132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Í framhaldi af þeim orðum sem hæstv. ráðherra sagði finnst mér mjög merkilegt að hæstv. félagsmálaráðherra skuli segja það blákalt að þeir ráðherrar sem áttu að sjá um að innheimt væru rétt gjöld af þessu erlenda vinnuafli hefðu ekki gert það sökum reynsluleysis.

Frú forseti. Þó að ég ætli ekki að dvelja lengi við þetta er óhjákvæmilegt að vekja eftirtekt á því að sá sem gegndi embætti fjármálaráðherra meðan á þessu stóð er sennilega einhver reyndasti ráðherra í því embætti um langt skeið. Hæstv. núverandi utanríkisráðherra, Geir H. Haarde, verður tæpast vændur um reynsluleysi. Mér finnst fulllangt vera seilst og jafnvel um hurð til lokunar þegar hæstv. félagsmálaráðherra bregður hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra um reynsluleysi og að það sé ástæðan fyrir því að ekki sé hægt með réttu lagi að innheimta þau gjöld sem ber að innheimta í ríkissjóð. Auðvitað væri fróðlegt, frú forseti, að fá hæstv. utanríkisráðherra til þessarar umræðu til að spyrja hann út í hvort svo sé. Ég ætla ekki að fara fram á það.

Ég get að vissu marki fallist á að það sé rétt hjá hæstv. félagsmálaráðherra að við höfum andspænis þessu vandamáli staðið frammi fyrir nýjum úrlausnarefnum sem við höfum ekki tekist á við áður. Hins vegar er ekki hægt að halda því fram að menn hafi ekki verið varaðir við. Frá því að fyrsta starfsmannaleigan fór að flytja hingað inn erlent vinnuafl svo einhver brögð urðu að var hæstv. félagsmálaráðherra, hvernig sem hann situr nú, einmitt varaður við þeirri þróun. Þess vegna, frú forseti, sagði ég áðan að það hefði tekið mörg missiri að draga hæstv. félagsmálaráðherra til réttar í málinu.

Ég veit ekki hvort það eru nokkur mál sem við höfum þurft að halda jafnlangar og -harðar og -tíðar ræður um og einmitt um þau vandamál sem tengdust erlendu starfsmannaleigunum. Hæstv. félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, sagði svo að segja fyrstu dagana sem hann steig hér inn á þing að hann teldi þá að nægileg úrræði væru í lögum til að sporna gegn afleiðingum þessa vandamáls. Við sem vorum í stjórnarandstöðunni töldum að svo væri ekki og nú hefur einfaldlega komið í ljós að þróunin varð með svipuðum hætti og við töldum.

Ég vil hins vegar segja að ég fagna auðvitað hverjum týndum sauði sem snýr af villu síns vegar og ég fagna því að hæstv. félagsmálaráðherra er svo einbeittur í því að koma frumvarpinu í gegn. En það er táknrænt um afstöðu ríkisstjórnarinnar í málinu að hann sagði sjálfur í upphafsræðu sinni að það hefði verið eitt mikilvægasta samningsatriðið af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að þetta yrðu það sem hann kallaður sjálfur eðlilegar reglur um starfsmannaleigur. Ég spyr þá, frú forseti: Hvers konar ríkisstjórn er það sem þarf nánast að knýja með valdi og hótunum um verkföll til að setja það sem ráðherrann sjálfur kallar eðlilegar reglur?

Af því að ég er sáttfús í þessu máli og á þessum degi og fagna framkomu þessa frumvarps ætla ég ekki að elta frekar ólar við það en mér finnst málflutningur hæstv. ráðherra bera öll merki þess að hann veit að hann hefði átt að vinna miklu hraðar að þessu máli. Ástæðan fyrir seinaganginum er sú að hann seldi fulltrúum Vinnuveitendasambandsins sjálfdæmi í málinu. Þriggja manna nefnd var sett niður til að semja um þessi lög og hæstv. ráðherra sagði sjálfur í ræðu nýlega, á ársfundi Samtaka atvinnulífsins, að hann liti svo á að sitt hlutverk, hlutverk síns ráðuneytis, væri að vera sáttasemjari í málinu. Hvað þýðir það? Það þýðir einfaldlega að þessi eini fulltrúi atvinnurekenda, VSÍ, gat einfaldlega sagt nei. Hann gat bara móast. Þá gerðist ekkert vegna þess að það var jafnstaða, pattstaða, í nefndinni á meðan fulltrúi hæstv. ráðherra gerði ekki neitt. Það er alveg klárt að ef hæstv. ráðherra hefði látið sitt fólk taka á í þessu máli með svipuðum hætti og verið er að gera núna í þessu frumvarpi hefðum við losnað við mörg vandamál sem þessu hafa tengst og mörg ljót mál hefðu ekki orðið að veruleika.

Mér hefur, frú forseti, þótt dapurlegt að fylgjast með því á síðustu árum hvernig Ísland hefur orðið að gróðrarstíu fyrir heldur óprúttnar erlendar starfsmannaleigur. Þær starfsmannaleigur hafa komið ljótu orði á atvinnugrein sem að öðru leyti á töluvert sterkt erindi inn í atvinnulíf nútímans sem þarf á sveigjanleika að halda. Úti í Evrópu hafa, eins og hér á Íslandi, verið hefðbundnar vinnumiðlanir sem miðla starfsmönnum til skamms tíma. Þær hafa unnið ákaflega gott starf og það er nauðsynlegt að rifja það hér upp að við eðlilegar aðstæður hafa vinnumiðlanir sem miðla tímabundnum starfskrafti töluvert mikilvægu hlutverki að gegna. Þær sjá til þess að hreyfanleikinn er meiri en áður og það er eitt af því sem eykur samkeppnishæfni. Þær eru líka oft fljótari en hefðbundnar ríkisreknar starfsmannaleigur til þess að samræma framboð og eftirspurn á markaðnum, þær hafa oft verið fljótari að finna störf fyrir atvinnulaust fólk. Það sem er einna jákvæðast, af því að ég hef skoðað þetta svolítið í öðrum löndum, við hefðbundnar starfsmannaleigur er hvernig þær hafa í sumum löndum náð að finna fólki af erlendum uppruna, t.d. hælisleitendum í Svíþjóð, störf á vinnumarkaði sem hafa leitt til þess að þeir ágætu nýbúar hafa náð varanlegri fótfestu á vinnumarkaði.

Þetta er nauðsynlegt að taka fram vegna þess að það eru einmitt umræddar ribbaldaleigur sem hafa einkennt starfsemina á Íslandi sem hafa komið óorði á atvinnugreinina hér. Við höfum séð það hér á síðustu árum, og það er kannski þess vegna sem ég hef verið ansi fúll út í ríkisstjórnina, að þessar erlendu starfsmannaleigur hafa misnotað fólk sem kemur frá fátækari hlutum Evrópu þar sem atvinnuleysi ríkir. Fjölskyldufeður hafa ekki átt fyrir framfærslu síns fólks og við slíkar aðstæður láta menn bjóða sér ansi mikið. Þess vegna reyndist unnt að gera það sem gert var við Kárahnjúka á sínum tíma, að bjóða portúgölsku verkafólki upp á vist sem við Íslendingar hefðum sagt að væri ekki hundum bjóðandi — þeim var boðið upp á kjör sem voru brot á öllu velsæmi og öllum samningum. Það þurfti heila verkalýðshreyfingu til að fara á Kárahnjúka og stappa þar niður fæti og veifa þungum hrammi til þess að ríkisstjórnin tæki við sér.

Ég hafði þá á orði að það hefði verið mannsbragur af hinum unga og nýja félagsmálaráðherra, sem þá var, ef hann hefði farið á Kárahnjúka og skekið sinn hrokkna makka framan í þá sem réðu fyrir umræddri starfsmannaleigu og réðu fyrir umræddu verktakafyrirtæki og beitt ráðherravaldi sínu til að reyna að koma vitinu fyrir þá. Hæstv. ráðherra var ekki til í það á þeim tíma en eins og ég hef sagt áður: Batnandi mönnum er best að lifa.

Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að ákveðnar forsendur þurfi að uppfylla til þess að lög af þessu tagi verði góð og viðunandi. Það þarf að mínu viti að skylda starfsmannaleigurnar til þess að láta skrá sig, það má kannski líta á það sem eitt form af starfsleyfi, svo að hægt sé að útiloka þær sem verða uppvísar að því að brjóta gegn erlendu farandverkafólki og misnota sér stöðu þess. Slík lög verða líka að banna að hægt sé að hýrudraga verkafólk með því að draga hluta launanna af þeim sem þjónustugjald og það verður líka að sjá til þess að eftirlit með aðbúnaði starfsmanna sé eins og vera ber. Í núgildandi lögum eru heimildir og ætti að vera rými til þess að þetta sé gert en veruleikinn er allur annar. Það skortir fjármagn til þeirra stofnana sem hæstv. ráðherra ræður fyrir til þess að hægt sé að halda uppi eðlilegu eftirliti með aðbúnaði. Þegar ég segi „eðlilegu eftirliti“ þá er það ríkara en endranær, ríkara en gagnvart hefðbundnum fyrirtækjum hér á Íslandi vegna þess að við höfum dæmin. Við höfum dæmi síðustu ára sem sýna að við vissar kringumstæður er mikil hætta á að verið sé að fara illa með erlent verkafólk og þess vegna þarf að taka vel á því máli í lögum. Mér finnst líka að það þurfi að stoppa upp í ýmsar glufur sem varða réttindi þessa fólks, sem t.d. tengjast uppsagnarfresti og veikindum, og það verður að tryggja að trúnaðarmenn eða fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar geti fengið upplýsingar um launagreiðslur.

Þetta frumvarp er mikilvægt skref í rétta átt en mér finnst það ekki ganga nógu langt að öllu leyti. Ég taldi hér upp fimm atriði sem væru forsendur þess að hægt væri að slá því föstu að lögin uppfylltu þann tilgang sem við ætluðum þeim. En þau ná ekki að uppfylla öll þau skilyrði. Ég er til að mynda þeirrar skoðunar, eins og hefur komið fram af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, að það þurfi með einhverjum hætti að búa til kæruleið sem geri það að verkum að atvinnurekandi, sem í gegnum erlenda starfsmannaleigu fer illa með starfsmann sinn, greiðir honum lág laun, býður honum upp á óviðunandi aðstæður, verði sóttur til saka.

En nú skulum við setja okkur í spor erlends verkamanns sem kemur hingað frá suðurhluta Evrópu eða frá Austur-Evrópu, hefur aldrei til Íslands komið, þekkir ekki frjálsa verkalýðshreyfingu, veit ekki hvernig hann á að leita réttar síns, talar ekki málið. Hvernig á þessi maður að geta leitað réttar síns þegar honum er allt í einu sippað út úr landinu eftir þrjá mánuði? Það er hættan að hér sé verið að flytja inn fólk sem einfaldlega getur ekki notfært sér þá möguleika sem t.d. stuðningur frjálsrar verkalýðshreyfingar býður upp á til þess að sækja sinn rétt. Þetta er ekki bara einkamál viðkomandi verkamanns, þetta er líka mál sem varðar hreyfinguna alla vegna þess að ef þetta líðst í einhverjum mæli þá er verið að grafa undan samkeppnishæfni innlends vinnuafls, undan samkeppnishæfni þess vinnuafls sem er skipulagt í verkalýðshreyfingu. En það er verið að gera meira. Það er líka verið að draga undan samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja sem geta ekki, af siðlegum ástæðum, af því að þau vilja það ekki eða af einhverjum öðrum ástæðum, tekið upp starfshætti af þessu tagi.

Þetta er því ekki eingöngu spurning um að brjóta eða brjóta ekki mannréttindi, þetta er spurning um samkeppnishæfni innlends vinnuafls og íslensks atvinnulífs.

Förum yfir sviðið og skoðum það sem er að gerast t.d. í Noregi og Svíþjóð — það er svipað og hér á Íslandi að verið er að flytja inn í stórum stíl erlent farandverkafólk til þess að vinna við gríðarlega miklar byggingar og miklar framkvæmdir. Þetta fólk vinnur á hálendinu hér á Íslandi, í Noregi vinnur það á olíuborpöllum og sums staðar í Svíþjóð vinnur það í skipasmíðastöðvum. Við töluðum um það, þingmenn stjórnarandstöðunnar, fyrir nokkrum árum — þegar hæstv. ráðherra kom hér blautur á bak við bæði eyru og hafði ekki enn skilið að stundum borgar sig að hlusta á stjórnarandstöðuna — að ef ekki yrði tekið á málinu yrði það á endanum ekki eingöngu bundið við Kárahnjúka og stórframkvæmdir á hálendinu heldur mundi það smám saman sytra inn í aðrar atvinnugreinar.

Við spáðum því, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, í umræðum fyrir tveimur árum, að ef ekki yrðu reistar skorður gegn vandanum mundi hann fikra sig inn í byggingarframkvæmdir, smærri byggingarframkvæmdir á þéttbýlisstöðunum, og inn í málmiðnaðinn. Það gekk eftir. Við gengum síðan lengra og héldum því fram að þetta mundi smita víðar í atvinnulífið. Og núna er verið að reisa heilar blokkir í Reykjavík sem Morgunblaðið segir að séu reistar af erlendu vinnuafli sem verið er að greiða 400 kall á tímann af því að hæstv. ríkisstjórn tók ekki á málinu. Erlent farandverkafólk starfar hér í stóriðnaði innan landbúnaðarins fyrir skítalaun við vondan aðbúnað af því að hæstv. ríkisstjórn tók ekki á málinu.

Ég tel að það vanti tvennt í þessi lög. Það verður að vera möguleiki fyrir stéttarfélagið að kæra aðbúnað og kjör erlendra verkamanna sem koma hingað og dvelja í mjög skamman tíma. Í öðru lagi tel ég að það sé nauðsynlegt að með einhverjum hætti sé hægt að sannreyna að þau kjör sem eru gefin upp séu raunveruleg. Ég sé að hæstv. ráðherra gerir sér grein fyrir því vandamáli. Hann fer þá leið að fulltrúi Vinnumálaskrifstofu á að geta fengið upplýsingar um hvað eina sem lýtur að kjörum. Ég tel hins vegar að með einhverjum hætti þurfi að veita fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar þennan aðgang, til þess að þetta verði gaddaslegið. Ég veit að þetta er eitur í beinum t.d. sjálfstæðismanna og atvinnurekenda en þetta er nauðsynlegt.

Nú vil ég ekki kasta rýrð á þær ágætu stofnanir sem hæstv. ráðherra ræður fyrir sem eiga að tryggja kjör og aðbúnað samkvæmt núverandi lögum og líka samkvæmt þessu frumvarpi. En við höfum dæmin fyrir okkur, við vitum að þessar stofnanir eru fjársveltar og við vitum að þær geta ekki að öllu leyti staðið undir skyldum sínum eins og staðan er nú, hvað þá þegar þessum verkefnum verður bætt ofan á. Við vitum einfaldlega að það er enginn sérstakur vilji hjá öllum pörtum ríkisstjórnarinnar að setja fjármagn í þetta. Þetta er hins vegar brennandi hagsmunamál verkalýðshreyfingarinnar og stéttarfélaganna og mér finnst ekki óeðlilegt að það verði skoðað rækilega, frú forseti, hvort ekki sé hægt að breyta þessu með þessum hætti.

Ég staldra líka við 6. gr. í þessu frumvarpi þar sem verið er að reisa skorður gegn því að hægt sé að segja fólki upp og ráða það svo aftur í krafti starfsmannaleigu. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að laun fólks séu lækkuð. Tilgangurinn er jákvæður en eftir sem áður er hægt að hugsa sér dæmi þar sem fólk hættir hjá stofnun og fer aftur að starfa við rekstur hennar með ýmsum hætti í gegnum starfsmannaleigu á hærri launum. Ég held að við þurfum að skoða þetta ákvæði, frú forseti.

Að lokum vil ég segja að ég gleðst yfir því að hæstv. ráðherra hefur loksins lagt þetta frumvarp fram. Hann hefði átt að gera það fyrir einu og hálfu ári en ég tek viljann fyrir verkið. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé stigið mikilvægt skref en það þarf að slípa og pússa þetta frumvarp í báða enda. Hæstv. ráðherra leggur mikla áherslu á að málinu verði lokið fyrir jól og sannarlega er ég og minn flokkur reiðubúinn til þess að taka þátt í því. Ég vek hins vegar eftirtekt á því að í andsvari við mig hér áðan upplýsti hæstv. ráðherra að það væru atriði sem verkalýðshreyfingin sjálf í heild væri óánægð með.

Við sem höfum í samstarfi við verkalýðshreyfinguna verið að hnika þessu máli áfram í þessum sal hljótum að óska eftir því að hæstv. ráðherra liðsinni okkur við að greiða fyrir för þessa frumvarps í gegnum þingið með því að sjá til þess að hans ágætu samstarfsmenn í meiri hluta þingsins taki tillit til sjónarmiða okkar þegar við förum með faglegan hefil á þetta frumvarp.