132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Búnaðargjald.

332. mál
[13:21]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það vakti athygli mína að hæstv. landbúnaðarráðherra var nokkuð drjúgur með sinn hlut í því að hafa afrekað það að leggja niður Fjárfestingarlánasjóð landbúnaðarins sem hét undir það síðasta Lánasjóður landbúnaðarins, áður stofnlánadeild. Það má vel til sanns vegar færa að þetta líti ágætlega út fyrsta kastið. Síst geri ég lítið úr því að gott er að fá fjármuni til að styrkja Lífeyrissjóð bænda. Hins vegar held ég að það sé allt of snemmt að dæma um það hvernig breytingin á síðan eftir að reynast landbúnaðinum og byggð í sveitum landsins og kjörum bænda þegar til lengri tíma er litið. Ég er ekki viss um, því miður, að áhugi bankanna á því að lána fé á hagstæðum kjörum út í afskekktar byggðir Íslands reynist í öllum tilvikum til staðar á komandi árum eða aðstæður þannig á fjármálamörkuðum að menn sæki til einkarekinna bankastofnana lánsfé á hagstæðari kjörum en þeir gætu gert til opinbers fjárfestingarlánasjóðs með ríkisábyrgð. Það gengur illa upp miðað við fræðin að svo geti verið nema við afar sérstakar og tímabundnar aðstæður, því auðvitað á að mega reikna með því að opinber lánasjóður með ríkisábyrgð fái að breyttu breytanda til lengri tíma litið hagstæðari lánskjör eða fjármögnun á lánsfé til endurlána en einkaaðilar, jafnvel þó um stóra og sterka banka sé að ræða sem hafa á köflum náð mjög góðum árangri. Nú ber að vísu aðeins á því að álag ofan á heimsmarkaðsvexti hjá bönkum og kannski ekki síst íslenskum sé að hækka. Það voru m.a. af því fréttir núna sem ég ætla ekki að gera sérstaklega að umtalsefni hér. Þær vekja þó athygli manns og gera mann nokkuð hugsi yfir stöðunni.

Menn verða að hafa í huga að ástæðan fyrir því að bankarnir hafa m.a. boðið bændum góð kjör sem og eiginlega öllum öðrum sem viljað hafa eiga við þá viðskipti, húsbyggjendum, kaupendum o.s.frv., er náttúrlega sú að mikið fjármagn hefur verið á lausu, vextir eru með afbrigðum lágir, í sögulegu lágmarki í Evrópu, þannig að bankarnir hafa átt mjög auðvelt með að færa inn í landið til að endurlána fé á lágum vöxtum, mjög lágum borið saman við það vaxtastig sem er hér á landi á innlendum fjármálamarkaði, sérstaklega þeim hluta hans sem sætir áhrifum af stýrivöxtum Seðlabankans. Þetta er vegna þess, eins og áður sagði, að vaxtastig í löndunum umhverfis okkur, sérstaklega í Evrópu, er afbrigðilega lágt. Það er í sögulegu lágmarki vegna hægagangs í hagkerfunum þar og það er mikið fjármagn á lausu að leita ávöxtunar.

Vandi lánasjóðsins var sá að hann var með bundna samninga og gat ekki tekið inn með sama hraða og hinar stóru fjármálastofnanir hagstæðari vaxtakjör. Það var raunverulegur vandi sem að sjálfsögðu þurfti að horfast í augu við og takast á við. Hvort besta aðferðin hafi verið sú að selja þessa starfsemi í heilu lagi og leggja þar með niður allt sem heitir opinber fjármögnun eða fjárfestingarlánastarfsemi á vegum opinberra aðila hef ég miklar efasemdir um. Allir tala eins og t.d. einkavæðing fjárfestingarlánasjóða sjávarútvegsins og iðnaðarins hafi verið ein samfelld sigurganga og menn gleðjast óskaplega fyrir hönd þeirra banka sem urðu til úr þeim sjóðum og skila stórum hagnaðartölum. Ég held að menn ættu aðeins að horfa á hinn endann. Jafnvel þó að svona mikið framboð hafi verið á fjármagni á undanförnum árum þekki ég mýmörg dæmi þess að bæði iðnaðar- og sjávarútvegsfyrirtæki í afskekktum héruðum landsins hafi lent í miklum erfiðleikum með undirstöðufjármögnun verkefna einfaldlega vegna þess að menn búa á Vestfjörðum eða Norðausturlandi og þykja ekki sérstaklega spennandi viðskiptavinir eða hafa mjög góð veð í iðnaðarhúsnæði eða jafnvel fiskiskipum. Ætli það eigi nokkuð alltaf eftir að vera svo líka varðandi t.d. búrekstur og jarðir sem fjærst liggja þéttbýlissvæðunum og eru minnst eftirsóttar af slíkum, þykja þar af leiðandi lakari veð, að menn standi í biðröðum til að lána þeim peninga í atvinnurekstur sem er því miður ekki líklegur til að að vera neitt sérstaklega arðsamur, vonandi bærilega en væntanlega ekki þannig að hann keppi við gullgreinar þjóðfélagsins á komandi árum. Þá kann að fara svo að menn sakni vinar í stað þar sem var opinber fjárfestingarlánasjóður sem með ríkisábyrgð að baki gat tryggt mönnum grunnfjármögnun í fjárfestingum sínum á hagstæðum kjörum, gat deilt kjörum með atvinnugreininni í þeim skilningi að hann gat tekið á sig að hluta til sveiflur og erfiðleika í greininni með lengingu lána og skuldbreytingum o.s.frv. Aftur og aftur var stofnlánadeildin og síðan Lánasjóður landbúnaðarins notuð þannig. Ég tel því fulla ástæðu til þess að menn séu vel meðvitaðir um það.

Það er ekki endilega eins og öll vandamál séu gufuð upp og horfin og menn búnir að höndla sannleikann í eitt skipti fyrir öll og eilífðarsælu með því að selja og leggja niður Lánasjóð landbúnaðarins. Ég áskil mér allan rétt til þess á komandi árum að skoða hvort nauðsynlegt geti orðið að koma aftur upp einhverju slíku kerfi sem er starfrækt í flestum löndum í kringum okkur í einhverjum mæli. Þar er við lýði einhvers konar stuðningur hins opinbera annaðhvort í formi stofnlána eða fjárfestingarlánastarfsemi eða í formi beinna styrkja sem koma þá til móts við menn í þeim tilvikum sem ástæða er talin til, til dæmis gagnvart ungum bændum, jarðakaupum o.s.frv.

Ég held að það hefði að mörgu leyti verið ágætislausn í þessum efnum ef menn hefðu látið á það reyna hvort viðskiptabankar og sparisjóðir gætu ekki tekið í aðalatriðum við venjulegri fjármögnun atvinnurekstrarins sem slíks og veitt landbúnaðinum og bændum þjónustu að því leyti. Eftir hefði staðið sá möguleiki t.d. að hafa jarðakaupalán á öðrum og hagstæðari kjörum sem ríkið væri á bak við með ábyrgð og mögulega sérstök lán til bænda sem væru að hefja búskap. Staðreyndin er líka sú að það fyrirkomulag sem var í Stofnlánadeild landbúnaðarins og Lánasjóður landbúnaðarins erfði að nokkru leyti þó að í minna mæli væri studdi sérstaklega við bakið á þeim sem voru að hefja búskap og voru í fjárfestingum. Það gerðist í gegnum búnaðarmálasjóðsgjaldið sem jafnaði í raun út kjörin. Þannig tóku þeir sem voru orðnir rótgrónir í greininni og búnir að koma sér vel fyrir í reynd í gegnum þessa félagslegu jöfnun þátt í því að styðja við bakið á hinum sem voru að byggja sig upp og fjárfesta á hverjum tíma. Þetta var sem sagt ákveðið millifærslukerfi í reynd innan greinarinnar þar sem grónari aðilarnir á hverjum tíma studdu við bakið á þeim sem voru að koma í greinina neðan frá. Ég sé ekkert nema gott við það að menn hafi slíkt fyrirkomulag með einhverjum hætti og taki félagslega á málinu að því leyti til. Það er enginn minnsti vafi á því að þetta nýttist landbúnaðinum mjög vel á löngum skeiðum og stóð á bak við mikla uppbyggingu í þeirri grein. Hún væri ekki sú sama og hún er í dag ef ekki hefði verið þetta fyrirkomulag.

Ég efast ekkert um að það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður nefndi að ýmsir bændur hafa við þær aðstæður sem nú hafa verið uppi getað notað sér þessar breytingar til að endurskipuleggja fjárhag sinn. Þeir hefðu út af fyrir sig getað gert það hvort sem var með uppgreiðslu lána og síðan fjármögnun þeirra á nýjum grunni með svipuðum hætti og margir húsnæðiskaupendur eða -byggjendur hafa gert og þurfti ekki endilega sölu lánasjóðsins til. Því hefði verið hægt að koma þar fyrir í því fyrirkomulagi.

Ég ætla ekki að hafa mörg um það sem eftir stendur, þ.e. búnaðargjaldið og tilhögun þess á hinum nýja grunni og þá lækkun sem leiðir af því að Lánasjóður landbúnaðarins hverfur og sá hluti gjaldsins sem þangað rann undir lokin, sem hafði auðvitað verið lækkaður á undanförnum árum ítrekað. Ef um þetta fyrirkomulag er gott samkomulag þá skiptir það miklu máli. Ef það er sátt um það milli búnaðarsamtakanna og einstakra búgreinafélaga og búnaðarsambanda og þeirra sem þarna eiga að deila með sér tekjustofninum þá skiptir það miklu máli og er fyrir miklu. Þó má spyrja hvort það sé pínulítið verið að nota tækifærið og aðeins hækka þetta gjald í reynd sem gengur til stofnana landbúnaðarins. Ég er ekki alveg grunlaus um að menn séu að fá þarna far fyrir pínulítið sem gangi til þessa rekstrar ef tekið er mið af skiptingu gjaldsins horft aftur í tímann. Því hefur a.m.k. verið hreyft í mín eyru að þarna sé ekki að fullu verið að lækka gjaldið miðað við hlutföllin sem á sínum tíma runnu annars vegar til félagsstarfsemi bænda og hins vegar stofnlánadeildar eða lánasjóðs. Menn geta farið betur ofan í saumana á þessu í hv. landbúnaðarnefnd. Þetta er tæknilegt mál sem þarf að rýna í. Ég er ekki fær um að tjá mig frekar um það hér eða hafa mikla skoðun á því fyrr en ég hef haft meiri tíma til að skoða það.

Frú forseti. Þetta eru hugleiðingar mínar við 1. umr. málsins.