132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Búnaðargjald.

332. mál
[13:32]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þær málefnalegu ræður sem hér hafa verið fluttar við umræðuna. Hv. þingmenn sem hafa talað hafa komið inn á nokkur atriði sem skipta máli. Ég hygg að það sé rétt sem fram kom í máli hv. 6. þm. Norðvest., Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, að bændur hafa auðvitað orðið varir við miklar breytingar og tilboð. Þeir geta samið fyrir sína hönd um ný kjör á skuldbindingum sínum til framtíðar, lengt lán sín, upp skorið lægri vexti o.s.frv. þannig að þeir verði betur staddir eftir.

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á peningamarkaði sem ekkert síður snerta sveitir landsins en landið í heild sinni. Starfsemi bankanna innan lands og útrás þeirra erlendis hefur skilað miklu fyrir þjóðarbúið og eðlilegt að landbúnaðurinn njóti þess einnig. Á stuttum tíma, 5–10 árum hefur jarðaverð á Íslandi hækkað mjög verulega og jarðir seljast á mun sanngjarnara verði en þær gerðu, voru jafnvel ekki taldar góð söluvara og skiluðu eigendum sínum náttúrlega mjög ósanngjörnu verði ef þeir brugðu búi. Þarna hefur orðið gríðarleg breyting sem er hagstæð a.m.k. þeim sem eiga jarðirnar bæði til að eiga viðskipti við sína banka og ekki síður sem góð eign í samfélaginu, enda mikill áhugi fyrir jörðunum og sveitirnar njóta þess áhuga þjóðfélagsins má segja að fólk vilji eiga eignir í sveitum og vera þátttakendur í íslenskum landbúnaði og njóta þess að eiga athvarf í íslenskri náttúru og þess vegna hinum nýju ef ekki þeim eldri búgreinum sem við rekum.

Oft er spáð í framtíðina og báðir hv. þingmenn sem hér hafa talað hafa vissulega áhyggjur af henni. Það er góðra gjalda vert og ekki veit ég meira en aðrir um framtíðina. Erfitt er að spá um hana og breytingarnar geta komið til baka eins og kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég vil þó segja við hv. þingmann að í sjálfu sér er ég ekkert drjúgur með þann hlut að selja Lánasjóð landbúnaðarins. Ég hef sagt úr þessum ræðustól að hefði því verið spáð að það yrði hlutverk mitt, við skulum segja fyrir 5–6 árum, í upphafi ráðherraferils míns yrði það hlutskipti mitt að selja lánasjóðinn þá hefði ég sjálfsagt neitað því. En þjóðfélagið hefur gengið í gegnum örar breytingar, staða sveitanna hefur styrkst verulega og áhugi bankanna aukist, þeir hafa verið að bjóða lægri vexti en lánasjóðurinn. Þannig var staðan þrátt fyrir niðurgreidda vexti Lánasjóðs landbúnaðarins að bændur voru að greiða upp lán sín í lánasjóðnum og hverfa úr viðskiptum við hann. Ýmsir kvörtuðu einnig yfir hinum lögbundna 1. veðrétti sem skapaði oft erfiðleika bæði gagnvart bankakerfi, lífeyrissjóðum og fleiru. Þetta kerfi bjó því orðið við gagnrýni fyrir utan hitt sem blasti við og var ef til vill alvarlegasta staðan að sjóðurinn í rauninni lifði og gat starfað með lægri vexti með því að sækja 140 milljónir í vasa bænda til að greiða niður vextina. Þó að þetta hafi verið gott kerfi eins og hv. þingmaður rakti hér og ég tek undir með honum á síðustu áratugum — við skulum taka þá sem ekki eru í framkvæmdum, menn með lítil bú sem hafa ekkert verið að byggja upp hjá sér en greiða af þess vegna af minni tekjum sínum til lánasjóðsins og eru í rauninni sjálfir að niðurgreiða vextina fyrir þá sem byggja upp stóru fjósin og annað.

Ég verð að segja fyrir mig að þegar ég fór yfir þessa stöðu sem mér bar að gera sem landbúnaðarráðherra og ábyrgðarmaður sjóðsins sá ég fyrir mér að 3,5 milljarðar í eigin fé sjóðsins voru dýrmætar eignir bændanna og ríkisvaldsins þess vegna. Þeir sem fóru yfir málið sáu fyrir sér að ef þetta gjald yrði fellt niður, þær 140 millj. kr. sem bændur hafa vesrið að greiða í sjóðinn, mundi það gerast á 5–10 árum að allt eigið fé sjóðsins brynni upp eða þá að menn yrðu að hækka vexti sjóðsins og þar með yrði hann ekki lengur samkeppnisfær við peningakerfið eins og það stendur í dag.

Þess vegna fannst mér það í raun skynsamlegt og bændur urðu mér sammála um það og ég held að töluverð samstaða sé um þessa óhjákvæmilegu stöðu dagsins og þann góða vilja ríkisstjórnarinnar og þingsins að verja söluandvirði sjóðsins til að styrkja þennan veikasta lífeyrissjóð landsmanna, Lífeyrissjóð bænda, sem nú fyrir áramót fær í sinn hlut 2,6 milljarða og stendur þá á öðrum grunni. Þetta var sú staða sem ég stóð frammi fyrir og fannst ég ekki eiga annan kost en bjarga þessum verðmætum. Um leið sé ég árangurinn af því að bankarnir, allir hinir stóru þrír og ekki síður sparisjóðir landsmanna, sýna sveitunum nýjan og mikinn áhuga. Ég gleymi ekki því sem bankastjóri Landsbankans lýsti yfir þegar hann tók við Lánasjóði landbúnaðarins eftir að hafa keypt hann, þá sagði hann það sem ég reyndar vissi að engin peningastofnun á Íslandi hefði í rauninni tapað á viðskiptum við íslenska bændur. Þar hefur ekki þurft að afskrifa neitt fé að neinu ráði og það hafa verið örugg og góð viðskipti og eru í rauninni öruggari núna en nokkru sinni fyrr vegna þess sem hefur gerst á síðustu árum að jarðaverð bænda hefur hækkað eins og ég gat um áðan.

Oft er rætt um hinar afskekktu byggðir og byggðir sem eru fjarri stóru kaupstöðunum. Ég þekki það bæði sem formaður Lánasjóðs landbúnaðarins og stjórnarmaður þar um langa tíð að það voru ekki síst bændur í þeim byggðum sem alltaf greiddu fyrst upp og stóðu í fullkomnum skilum við lánasjóðinn, mjög ábyrgt fólk í fjármálum. Ég hygg að það geti einnig komið í ljós að þetta er ekki verst setta fólkið hvað varðar að standa skil eða fá lán því að sú saga er með þeim hætti sem bankastjóri Landsbankans lýsti yfir. Við sem höfum setið í stjórn lánasjóðsins höfum þá reynslu að það var ekkert síður fólk í hinum afskekktu byggðum sem alltaf stóð í skilum á réttum tíma og greiddi upp skuldir sínar.

Það er einhvern veginn þannig að í því breytta samfélagi sem við lifum í má segja að landið allt sé í tísku, ekkert síður hinar afskekktu byggðir sem eiga á breyttum tímum ný tækifæri bæði í nýjum landbúnaði, ferðaþjónustu og fleiru. Þess vegna trúi ég því að bankarnir muni horfa til þeirra og beina viðskiptum þangað. Ég get auðvitað tekið undir með hv. þingmönnum að um framtíðina veit maður lítið og það kann vel að vera að heimurinn og Ísland breytist og menn þurfi að endurskoða þetta eins og svo margt annað og öll erum við á einhvers konar hringferð í lífinu. Eitt fer og annað kemur og þannig heldur þetta áfram.

Ég segi aðeins við lok þessarar umræðu að ég held að það hafi verið íslenskum landbúnaði farsælt að taka þessa ákvörðun með hin miklu verðmæti sem lágu í Lánasjóði landbúnaðarins, lækka gjöldin sem bændurnir greiða með þeim hætti sem hér er lagt til og um leið að fá skuldbreytingar og bætta stöðu og heildarviðskipti við lánastofnanir sínar sem munu skila þeim vonandi miklu.

Hæstv. forseti. Þetta var í rauninni óhjákvæmileg niðurstaða og ég trúi því í dag að hún verði bændum til farsældar, þeim sem eru að byggja landbúnaðinn upp en ekkert síður þeim öldruðu sem farnir eru að nota lífeyrissjóðinn, þeir eiga sterkari sjóð á eftir. Ég horfi því kinnroðalaust á þessa niðurstöðu og þakka í rauninni þá samstöðu bæði bænda og þingmanna um málið, og eins og ég finn hana hér.