132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Búnaðargjald.

332. mál
[13:18]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Þau tvö frumvörp sem hér eru til umræðu eru nauðsynlegt framhald þess að Lánasjóður landbúnaðarins var seldur, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra. Mér er kunnugt um að breytingar á lánamarkaði hafa verið mjög hagstæðar fyrir ýmsa bændur. Ég þekki t.d. eitt dæmi þar sem útgjöld einnar fjölskyldu vegna lána sem hvíldu á búinu lækkuðu um 800 þús. á ári eftir að bankinn var búinn að taka málefni þeirra til skoðunar og skuldbreyta. Það munar um minna, frú forseti.

Ég er ekki viss um að dæmin verði öll með svo hagstæðri niðurstöðu. Því miður sinnir hið almenna bankakerfi ekki hverjum sem er og alls ekki með sömu kjörum alls staðar. Þess vegna er nauðsynlegt að bændur sem búa afskekkt eða við einhver önnur skilyrði sem bankarnir telja ekki hagstæð geti átt athvarf á öðrum stað fyrir tilstilli ríkisvaldsins. Byggðastofnun hefur komið þar við sögu, en eins og alkunna er á sú stofnun einmitt mjög í vök að verjast gagnvart kæruleysi — það mætti jafnvel orða það sterkar — hæstv. iðnaðarráðherra, ráðherra byggðamála. Því er ekki víst að hægt verði að fela þeirri stofnun að sinna þeim bændum sem eiga í vök að verjast og fá ekki inni hjá almenna bankakerfinu þó að ég óski þess að Byggðastofnun fái það hlutverk að sinna þeim eins og reyndar fleirum sem eiga undir högg að sækja. En til þess þarf hún stuðning ríkisvaldsins.

Tíminn á eftir að leiða í ljós hvernig bankakerfið mun sinna bændum. En ég óska þess að flestir og reyndar allir sitji við sama borð hjá bankastofnunum og að Landsbankinn taki þetta hlutverk sitt alvarlega.