132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:45]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn á það sem hv. þingmaður sagði í lok ræðu sinnar af því að málið kemur núna til kasta þingsins og fer inn í vinnslu hjá félagsmálanefnd. Eins og hv. þingmaður veit þá er hér um samkomulagsmál að ræða. Þannig held ég að flestir skilji eðli þessa máls. Þetta er hluti af því að hægt var að afstýra núna uppnámi á vinnumarkaði. Hv. þingmaður rakti það ágætlega að fulltrúar bæði Samtaka atvinnulífsins og ASÍ komu að samningu þessa frumvarps ásamt fulltrúa frá félagsmálaráðuneytinu.

Í lok ræðu sinnar segir hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson að það eigi að breyta þessu máli og nefnir ákveðin atriði, 6. gr. og líka það að stéttarfélögin eigi að hafa betri aðkomu að því að geta kært þetta varðandi aðbúnað starfsmanna. Hann eggjar hér menn til að breyta frumvarpinu. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta frumvarp sé samkomulagsmál eða ekki. Ef það er samkomulagsmál þá er mjög erfitt að breyta málinu í þinginu nema allir aðilar séu sammála um það. Auðvitað er ekki er hægt að útiloka að svo verði. En ef á að taka inn í þetta mál umdeild atriði er varla hægt að tala lengur um samkomulagsmál. Ég vil gjarnan heyra hv. þingmann færa betri rök fyrir því hvort meiningin sé virkilega að reyna að breyta málinu, eins og mér heyrðist hv. þingmaður leggja til, í veigamiklum atriðum, að margra mati, eða ekki því það mun tefja mjög framgang málsins ef við þurfum að setjast niður við samningaviðræður í félagsmálanefndinni.