132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[17:04]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra ætlar að svara þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann síðar á fundinum og ég sætti mig við það. Hann telur ástæðu til að ítreka að málið sé ekki svo niður njörvað að ekki megi skoða það með einhverjar breytingar í huga, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt. Hæstv. ráðherra heyrir að mikil gagnrýni hefur komið fram á frumvarpið. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að hún kemur úr báðum áttum, ýmist talið að of langt sé gengið eða of skammt. Við verðum að fara yfir það í félagsmálanefnd og við munum leggja okkur fram um að afgreiða málið fyrir jól.

Ég held þó, virðulegi forseti, að við verðum að leggja metnað okkar í að skoða málið vel og fara ítarlega yfir það. Um er að ræða löggjöf sem skiptir miklu máli, ekki síst fyrir erlent vinnuafl sem kemur til landsins. Það hefur ítrekað verið brotið á réttindum þess fólks og erlent starfsfólk verið misnotað. Við hljótum að gera kröfu til þess í þingsal að löggjöf sem við setjum frá okkur um þetta efni, loksins þegar hún sér dagsins ljós, sé sæmilega örugg og með henni verði tryggt að ekki sé hægt að misnota þetta starfsfólk. Við höfum ótal dæmi um það sem við höfum ítrekað farið í gegnum í þinginu á undanförnum missirum. Við megum ekki kasta til höndum í svona málum og hafa það mikið rúm fyrir málamiðlun milli aðila vinnumarkaðarins í þessu efni að lögin skili okkur ekkert áleiðis í að bæta kjör og aðbúnað erlends vinnuafls sem hingað kemur. Nóg hefur verið traðkað á réttindum þess fólks.

Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, og kannski fæ ég skýringu á því hjá hæstv. ráðherra: Hvað rekur á eftir því að við afgreiðum þetta mál fyrir jól? Af hverju má ekki afgreiða það á fyrstu dögunum þegar þing kemur saman aftur, ef okkur skortir á annað borð tíma til að afgreiða það fyrir jól?