. á kíló. Þó er lagt til að það verði á heildsölustigi eins og var í 19. gr. laganna og skuli því gjaldi eingöngu varið til markaðsmála. Er því verið að lækka gjaldið um 3 kr., þ.e. úr 5 kr. í 2 kr. Jafnframt er lagt til að verðskerðingargjald af nautakjöti falli alfarið niður.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.