132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[16:42]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Samfylkingin hefur ítrekað kallað eftir því að sett verði löggjöf um starfsmannaleigur og höfum við flutt þingsályktunartillögu þar um undir forustu Össurar Skarphéðinssonar svo að vonum fögnum við því að hér er komið frumvarp fram um starfsmannaleigur sem er skref í rétta átt. En eins og hér hefur komið fram gagnrýnum við mörg atriði í þessu frumvarpi og köllum eftir ýmsum ákvæðum sem ekki er að finna í frumvarpinu. Við höfum auðvitað verið að kalla eftir frumvarpi um starfsmannaleigur því að verkalýðshreyfingin hefur vitaskuld tekið mjög hart á þessum málum, einkum í tengslum við ráðningu erlends starfsfólks í gegnum erlendar starfsmannaleigur vegna framkvæmda við Kárahnjúka. Við þekkjum að aðbúnaður, aðstaða og kaup og kjör þessa erlenda vinnuafls var auðvitað ekkert annað en atlaga að þeim réttindum sem kostað hafa verkalýðshreyfinguna margra áratuga baráttu að ná fram. Þess vegna var löngu orðið tímabært að frumvarp kæmi inn í þingið um þetta efni.

Það veldur mér vonbrigðum, eins og kannski fleirum sem hér hafa talað, að ýmislegt vantar í frumvarpið sem snýr að réttindum leigustarfsmanna, að mínu viti, og skyldum starfsmannaleigna og notendafyrirtækja sem ég mun nokkuð koma inn á nú við 1. umr. þessa máls. Frumvarpið ber augljóslega merki þess að um samkomulag er að ræða milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Raunar sýnist mér á efni þess að þar sé um að ræða algjöran lágmarkssamnefnara og langt í frá að ákvæði frumvarpsins nái þeim markmiðum að taka á öllum þeim vandamálum sem við höfum gengið í gegnum á umliðnum missirum vegna starfsmannaleigna. Þess vegna hefði ég vænst þess að hér kæmi metnaðarfyllra frumvarp í þessu efni en það sem við fjöllum um nú þegar það loksins sér dagsins ljós í þingsölum. Maður veltir því fyrir sér varðandi þetta eins og ýmislegt annað sem kemur hér inn á borð þingmanna og er sameiginleg niðurstaða aðila vinnumarkaðarins, hvort hér megi eiginlega engu um breyta. Um það hafa menn verið að skiptast á skoðunum í þessum ræðustól. Ráðherrann þarf að tala skýrar í þessu efni, þ.e. hvort hér sé um að ræða þá sátt milli aðila vinnumarkaðarins að þeir hafi sammælst um að mæla ekki með neinum breytingum á þessu, að málið sé jafnvel upp í loft ef einhver þingmaður eða þingnefnd leyfir sér að flytja breytingar sem annar hvor þessara aðila er ósáttur við. Ég er sannfærð um það, og ráðherra heyrir það á máli manna hér, að það verður mjög mikil óánægja með frumvarpið ef hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin ætla að beita sér fyrir því að málið fari óbreytt í gegn. Ég heyri ekki betur en að það eigi við um þingmenn í röðum bæði stjórnar og stjórnarandstöðu.

Í stuttu máli sýnist mér að hér sé um að ræða einhver algjör lágmarksákvæði eins og um skyldur starfsmannaleigna til að tilkynna til Vinnumálastofnunar um starfsemi sína hér á landi áður en hún hefst og síðan um skyldur Vinnumálastofnunar til að halda skrá yfir þær starfsmannaleigur sem tilkynnt hafa um starfsemi sína. Einnig er að finna mikilvægt ákvæði um að starfsmannaleigum sé óheimilt að krefjast greiðslna frá starfsmönnum sínum fyrir að bjóða eða veita þeim vinnu. Hér er að finna ágætt ákvæði um að starfsmannaleigu sé óheimilt að leigja út starfsmann til fyrirtækja sem hann hefur áður starfað hjá fyrr en sex mánuðir eru liðnir frá því að ráðningarsambandi hans við fyrirtækið lauk. Það þarf auðvitað að vera mjög skýr skilgreining á því hvað átt er við, eins og hér hefur komið fram. Ég hygg að ákvæði frumvarpsins snúist að mestu um þessar erlendu starfsmannaleigur. Það hafa auðvitað verið miklu minni vandamál í kringum innlendar starfsmannaleigur og þess vegna snýr búnaðurinn allur í kringum frumvarpið meira að erlendu starfsmannaleigunum.

Hér er inni ágætt ákvæði til að koma í veg fyrir að fyrirtæki segi starfsmönnum upp og ráði síðan í gegnum starfsmannaleigur aðra starfsmenn, kannski með minni réttindi. Síðan eru ákvæði sem lúta að réttarstöðu starfsmanna þess efnis að óheimilt sé að takmarka rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna síðar til ráðningarsamnings við það fyrirtæki. Þá eru um það bil upptalin, frú forseti, þau ákvæði sem er að finna í frumvarpinu, auk skyldu Vinnumálastofnunar til að hafa eftirlit með framkvæmd laganna.

Ég tel að mikill fengur sé í greinargerð sem var unnin fyrir félagsmálaráðuneytið af rannsóknarsetri vinnuréttar og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst, sem hefur ekki mikið verið dregin fram í umræðunni, en aðilar vinnumarkaðarins og ráðuneyti hafa væntanlega stuðst við hana í vinnu sinni að frumvarpinu. Í þessari ágætu greinargerð er dregið saman hvernig þessum málum er fyrirkomið í Evrópu og ekki síst annars staðar á Norðurlöndunum og settar fram ábendingar um hvaða leiðir og valkostir séu fyrir hendi í þessu máli hér á landi. Þar kemur fram að skortur er á tölulegum upplýsingum hérlendis um innlendar starfsmannaleigur og fjölda starfsmanna á þeirra vegum og í reynd sé ekki að finna neinar opinberar upplýsingar um hvaða fyrirtæki stundi útleigustarfsemi á Íslandi eða um fjölda innlendra útleigustarfsmanna. Ég kalla eftir því, frú forseti, hvort hæstv. ráðherra telji ekki nauðsynlegt að beita sér fyrir því að þessara upplýsinga verði aflað. Hér er verið að tala um skilgreiningarvandann og að það sé víð skilgreining á gildissviði frumvarpsins. Það er mikilvægt að opinberar upplýsingar séu til um hvaða fyrirtæki hérlendis stunda útleigustarfsemi.

Það kemur líka fram í þessari ágætu greinargerð að fjölgun virðist hafa orðið á að erlendir leigustarfsmenn komi hingað til lands eftir að nýju aðildarríkin gengu inn í ESB á grundvelli þjónustuviðskipta. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki þurfi líka að afla gagna þar um og leggja mat á þróunina sem gæti orðið, með tilliti til reynslu annarra þjóða, þar sem undanþáguákvæðið sem nú er í gildi á að falla brott 1. maí á næsta ári. Undanþáguákvæðið snertir það ákvæði sem samþykkt var til bráðabirgða við lögin um atvinnuréttindi útlendinga en átta af hinum tíu nýju aðildarríkjum ESB eru háð kröfu um atvinnuleyfi fram til 1. maí 2006. Frá þeim tíma opnast leið fyrir starfsmannaleigur með staðfestu í nýju aðildarríkjunum til að senda leigustarfsmenn hingað til lands í atvinnuskyni án þess að þeir séu háðir kröfum um atvinnuleyfi. Þar erum við að tala um Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvakíu, Slóveníu, Tékkland og Ungverjaland.

Ég ætla að vitna þess sem um þetta segir í skýrslu rannsóknarsetursins á Bifröst, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt framansögðu hefur þrátt fyrir tímabundnar hömlur á frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkjum ESB opnast gátt fyrir fyrirtæki í þessum ríkjum til að beina þjónustuviðskiptum hingað til lands, m.a. útleigustarfsemi. Þannig geta starfsmannaleigur með staðfestu í þessum ríkjum sent leigustarfsmenn hingað til lands til starfa án þess að gerð verði krafa um atvinnuleyfi af þeirra hálfu. Er raunin sú sama í öðrum EES- og ESB-ríkjum og hafa nágrannaríki okkar á Norðurlöndum orðið vör við aukna ásókn í störf á grundvelli þjónustuviðskipta frá ríkisborgurum þessara ríkja á meðan atvinnuleyfisumsóknum þaðan hefur fækkað.“

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort mat hafi verið lagt á hvaða áhrif þessi opnun hafi á vinnumarkaðinn og flutning á erlendu starfsfólki í gegnum starfsmannaleigur. Það kæmi mér ekki á óvart að eftir að þessi leið opnast hér fyrir fólk frá þeim löndum þar sem atvinnuástand er slæmt munum við sjá verulega aukningu á fjölda útlendinga sem leita hér eftir vinnu til skemmri eða lengri tíma.

Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu rannsóknasetursins á Bifröst hefur útleigustarfsemi færst mjög í vöxt í ríkjum Evrópu en útleigustarfsemi hefur nú verið heimiluð í öllum ríkjum ESB. Á árunum 1992–2002 hefur störfum á þeirra vegum fjölgað um a.m.k. helming í öllum ríkjum ESB og var jafnvel um fimmfalda aukningu að ræða í ríkjum eins og Danmörku, Spáni, Ítalíu og Svíþjóð. Framkvæmdastjóri ESB hefur tiltekið sem eina ástæðu fyrir þessari aukningu að það sé þörf fyrirtækja fyrir sveigjanleika á vinnumarkaði. Ég hef auðvitað skilning á því að sveigjanleiki á vinnumarkaði sé mikilvægur bæði fyrir atvinnurekendur og launafólk og eigi að vera til staðar. En um leið verður þá líka að sjá til þess að sveigjanleikinn leiði ekki til þess að þeir sem standa höllum fæti á vinnumarkaði, t.d. ófaglærðir, verði ekki undir í þessari þróun og að kjör þeirra og aðbúnaður sitji á hakanum. Ég held að aldrei eins og nú hafi verið meiri nauðsyn fyrir endur- og starfsmenntun fyrir ófaglært fólk og mikilvægt að verulegur aukinn kraftur og fjármagn verði sett til þess að mennta ófaglært fólk hér á vinnumarkaðnum til að verða betur samkeppnisfært.

Mig langar að koma inn á nokkur atriði sem ég tel mikilvæg og hefðu átt að vera í því frumvarpi sem við fjöllum um varðandi starfsmannaleigur. Ég nefni í fyrsta lagi ábyrgð annars vegar starfsmannaleigunnar og hins vegar notendafyrirtækisins sem tryggir betur réttindi starfsmanna og kemur frekar í veg fyrir misnotkun á erlendu starfsfólki. Í raun má segja að réttindasamband þess sem ráðinn er í gegnum starfsmannaleigur sé þannig háttað að hann starfi fyrir tvo atvinnurekendur, starfsmannaleiguna og notendafyrirtækið. Hefði ekki þurft að tryggja í frumvarpinu, frú forseti, og ég spyr ráðherrann um það, hvar réttindaábyrgð gagnvart erlenda starfsfólkinu liggur ef brotið er á starfsfólkinu í kjörum eða aðbúnaði? Er ábyrgðin hjá starfsmannaleigunni eða hjá notendafyrirtækinu eða getur það í sumum tilvikum verið sameiginleg ábyrgð þessara aðila? Hvað gerist ef fyrirtæki hér á landi fær starfsfólk gegnum erlenda starfsmannaleigu og innlenda fyrirtækið brýtur gegn starfsmanninum með því að taka þátt í því að hagnast á því að starfsmenn starfsmannaleigufyrirtækja njóti ekki ákvæða laga, t.d. um aðbúnað og hollustuhætti eða samningsbundinna kjara? Er þá hægt að gera þau samábyrg starfsmannaleigunni á því tjóni sem starfsmennirnir verða fyrir vegna þess að þeir taka þátt í að lög eru á þeim brotin?

Ég held að það sé mikilvægt að fá skýrar fram en fram kom hjá ráðherra um þann þátt sem snýr að vinnuveitendaábyrgðinni vegna þess að það er misjafnt hvernig þessu er háttað í Evrópulöndunum. Stundum er um sameiginlega vinnuveitendaábyrgð að ræða og ég kalla eftir því hvernig við stöndum ef svona kemur upp. Ég vil líka nefna að í skýrslu rannsóknasetursins á Bifröst kemur fram að mismunandi er hvar vinnuveitendaábyrgðin liggur. Þess vegna geti hún stundum verið sameiginleg. Alla vega tel ég að þetta þurfi að vera skýrt í lögum um starfsmannaleigur.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann að hægt sé að ná samkomulagi um að á þessu ákvæði sé tekið í frumvarpinu eða er það eins og við höfum verið að ræða hér, virðulegi forseti, að þetta sé algjörlega neglt allt niður með því samkomulagi sem tókst milli aðila vinnumarkaðarins og það sé hvergi hægt að hreyfa sig í þessu? Það er augljóst að það er verulegur ágalli á frumvarpinu, t.d. varðandi réttarstöðu starfsmanna, sem verður að taka á. Ég tek undir ýmislegt sem kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að því er þetta varðar, t.d. varðandi kæruleiðir ef ljóst er að verið sé að brjóta á viðkomandi starfsmanni og hvernig hægt sé að sannreyna að kjörin séu í samræmi við lög. Í mínum huga er vinnuveitendaábyrgðin óljós, eins og frumvarpið er úr garði gert, sem leitt getur til alls konar erfiðleika við framkvæmd og öruggt ef svona er frá málum gengið að starfsfólki sem ráðið er gegnum starfsmannaleigur er verulega hætta á að það njóti lakari starfsréttinda en aðilar á vinnumarkaði. Ég spyr líka hvernig gengið sé úr skugga um hvort erlendar starfsmannaleigur og forsvarsmenn þeirra uppfylli ákveðnar skyldur um ábyrgð, bæði gagnvart skyldum við opinbera aðila, eins og rætt var hér áðan, um skattskyldur og svo ábyrgð gagnvart starfsfólki. Hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem reka starfsmannaleigur?

Löggjöfin um starfsmannaleigur ætti að taka bæði til starfsemi starfsmannaleigunnar og ábyrgðar þeirra og hins vegar að fjalla um réttarstöðu leigustarfsmanna. Í skýrslu rannsóknasetursins á Bifröst kemur fram að í ríkjum meginlands Evrópu séu reglur um útleigustarfsemi yfirleitt ítarlegar en annað gildi á Norðurlöndunum, að Noregi undanskildu. Ég tel að í frumvarpinu þurfi líka að kveða á um skýra upplýsingaskyldu notendafyrirtækisins og starfsmannaleigu til stéttarfélaga eða fulltrúa starfsmanna í notendafyrirtækjum, um kjör og aðbúnað erlends vinnuafls, eins og komið var inn á í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, en víða erlendis er að finna slíkar reglur, þ.e. um upplýsingaskyldu notendafyrirtækisins og starfsmannaleigu til stéttarfélaga eða fulltrúa starfsmanna í notendafyrirtæki. Þegar erlendir starfsmenn fá laun sín greidd frá erlendum starfsmannaleigum gefur augaleið að það getur reynst stéttarfélögum erfitt að fylgjast með að þeir njóti t.d. lágmarkslauna eða réttinda sem þeir eiga að hafa. Þetta finnst mér allt mjög óljóst að því er varðar þessa upplýsingaskyldu og það þarf að kveða skýrar á um þetta. Ég get ekki séð af hverju samtök atvinnurekenda ættu að vera á móti því að það væri skýr upplýsingaskylda fyrir hendi í þessu efni, vegna þess að það er auðvitað ein mikilvæg leið til þess að koma í veg fyrir að ekki sé verið að misnota erlent starfsfólk hér.

Það eru víða líka í gildi sérreglur um við hvaða aðstæður er heimilt að leigja út starfsmenn til notendafyrirtækja og eru slíkar reglur í gildi í meiri hluta Evrópuríkjanna, en sum ríki eins og Danmörk, Finnland og Svíþjóð hafa engar reglur um slíkt og nokkuð er líka um að bann sé lagt við að notendafyrirtæki leigi til sín starfsmenn sem ætlað er að komi í stað starfsmanna sem eru í verkfalli og bannað er að leigja starfsmenn í stað starfsmanna sem sagt hefur verið upp störfum. Sums staðar eru líka reglur sem mæla fyrir um að fyrirtæki megi aðeins leigja til sín starfsmenn við tilteknar aðstæður, t.d. þegar vinnuálag eykst tímabundið. Ekkert er um slíkt í frumvarpinu. Með því er ég ekki að segja að við eigum að taka upp hér á landi ýtrustu reglur sem gilda um starfsmannaleigur og réttindi starfsfólks, vegna þess að hér gildir líka vinnumálalöggjöf, lög um aðbúnað og hollustuhætti á vinnumarkaði og fleiri lög sem í mörgum tilvikum eiga að duga til að tryggja að hegðan þessara erlendu starfsmannaleigna sé í takt við reglur sem gilda um íslenskan vinnumarkað. Ég hef þó nefnt ýmis atriði sem eru sérákvæði sem gilda um starfsmannaleigur sem nauðsynlegt er að taka upp í löggjöf hér á landi, t.d. það sem ég nefndi að skýra vinnuveitendaábyrgð.

Sjálfsagt er hægt að benda á að meginreglan hér á landi sé sú að starfsmannaleigan teljist á grundvelli ráðningarsamninga vera vinnuveitandi þeirra sem ráðnir eru í gegnum starfsmannaleigur. En maður spyr: Af hverju er ekki hægt að taka á vinnuveitendaábyrgðinni með skýrari hætti í slíkum lögum, ekki síst ef notendafyrirtæki tekur þátt í að hlunnfara erlendan starfsmann? Það þarf líka að líta til þess ef erlendir starfsmenn eru verktakar sem eru þá ekki í starfssambandi við starfsmannaleigu eða notendafyrirtæki.

Þetta kemur t.d. skýrt fram í greinargerð rannsóknasetursins á Bifröst. Ég held, virðulegur forseti, að ég hafi ekki tíma til að fara yfir það sem stendur í greinargerðinni þar sem tíma mínum er að ljúka, þó það væri vissulega æskilegt. En þar er farið yfir ýmis ákvæði sem eru í lögum hjá ýmsum Evrópuþjóðum. Þar er að finna mjög ítarleg ákvæði sem talin eru upp í þessari skýrslu á bls. 37 og er mjög nauðsynlegt fyrir félagsmálanefnd að fara ýtarlega yfir, en mjög fá þeirra atriða sem eru talin upp í skýrslunni á bls. 37 er að finna í frumvarpinu. Þegar vísað er til þess að starfsmannaleigur hér á landi teljist vera vinnuveitendur þeirra sem ráðnir eru í gegnum starfsmannaleigur er ástæða til þess að vísa líka til úrskurðar sem kveðinn var upp af yfirskattanefnd vegna skattgreiðslu Impregilo. Um það segir í skýrslu rannsóknasetursins, sem ég ætla að leyfa mér frekar að eyða tíma mínum í að vitna til, með leyfi forseta:

,,Á grundvelli sérreglna skattalaga hefur yfirskattanefnd komist að þeirri niðurstöðu að Impregilo hafi stöðu launagreiðanda gagnvart erlendum leigustarfsmönnum í þjónustu þess. Af þeim úrskurði verður ekki dregin sú almenna ályktun að notendafyrirtæki teljist launagreiðandi/vinnuveitandi erlends leigustarfsmanns í skilningi annarrar löggjafar eða kjarasamninga. Verður í hverju tilviki að líta til þess hvaða skuldbindingar löggjöf leggur á notendafyrirtæki eða hvort það hefur tekið á sig skyldur gagnvart leigustarfsmönnum með kjarasamningum eða öðrum skuldbindandi gerningum.“

Af þessu sést að þetta er alls ekki skýrt í þessu efni, t.d. að því er varðar skattalögin sem hér hafa verið nefnd, hverjir teljist vinnuveitendur þeirra sem ráðnir eru í gegnum starfsmannaleigur.

Frú forseti. Ég hef í máli mínu gagnrýnt mjög hve knöpp þessi löggjöf er og hér sé ekki tekið á ýmsum nauðsynlegum þáttum sem eigi að vera í löggjöfinni. Ég held að full ástæða sé til þess að hv. félagsmálanefnd fari mjög ítarlega yfir þetta mál. Ég geri mér fulla grein fyrir að það er mjög knappur tími til stefnu, en ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við fáum skriflegar umsagnir frá ýmsum lykilaðilum sem um málið hafa fjallað. Ég geri mér fulla grein fyrir að aðilar vinnumarkaðarins leggja áherslu á að afgreiða þetta mál fyrir jólaleyfi þingmanna, en engu að síður verður málið að vera í þeim búningi að sæmileg sátt sé um það í þingsölum ekki síður en hjá aðilum vinnumarkaðarins.