132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[16:39]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hefja hér þær umræður sem ég átti áðan við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur enda á hún ekki kost á því að taka þátt í þessum samræðum okkar hv. þm. Ástu Möller. Ég bara fagna því að það liggur alveg skýrt fyrir að þessi hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins telur ótvírætt að það eigi að skoða þetta frumvarp með tilliti til þess hvort hugsanlega þurfi að bæta úr einhverjum ágöllum og þar af leiðandi að breyta frumvarpinu. Það gerir hún vitandi vits og eftir að hafa ítrekað það sjálf að hér sé um að ræða samkomulag á milli aðila vinnumarkaðarins. Ég er henni algjörlega sammála. Enginn úti í bæ getur sent hingað inn frumvarp til þess að renna á færibandi í gegnum þingið án þess að þingið fjalli faglega um það og hugsanlega bendi á hnökra, hugsanlega bendi á alvarlega ágalla eða sjái betri leiðir til þess að ná markmiði frumvarpsins.

Ég er t.d. þeirrar skoðunar að ákveðið skref sem hæstv. félagsmálaráðherra tekur með þessu frumvarpi til þess að tryggja að hægt sé að sannreyna upplýsingar um vinnuafl sem leigt er í gegnum starfsmannaleigur nái ekki fullkomlega tilgangi sínum. Ég hef í þessari umræðu lagt til aðrar leiðir sem slá það frekar í gadda en þetta ákvæði hans. Síðan kemur í ljós bara í umræðunni í nefndinni hvort menn séu sammála því viðhorfi eða ekki. Ég sit ekki í þeirri nefnd þannig að ég get ekki lagt gjörva hönd að því samkomulagi en er auðvitað alltaf reiðubúinn til ráðgjafar um þetta, sér í lagi ef það skyldi koma upp ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um það með hvaða tökum á að taka þetta mál eða hvort það á að taka það nokkrum tökum.