132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:21]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að mér kom á óvart að hv. þingmaður væri skyggn. Með því að segja að það hafi tekið þrjú ár að reka þann til réttar er hér stendur í umræddu máli er hann að lýsa því yfir að hann hafi vitað það langt á undan þeim er hér stendur, og hvað þá öðrum, að ég yrði nokkurn tímann félagsmálaráðherra. Ég hef ekki sinnt því starfi nema í rúm tvö ár. Látum það þó liggja á milli hluta, hæstv. forseti.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr hvort frumvarpið sé algjörlega í samræmi við vilja ASÍ. Eins og kom fram í ræðu minni áðan, hæstv. forseti, hefðu sumir viljað ganga lengra en gert er ráð fyrir í frumvarpinu, aðrir skemur. Það er engin launung á því að forsvarsmenn ASÍ, a.m.k. sumir hverjir, hafa lagt á það þunga áherslu að frumvarpið tæki sömuleiðis til ábyrgðar notendafyrirtækja. Samiðn hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis, og sent mér bréf þar um, og þar kemur fram áhersla til þeirrar áttar af hálfu verkalýðsforustunnar.

Sömuleiðis hefur ýmsum atvinnurekendum þótt nóg um og fulllangt gengið, og þau sjónarmið eru sömuleiðis á lofti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, hæstv. forseti, ég tel að vel hafi tekist til við frumvarpssmíðina. Ég tel hóflega langt gengið, ég tel að verði þetta frumvarp samþykkt sem lög héðan frá Alþingi höfum við í höndunum verkfæri sem mun gagnast í þeirri baráttu sem við ætlum í og frumvarpið er raunverulega yfirlýsing um.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hvort fyrirhugað sé að breyta öðrum lögum til að tryggja að ríki og sveitarfélög fái það sem þeim ber af skatttekjum höfum við farið yfir það. Okkur virðist, hæstv. forseti, að heimildir séu nægar í gildandi lögum en ég hef sagt það, bæði hér og áður, að ég tel að í einhverjum tilvikum hafi skort á að þeim væri fylgt nægilega vel eftir og að samhæfing aðgerða væri nægilega góð.