132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[17:02]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við umræðuna síðar í dag mun ég gera mitt ýtrasta til að svara mörgum og umfangsmiklum spurningum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. En ég vil áður en lengra er haldið ítreka það sem fram kom í máli mínu fyrr í dag, að samkomulag er um meginatriði efnisinnihalds frumvarpsins í hópnum sem ég fól að fara yfir málefni starfsmannaleigna fyrir margt löngu. Þau atriði voru lögð til grundvallar í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 15. nóvember síðastliðinn og voru þungt lóð á vogarskálina þegar sátt tókst um áframhaldandi gildi kjarasamninga.

Ég dró fram í ræðu minni, hæstv. forseti, fyrr í dag að sumum þætti of langt gengið í þessu frumvarpi en öðrum of skammt. En innihald þess er engu að síður í samræmi við þessa niðurstöðu. Ég geri mér ekki grillur um, hæstv. forseti, eða læt mér til hugar koma að frumvarpið sé þar með meitlað í stein eða ekki til þess bært að taka það til umræðu. Væri svo væri engin ástæða til að leggja það fram, hæstv. forseti. Ég vildi undirstrika þetta þar sem ítrekað hefur verið spurt um það við umræðuna.

Formaður félagsmálanefndar, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, dró hið sama fram í máli sínu fyrr í dag, ekki síst að nú væri það hv. félagsmálanefndar að fara yfir málið og gera athugasemdir við það ef ástæða þykir til og kalla til þá sem nefndin telur ástæðu til að ræða við. Ég veit ekki betur, hæstv. forseti, en að nefndin eigi fund í fyrramálið með aðilum vinnumarkaðarins þar sem þessi mál verða örugglega til umræðu.