132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[16:24]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil leggja nokkur orð í belg varðandi frumvarp til laga um starfsmannaleigur. Eins og fram hefur komið í máli hæstv. félagsmálaráðherra hafa kjarasamningar um lágmarkskjör launafólks almennt gilt hér á landi, hvort heldur um er að ræða starfsmenn í föstu eða lausu ráðningarsambandi við vinnuveitanda sinn eða starfsmenn sem starfa á vegum starfsmannaleigna. Í grundvallaratriðum gilda því íslensk lög og samningar um lágmarkskjör um allar vinnandi hendur hér á landi hvernig sem ráðningarsambandi er háttað. Þannig má m.a. benda á að hér á landi gilda mun skýrari reglur um lágmarkslaun erlends vinnuafls en tíðkast í nágrannalöndum okkar og þannig viljum við hafa það. Samt sem áður hefur ASÍ lagt áherslu á að sett yrðu sérstök lög um starfsemi starfsmannaleigna hér á landi, fyrst og fremst vegna þess að verkalýðshreyfingin telur að það hafi verið erfiðleikum bundið að fylgja eftir þeim lágmarkskjörum kjarasamninga sem leigustarfsmenn, sem koma hingað til lands á vegum erlendra starfsmannaleigna, eiga rétt á samkvæmt almennri vinnulöggjöf sem gildir. Um þetta varð samkomulag á milli aðila vinnumarkaðarins fyrir stuttu og því er það frumvarp sem hér er til umræðu komið fram.

Það má vera ljóst að þessu frumvarpi er fyrst og fremst ætlað að setja frekari ramma um starfsemi starfsmannaleigna sem flytja erlenda starfsmenn hingað til lands til að sinna tilteknum verkefnum vegna verklegra framkvæmda og til að taka á þeim vanda sem verkalýðshreyfingin telur að sé fyrir hendi um að tryggja starfsmönnum þeirra rétt til lágmarkslauna samkvæmt gildandi samningum og rétt til aðbúnaðar á vinnustað eins og íslensk lög gera ráð fyrir.

Ákvæði frumvarpsins bera þess merki að það hafi verið samið með það í huga að taka fyrst og fremst á starfsemi erlendra starfsmannaleigna hér á landi, enda var í erindisbréfi starfshópsins sem falið var að kanna stöðu starfsmannaleigna á íslenskum vinnumarkaði lögð áhersla á að skoða sérstaklega starfsumhverfi starfsmannaleigna sem hafa staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins en kjósa að veita þjónustu hér á landi á grundvelli 36.–39. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

Virðulegi forseti. Það er fremur óljóst hvað felst í hugtakinu starfsmannaleiga. Þannig kemur fram í nýrri skýrslu um starfsmannaleigur að hugtakið hafi hvorki hér á landi né í öðrum Evrópuríkjum verið skilgreint í lögum og nákvæm viðmið um hvernig skilgreina beri útleigustarfsemi séu ekki til. Ekki er t.d. ljóst hvenær tiltekin starfsemi sem felur í sér kaup á þjónustu eins fyrirtækis af öðru til að leysa tiltekin verkefni, oftast kallað útvistun verkefna, telst vera útleigustarfsemi sem falli undir starfsmannaleigu eða aðkeypt vinna verktaka eða verksamningur. Það er hins vegar afar mikilvægt að það liggi ljóst fyrir því mörg ákvæði frumvarpsins eru íþyngjandi fyrir starfsemi fyrirtækja. Það er því mjög mikilvægt að gildissvið frumvarpsins liggi fyrir.

Eftir því sem ég kemst næst eru nokkur atriði sem má segja að séu einkennandi fyrir starfsemi starfsmannaleigna í hugum fólks, ekki síst í þeim tilvikum sem frumvarpið sem hér er til umræðu á að taka á og var tilefni þess að það var lagt fram:

1. Að starfsmaður er ráðinn til starfsmannaleigu en skilar starfi sínu hjá notendafyrirtæki sem nýtir starfskrafta hans og lýtur starfsmaðurinn stjórn notendafyrirtækis.

2. Ráðningarsamningar starfsmannaleigu og leigustarfsmanna eru oftast tímabundnir.

3. Starfsmaður er ráðinn til tímabundinna starfa hjá notendafyrirtækinu til tiltekinna verkefna en hverfur síðan til annarra starfa hjá öðru notendafyrirtæki að því loknu og jafnvel á allt öðrum kjörum. Ýmis Evrópulönd sem hafa sett sér lög um starfsmannaleigur hafa sett ákveðin tímamörk á slíkt framsal á starfsmanni til notendafyrirtækja sem miðast við 6–18 mánuði.

4. Að atvinnuöryggi starfsmannsins er ekki tryggt.

5. Að öllu jöfnu eru ráðningarréttindi og launakjör lakari en hjá föstum starfsmönnum notendafyrirtækis.

6. Almennt er talið að starfsmenn starfsmannaleigna séu útsettir fyrir verri starfsskilyrðum en almennt gerist.

7. Starfsmenn starfsmannafyrirtækja koma oft í stað starfsmanna sem eru í föstum störfum hjá notendafyrirtækinu.

Þó ég hafi dregið þessi almennu atriði fram eru þau þó alls ekki algild og alls ekki þar með sagt að þetta eigi við þær starfsmannaleigur sem starfa hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég vil í ræðu minni benda sérstaklega á tvö álitaatriði sem varða frumvarp til laga um starfsmannaleigur sem ég hvet hv. félagsmálanefnd að taka til skoðunar.

Í 1. gr. frumvarpsins er hugtakið starfsmannaleiga skilgreint. Það er gert með eftirfarandi hætti:

„Með starfsmannaleigu er átt við þjónustufyrirtæki sem samkvæmt samningi leigir út starfsmenn sína gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis undir verkstjórn þess síðarnefnda.“

Þessi skilgreining er afar víð og getur eins átt við útvistun verkefna til fyrirtækja með verksamningum, verktöku og/eða útseldri vinnu eins og ég kom að áðan. Þannig er t.d. ljóst að starfsmaður sem er starfandi hjá ræstingarfyrirtæki sem hefur samning við sjúkrahús og skilar sínum störfum t.d. á sjúkradeild lýtur starfsreglum og að einhverju leyti verkstjórn yfirmanna á viðkomandi deild. Hið sama má segja um verkfræðing sem starfar hjá verkfræðistofu en er vegna aukinna verkefna fenginn tímabundið til starfa með verkfræðingi hjá fyrirtæki sem kaupir þjónustu hans. Í sama flokk má telja forritara sem starfar hjá tölvufyrirtæki en er sendur til að gegna ákveðnum verkefnum tímabundið hjá fyrirtæki sem vinnuveitandi hans hefur gert samning við. Að sama skapi má einnig nefna hjúkrunarfræðing eða lækni eða aðra sérfræðinga sem starfa hjá heilbrigðisfyrirtæki sem hefur gert verksamning við heilbrigðisstofnun um að veita hjúkrunarþjónustu, læknisþjónustu eða aðra sérfræðiþjónustu vegna manneklu, veikinda eða tímabundins aukins álags í starfsemi. Ég get einnig nefnt fleiri dæmi eins og smiði sem starfa hjá trésmiðju sem hefur tekið að sér tiltekna smíðavinnu í verktöku en undir verkstjórn byggingafyrirtækis. Þetta er starfsemi þar sem starfsmenn í föstu ráðningarsambandi við vinnuveitendur sína veita aðkeypta þjónustu í starfsstöð notendafyrirtækis sem er önnur en starfsstöð vinnuveitandans. Þessir aðilar sinna verkefnum hjá notendafyrirtæki um lengri eða skemmri tíma og lúta starfsreglum og að mismiklu leyti verkstjórn þess.

Hingað til hefur þessi starfsemi ekki verið talin til starfsmannaleigna heldur talin vera verksamningar, verktaka eða útseld vinna. Hins vegar getur skilgreiningin samkvæmt 1. gr. frumvarpsins átt við þessa starfsemi því starfsmenn lúta að meira eða minna leyti verkstjórn þess sem kaupir þjónustuna. Því verður að vanda til skilgreiningar á hugtakinu starfsmannaleiga þannig að frumvarpið taki á þeim vanda sem því er ætlað að taka en hafi ekki áhrif á starfsemi þar fyrir utan. Gildissvið frumvarpsins verður að vera ljóst en það er það ekki þegar horft er til skilgreiningar á hvað teljist starfsmannaleiga eins og ég hef bent á með dæmin hér á undan.

Hin athugasemd mín varðar 6. gr. frumvarpsins og tengist skilgreiningu á hvað fellur undir starfsmannaleigu. 6. gr. frumvarpsins kveður á um að fyrirtæki sem fellur undir skilgreiningu um starfsmannaleigu sé óheimilt að leigja út starfsmann til fyrri vinnuveitanda fyrr en sex mánuðir eru liðnir frá því að fyrra ráðningarsambandi hans við það fyrirtæki lauk. Í greinargerð með frumvarpinu er ákvæðið skýrt með þeim hætti að með því sé komið í veg fyrir að fyrirtæki segi upp starfsmönnum til þess eins að ráða þá óbeint aftur í gegnum starfsmannaleigu. Ákvæði frumvarpsins má hins vegar einnig lesa á þann veg að hið sama gildi ef starfsmaður hefur sjálfur sagt upp störfum og ræður sig til starfa hjá fyrirtæki sem selur þjónustu hans til fyrri vinnuveitanda. Ljóst er af greinargerðinni að þetta á ekki við en það má hins vegar ekki ráða af texta frumvarpsins. Ákvæðið er þannig alls ekki nægilega skýrt.

Ég vil nefna eitt dæmi sem gæti skýrt áhrif þessarar greinar. Iðnaðarmenn í tiltekinni grein segja upp störfum hjá opinberri stofnun. Þeir stofna fyrirtæki sem selur síðan hinni sömu stofnun og þess vegna einnig öðrum fyrirtækjum starfskrafta sína undir verkstjórn viðkomandi stofnunar. Það er mat allra aðila, bæði iðnaðarmanna og stjórnenda viðkomandi stofnunar, að um heppilegt fyrirkomulag sé að ræða og hagsmunum beggja aðila vel fyrir komið. Ég spyr: Mundi slík starfsemi teljast til starfsmannaleigu? Ég tel reyndar ekki svo vera. En ef svo væri, þýðir það að viðkomandi aðila sé meinað að selja þjónustu sína til sinna fyrri vinnuveitenda þar til sex mánuðir eru liðnir frá því að þeir létu af störfum?

Sams konar aðstæður geta skapast ef opinber stofnun ákveður að útvista ræstingar eða öryggisgæslu á stofnuninni. Ef lögin gilda um ræstingaþjónustu eða öryggisþjónustufyrirtæki má draga þá ályktun að ræstingafólki og öryggisvörðum sem sagt er upp í kjölfar slíkra skipulagsbreytinga sé óheimilt að ráða sig til starfa hjá því fyrirtæki sem tekur að sér þjónustuna. Þetta stríðir gegn stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka samstarf ríkis og einkaaðila varðandi rekstur í almannaþjónustu með útvistun verkefna.

Að lokum vil ég segja: Takmarkar þessi grein ekki atvinnufrelsi einstaklinga, t.d. til að færa sig frá starfi hjá opinberum stofnunum til almenna markaðarins, t.d. á sviðum þar sem stjórnvöld hafa á hendi umfangsmikinn rekstur, t.d. í heilbrigðisþjónustu þar sem nánast 100% heilbrigðisstarfsmanna eru í starfi hjá ríkinu og ríkið hefur nánast tekið sér einkarétt á starfskröftum þeirra?

Reyndar hef ég almennt mikinn fyrirvara við 6. gr. frumvarpsins og tel að hv. félagsmálanefnd eigi að skoða ítarlega hvort hún stangist ekki á við þá grein stjórnarskrárinnar sem kveður á um frelsi fólks til að velja sér starfsvettvang eða atvinnufrelsi. Almennt vil ég leggja áherslu á að hv. félagsmálanefnd skoði þetta frumvarp vandlega. Hér er um að ræða löggjöf sem getur haft víðtæk áhrif langt út fyrir það svið sem henni er ætlað sé ekki til verksins vandað. Það þarf að afmarka svið frumvarpsins mun betur en gert er. Í tilefni þeirrar umræðu sem hefur farið fram hér á undan milli hv. þingmanna Össurar Skarphéðinssonar og Sivjar Friðleifsdóttur þá er það mín skoðun að þrátt fyrir að fyrir liggi samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins um þetta frumvarp þá hlýtur hv. félagsmálanefnd og Alþingi að hafa svigrúm til að sníða augljósa agnúa af frumvarpinu og bæta við atriðum sem væru til bóta.