132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil þá að ég sé leiðréttur ef þetta mál er eitthvað öðruvísi vaxið en önnur mál í þeim skilningi að hér er komið stjórnarfrumvarp í hendur þingsins til að fjalla um og skoða, m.a. í nefnd, og eftir atvikum gera lagfæringar á og færa til betri vegar hluti eins og mönnum finnst skynsamlegast að gera hér. Hér liggur löggjafarvaldið og það er hvergi annars staðar eins og kunnugt er.

Ef þetta samkomulag er með einhverjum sérstökum hætti vaxið þá náttúrlega er eðlilegt að það sé upplýst. Ég skildi málið þannig af umfjöllun fjölmiðla að samkomulagið fæli fyrst og fremst í sér að frumvarp yrði flutt og lagt til við þingið að setja lög um starfsmannaleigur. En það væri nú ákaflega skrýtið ef menn teldu sig geta gert samkomulag úti í bæ alveg frá orði til orðs um innihald þeirrar löggjafar. Að sjálfsögðu er hægt að leggja fram tillögur hér og það skiptir máli og eðlilega vilja menn vita hver viðhorf t.d. aðila vinnumarkaðarins eru í því efni. En Alþingi hlýtur sjálft að eiga síðasta orðið í þessum efnum eins og öðrum. Ef menn telja að hér megi eitthvað færa til betri vegar, snerpa á einhverjum ákvæðum, þá að sjálfsögðu ber að gera það.

Ég fagna framlagningu þessa frumvarps þó vissulega megi segja að það sé ansi seint fram komið. Ég held að ekki verði undan því vikist að horfast í augu við að íslensk stjórnvöld voru ákaflega vanbúin að takast á við þær aðstæður sem hér hafa skollið á vinnumarkaðnum á síðustu þrem, fjórum árum. Framan af virtist manni að kíkirinn væri settur dálítið upp að blinda auganu. Síðan liggur alveg fyrir að innlendar stofnanir, eftirlitsstofnanir og gæsluaðilar, voru algerlega vanbúnar t.d. því og eru enn að takast á við ástandið á Kárahnjúkum. Það liggur algerlega fyrir. Talað er um að þar hafi allt verið heldur að færast til betri vegar en ég heyri nú tvennar sögur af því, frú forseti. Ég heyri nefnilega líka þær sögur að menn séu algerlega búnir að gefast upp, að þar hafi eftirlitsaðilar og gæsluaðilar hreinlega gefist upp, ráði ekkert við ástandið og séu bara hættir að reyna að ómaka sig þarna upp eftir. Það fer nú tvennum sögum af því hversu mikið það ástand hafi batnað.

Við vorum sem sagt að fá hér inn og svona í fyrsta skipti í stórum stíl og í verulega útbreiddum mæli það sem ég hef burðast við að þýða sem félagsleg undirboð, „social dumping“ mundi það vera á erlendum málum. Það var okkur fremur framandi því erlent vinnuafl hafði ekki verið í þeim mæli hér í landi og þá yfirleitt unnið sem ráðið starfsfólk á íslenskum kjarasamningum, t.d. í fiskiðnaðinum og ekki kannski mikil ástæða til að ætla að minnsta kosti kjaraþátturinn væri ekki í lagi. Einstök dæmi voru um að aðbúnaður þess fólks var ekki sómasamlegur. Dæmi voru um að menn voru að ná einhverju til baka með því að okra á þeim í húsaleigu, í verbúðum. En það voru minni háttar mál borið saman við þau ósköp sem héldu innreið sína með því að erlent vinnuafl, m.a. á skammtíma ráðningarkjörum og m.a. hjá starfsmannaleigum, streymdi inn í landið svo þúsundum skipti.

Við ætlum ekki að líða þessi undirboð. Við ætlum ekki að líða að það sé níðst á fólki sem kemur frá fátækari svæðum eða þar sem atvinnuleysi er og það látið vera eins og einhverjir hálfgerðir þrælar í okkar landi og sætta sig við mun lélegri laun og verri aðbúnað en um er samið hér og á að vera samkvæmt íslenskum kjarasamningum og íslenskum starfsréttindum og lögum. Enga linkind má sýna í þeim efnum. Það er ekkert ásættanlegt annað en að þeir hlutir séu ósköp einfaldlega í lagi. Við getum ekki þolað að þarna séu menn að svindla. Þess vegna verð ég að segja að mér finnst sumt í þessu frumvarpi, þó það sé örugglega til bóta miðað við ekki neitt — það er örugglega til bóta að hafa þessi lög um starfsmannaleigur frekar en ekki neitt — en mér finnst margt hér veiklulegt, ákaflega veiklulegt. Ég ætla að fara aðeins yfir það.

Fyrsta spurningin er auðvitað þessi, frú forseti: Þurfum við að láta þetta yfir okkur ganga yfir höfuð? Þurfum við að taka starfsmannaleigufyrirkomulagið inn á innlendan vinnumarkað? Er okkur ekki stætt á því að hafa það bara í lögum að erlendir starfsmenn sem ekki koma inn á hreinum skammtímaskilmálum sem eru heimilir samkvæmt evrópskum vinnurétti — þ.e. starfsmenn erlendra fyrirtækja mega fylgja verkefnum hingað og vinna hér í tiltekinn tíma? Það er ljóst að við verðum að leyfa það — en ég hef ekki sannfærst um að við t.d. getum ekki gert það að skilyrði að starfsmenn sem eru hér til lengri tíma en þar er fyrir um mælt séu ósköp einfaldlega ráðnir af verkkaupanum sjálfum hér en ekki öðrum aðila, ekki millilið. Það með værum við auðvitað laus við þetta fyrirbæri. Kannski er okkur ekki stætt á því. Kannski erum við skyld til að leyfa þetta fyrirkomulag atvinnustarfsemi, sem þetta væntanlega heitir, svona vinnumiðlunarstarfsemi. En það er neyðarbrauð að mínu mati því þetta mun endalaust verða til vandræða. Þetta fyrirkomulag býður upp á það, sérstaklega það að verkkaupinn greiðir þá starfsmannaleigunni eða þeim sem sér um leigu vinnuaflsins í einni ávísun og það verður alltaf erfitt að fylgja því síðan eftir hvernig því síðan er skipt upp, hvernig greiðslurnar fara fram til hvers og eins og hvaða frádráttarliðir þar eru. Borgi þeir inn á bankareikninga í fjarlægu landi þá er nú handleggur fyrir Vinnumálastofnun eða skattinn að fylgjast með því öllu.

Af því að skattgreiðslurnar bar hér aðeins á góma í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og félagsmálaráðherra þá er rétt að upplýsa það og minna á að ég er búinn að spyrja hæstv. fjármálaráðherra fjórum sinnum á þremur árum um það mál. Svörin hafa alltaf verið þau sömu, ég hef alltaf fengið sama ranga svarið að það séu engin sérstök vandamál eða álitamál í sambandi við skattalega framkvæmd á Kárahnjúkum þegar hið gagnstæða blasir við, þegar hið gagnstæða liggur alveg fyrir, eins og m.a. hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnaði til áðan. Til dæmis liggur fyrir að það hafi orðið stórkostleg töf á því að tekjurnar skiluðu sér til sveitarfélaganna eins og vera ætti, m.a. vegna þess að skráningarmál eru þarna meira og minna í ólestri.

Það er kannski annað mál og varðar kannski ekki þetta beint, og þó, því að starfsmannaleigurnar eru hluti af vandanum sem þar er við að glíma. Það var t.d. þannig að það kom hér fólk og vann í einn, tvo, þrjá mánuði við að setja upp vinnubúðir og síðan var það farið úr landi. Það fékk aldrei greidd nein laun á Íslandi, þau voru greidd inn á erlenda bankareikninga og síðan voru þessir menn farnir með allt sitt hafurtask áður en fjármálaráðherra eða skattayfirvöld svo mikið sem vissu af því að þeir væru í landinu.

Ég held að tilkynningar- og skráningarskyldan sem hér er sett upp í 2. gr. sé að sjálfsögðu til mikilla bóta. Það væri mun skárra að við hefðum upplýsingar um það fyrir fram hver þessi fyrirtæki eru og hvaða starfsmannahópa þau ætli að taka inn í landið. Þegar kemur síðan að því hlutverki sem fulltrúa þeirra er ætlað að gegna þá er spurningin hvort það fyrirkomulag komi til með að halda. Í raun og veru er fulltrúinn látinn taka á sig skyldur fyrirtækisins sjálfs og það verður hægt að birta honum stefnur eða hvað það nú er. Spurningin er þegar til kastanna kemur hvort fyrirtækin geti ekki farið í einhvern skollaleik og skipt bara um fulltrúa o.s.frv. Það þarf að fara mjög rækilega yfir það.

Um 4. gr., sem er auðvitað lykilgrein, þ.e. upplýsingaskylda eða tilkynningaskylda starfsmannaleignanna og þær upplýsingar sem þeim er gert skylt að lögum að veita fyrir fram, þ.e. sem liggja fyrir áður en starfsmenn á þeirra vegum fara hér í verk, þar held ég að sé allt of veiklulega frá málunum gengið og sérstaklega í d-lið 4. gr. Það leiðir af sjálfu að þarna verði veitt yfirlit um starfsmenn sem starfa á vegum fyrirtækisins, nöfn, heimilisföng, kennitölur o.s.frv., yfirlit yfir þann tíma sem þeir ætla að vera hér, atvinnuleyfin.

Svo segir í d-lið, með leyfi forseta:

„aðrar þær upplýsingar sem Vinnumálastofnun kann að óska eftir til þess að ganga úr skugga um að starfsmannaleiga veiti sannanlega þjónustu hér á grundvelli 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og að um sé að ræða starfsmenn þess, svo sem afrit af þjónustusamningum og ráðningarsamningum.“

Þarna kemur alveg aftast í þessari grein undir d-lið og á eftir orðunum ,,svo sem“ að Vinnumálastofnun geti krafist þeirra upplýsinga sem öllu máli skipta. Nöfn og heimilisföng eru góðra gjalda verð en auðvitað skiptir öllu máli að ráðningarsamningarnir, að kjörin séu uppi á borðinu því annars er þetta algjörlega vonlaust. Af hverju er svona veiklulega búið um þetta?

Ég tel að það eigi að ganga eins langt og kostur er í því að skylda þessa aðila til að leggja þau ráðningarkjör sem þarna eru á ferðinni á borðið fyrir fram með algerlega óyggjandi hætti. Það er það sem þarf að vera uppi á borðinu og liggja fyrir og það þarf að vera hægt að sannreyna að þær upplýsingar séu réttar og að það sé greitt eftir þeim, að greiðsluferlið sé líka þarna. Það sé ekki bara nóg að leggja fram fallegan samning og segja: Þetta er svona, þeir eiga að vinna samkvæmt þessum samningi. Það þarf líka að vera hægt að fylgjast með því og hafa eftirlit með því að raunverulegar greiðslur fari fram í samræmi við hann. Þarna held ég að hljóti að vera hægt að taka miklu, miklu skeleggar til orða, þ.e. að greitt sé samkvæmt íslenskum kjarasamningum, að enginn afsláttur sé veittur af því. Þá er vísað í það og sagt að aðilar þessa máls sem gerðu samkomulag sín í milli um að þetta frumvarp kæmi fram, séu sammála um það. Mér finnst það nú svolítið kostulegt að þurfa að lesa það í greinargerð með frumvarpi að menn séu sammála um að meginregla íslensks vinnuréttar haldi áfram, þ.e. að byggt sé á almennum félagslegum kjarasamningum.

Það segir hér í greinargerðinni á bls. 5, með leyfi forseta:

„Frumvarpi þessu er ekki ætlað að breyta þeirri óskráðu reglu. Það er sameiginlegur vilji félagsmálaráðherra, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins að ótímabundnir ráðningarsamningar starfsmanna beint við vinnuveitendur sína verði áfram ríkjandi ráðningarform hér á landi.“

Ég segi nú bara: Þakka skyldi það nú að menn væru ekki að taka um það ákvörðun að hverfa frá því. En þá er líka eins gott að staða þessara samninga sé völduð eins og kostur er gagnvart þessum málum. Og það er nú ekki lítið í húfi að það haldi að hægt sé að ganga að þessum fyrirtækjum, grípa til aðgerða gegn þeim ef þau greiða ekki samkvæmt félagslegu samningunum. Og nú hriktir í öllu út af þessu máli í sjálfu Evrópuverkinu því að sænsk verkalýðssamtök eru komin með mál, eða öllu heldur eru þau að verja hendur sínar í dómsmáli fyrir Evrópudómstólnum vegna byggingarfyrirtækja úr Eystrasaltsríkjunum sem neituðu að virða kollektífu samningana. Þá var gripið til aðgerða gegn fyrirtækjunum og þá fara þeir í mál og segja: Þetta er ekki heimilt. Og það mun hrikta mikið í, alla vega á norræna vinnumarkaðnum, ef þetta mál Svíanna tapast. Sumir ganga svo langt að segja að þá muni sænska verkalýðshreyfingin eins og hún leggur sig leggja til að Svíar gangi úr Evrópusambandinu því að það er náttúrlega komið að hjartanu í sjálfu sænska vinnumarkaðsskipulaginu, og auðvitað okkar líka, ef þetta færi þannig að þessi grunnregla á vinnumarkaðnum héldi ekki, menn skyldu virða slíka kollektífa samninga.

Ég held sem sagt að upplýsingaskyldan í 4. gr. þurfi að styrkjast. Það þarf að vera miklu skýrara að fyrirtækið verði að leggja á borðið fullnægjandi gögn um sjálf ráðningarkjörin og það á ekki að vera eitthvað „svo sem“ sem Vinnumálastofnun geti dottið í hug að biðja um, aftast í greininni, þetta á að vera alveg hreint og klárt í lögunum. Það er miklu betra fyrir Vinnumálastofnun að hafa skýra lagastoð á bak við sig þegar hún sækir þessi gögn en að það þurfi ekki sérstaka ákvörðun hennar til. Það veikir auðvitað stöðu hennar að sækja þessi gögn inn í fyrirtækið.

Það má líka velta því fyrir sér: Þurfa ekki að vera þarna ákvæði sem eru meira í átt við það sem samkeppnisyfirvöld hafa, sem Fjármálaeftirlitið hefur og fleiri slíkir aðilar, að koma og sækja gögnin? Hvað ætlar Vinnumálastofnun að gera ef menn bara þrjóskast við? Á þá að fara út í aðgerðirnar að lokum á grundvelli 11. gr.? Þá kemur að því hvernig hún er orðuð, frú forseti. Ég var mjög undrandi þegar ég las 11. gr. frumvarpsins. Hún er í rauninni svo veikluleg og mér liggur við að segja kauðskt orðuð að það er ekki hægt að láta svoleiðis lagatexta standa, en það er nánast gefið í skyn að lögbrot verði látin óátalin bara ef menn bregðist við og kippi þeim í liðinn svona eftir á, innan hæfilegra tímamarka. Menn hætti að brjóta lögin svona innan hæfilegra tímamarka og þá verði það bara látið óátalið.

Eða hvernig á að lesa þetta, með leyfi forseta:

„Hafi Vinnumálastofnun krafist þess með hæfilegum fyrirvara“ — fyrirtækinu er gefinn hæfilegur fyrirvari — „að starfsmannaleiga fari að lögum og úrbætur hafa ekki verið gerðar, þegar sá frestur er liðinn sem gefinn var, getur“ — þá sem sagt getur „Vinnumálastofnun krafist þess að lögregla stöðvi vinnu tímabundið eða loki starfsemi starfsmannaleigunnar tímabundið“ — aftur — „þangað til úrbætur hafa verið gerðar.“

En hvað þá með lögbrotið? Ef aðili er staðinn að lögbroti sem telst sannað, þá er auðvitað ekki hægt að hafa þann blæ á þessu í lögunum að honum verði bara fyrirgefið ef hann hættir að brjóta lögin innan hóflegs tíma. Nei, þetta getum við ekki haft svona, frú forseti. Þetta verður að umskrifa því það verður að vera algjörlega skýrt að þessi fyrirtæki eiga að fara að lögum og reglum, einnig vegna þess að gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra geti sett reglugerð á grundvelli þessara laga. Það væri nú nær því að það stæðist að hafa svona umbúnað um orðalag ef þetta snerist um einhver brot á reglum en ekki á lögum. Það er ekki hægt að hafa þetta þannig að blærinn á greininni sé nánast sá að lögbrot innan hóflegra marka ætli menn að þola og ef þau standi ekki of lengi o.s.frv.

Þetta ber greinilega allt of mikinn blæ þess, frú forseti, að mínu mati, að menn reikni með að þessi mál verði í ólestri og að þetta verði svona „að gera sitt besta aðferðafræði“, að reynt verði að hafa einhver tök og einhvern hemil á þessu. Það er út af fyrir sig alveg skiljanlegt að menn hafi verið undir slíkum áhrifum þegar þeir voru að setja þetta saman, út frá ástandinu og hvernig allt gengur fyrir sig. En þetta finnst mér alls ekki nógu sterkt að orði kveðið, meingallað orðalag og þurfi að skoðast mjög vel, af því að þessar greinar sýnast mér nú vera alveg lykilgreinar þessa frumvarps. Það er það sem sagt er hér um skráningar- og tilkynningarskylduna, um fulltrúann, um tilkynningarskylduna í 4. gr. og þá viðurlögin ef í þau er farið. Þau eru að sjálfsögðu alveg bráðnauðsynleg.

Mér finnst líka að þetta tímabundna orðalag megi ekki vera þarna að þvælast fyrir. Er þá aldrei hægt að setja starfsmannaleigu bara endanlega á svartan lista ef hún hefur ítrekað brotið þannig af sér að hún er greinilega ekki traustverð? Þarf ekki að vera hægt að setja hana þá bara út af sakramentinu þannig að hún missi réttindi sín og leyfi til að starfa hér? Á hún þá ekki bara fara út af skránni sem aðili sem mætti veita þessa þjónustu hér? Ég held að það þurfi að vera miklu skýrari lagastoð fyrir því að ef um ítrekuð brot hefur verið að ræða o.s.frv. þá fari hún út.

Frú forseti. Ég held að þarna séu ákvæði sem ástæða er til að fara rækilega yfir og spyrja hvort ekki megi skerpa á. Ég hef enga ástæðu til að ætla að um það þurfi að verða nokkur minnsti ágreiningur, ef samstaða er um að þetta fólk eigi að fá hér laun og eigi að njóta réttinda eins og um er samið á íslenskum vinnumarkaði. Sé sú samstaða ekki biluð þá er það verkefnið að tryggja þetta. Það hljóta allir að vera sammála um að gera það sem rækilegast með lögum og að menn hafi allar þær heimildir sem til þess þarf að láta ekki líðast neina afslætti á því.

Þetta mál er síðan angi af gríðarstórum málum sem mætti segja ýmislegt um, t.d. opnun vinnumarkaðarins með stækkun Evrópusambandsins og hvernig menn hafa undirbúið sig þar eða að sumu leyti ekki undirbúið sig því miður. Hvernig notar Ísland aðlögunartíma sinn í þeim efnum? Ég hef verið talsmaður þess t.d. að Norðurlöndin ynnu þau mál miklu meira saman, að þau reyndu að styðja við bakið á uppbyggingu skipulegs vinnumarkaðsfyrirkomulags í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi. Þaðan mun væntanlega þyngsti straumurinn koma inn á hinn norræna vinnumarkað. Það er eðlilegt, þetta eru þau lönd sem næst okkur liggja og það er mikið horft til Norðurlandanna úr þessum löndum. Við vitum að skoðanakannanir sýna t.d. að allt upp í 40% af ungu fólki í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi hyggur á að freista gæfunnar á Vesturlöndum með opnun hins sameiginlega stóra vinnumarkaðar og Norðurlöndin eru langefst á lista yfir þau lönd sem menn horfa til og sjá sem æskileg lönd til þess að freista gæfunnar.

Að mínu mati hefði mátt nota tímann miklu betur og t.d. gera mun meira til að tryggja að upplýsingar séu til reiðu. Frú forseti. Að lokum vil ég segja um þetta frumvarp, mér finnst að upplýsingagjöfin megi koma sterkar fram, þ.e. að réttindin séu uppi á borðum og að síðan sé tryggt að þær upplýsingar liggi alltaf fyrir, t.d. að það sé áskilið og starfsmannaleigurnar látnar sanna að þær hafi gert starfsmönnunum grein fyrir réttindum sínum, að þær hafi afhent þeim efni þar um (Forseti hringir.) þannig að þeir viti að hverju þeir ganga, viti hvaða rétt þeir eiga, því að það er auðvitað forsenda þess að hægt sé að aðstoða þá síðan við að ná honum ef hann er af þeim hafður.