132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[17:08]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum um mikilvægt mál, þ.e. málefni starfsmannaleigna. Þau mál hafa verið til umfjöllunar í samfélaginu um nokkurt skeið.

Í frumvarpinu eru ýmis atriði sett fram til að gera starfsemi starfsmannaleigna eðlilegri, þ.e. til að skapa eðlilegri umgjörð um þá starfsemi. Í frumvarpinu kemur fram að gert er ráð fyrir því að starfsmannaleigur tilkynni um starfsemi sína til Vinnumálastofnunar og stofnunin geti haldið skrá yfir starfsmannaleigur. En í dag er ekki til yfirlit yfir slíkar leigur. Auk þess kemur skýrt fram að starfsmannaleigum sem ekki tilkynna sig mun ekki heimilt að starfa hér á landi.

Einnig er tínt til að starfsmannaleigur sem veita þjónustu í ákveðinn tíma, þ.e. eru virkar á markaðnum, skuli hafa sérstakan fulltrúa sem komi fram fyrir starfsmannaleiguna gagnvart stjórnvöldum en eitt af umkvörtunarefnunum, m.a. hjá stéttarfélögum, hefur verið að erfitt sé að halda uppi eftirliti þegar menn þurfa stöðugt að ræða við aðila sem eru mjög fjarlægir og eiga fulltrúa á landinu.

Starfsmannaleigunum er líka ætlað að gefa Vinnumálastofnun tilteknar upplýsingar um starfsemi sína. Það hefur verið gert að umtalsefni í þessari umræðu, sem eðlilegt er. Í frumvarpinu segir einnig að starfsmannaleigum verði óheimilt að krefjast greiðslna frá starfsmönnum sínum fyrir að bjóða þeim eða veita þeim vinnu hvort sem er við upphaf ráðningarsambands eða síðar, enda er það hin almenna regla á íslenskum vinnumarkaði að þegar fólk sækir um vinnu og fær vinnu þá þarf það ekki að greiða fyrir að fá þá vinnu. Hið sama á að gilda um starfsmannaleigur.

Fram kemur að starfsmannaleigu verði óheimilt að takmarka rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis en stofnar síðan til ráðningarsambands við það fyrirtæki. Að lokum er tínt til, í yfirliti um frumvarpið, að Vinnumálastofnun sé ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd laganna.

Virðulegur forseti. Ég tel að um ágætisramma sé að ræða fyrir starfsmannaleigur og að verði þetta frumvarp að lögum, sem mér heyrist almenn samstaða um, hvort sem það verður nákvæmlega í því formi sem það liggur fyrir í núna eða í breyttu formi, þá sé það skref fram á við.

Það skjal sem við getum helst nýtt okkur við vinnslu málsins í félagsmálanefnd er skýrsla eða greinargerð sem unnin var fyrir félagsmálaráðuneytið um starfsmannaleigur. Það var Rannsóknarsetur vinnuréttar og jafnréttismála á Bifröst sem vann þá greinargerð og skilaði í október. Hún tekur á helstu málum varðandi starfsemi starfsmannaleigna í nágrannaríkjum okkar, þ.e. í Evrópu. Þar kemur ýmislegt fram.

Ég ætla að grípa aðeins niður í áðurnefnda skýrslu. Þar kemur fram sérstaða útleigustarfseminnar sem felst einkum í því að á milli starfsmannaleigu, leigustarfsmanna og svokallaðra notendafyrirtækja, skapast þríhliða samband, sem er óvenjulegt miðað við það sem við þekkjum á vinnumarkaði. Ráðningarsambandið er á milli starfsmannaleigunnar og leigustarfsmannsins en starfsmannaleigan veitir síðan notendafyrirtæki ráðstöfunarrétt yfir starfsmanninum. Það er skýrt að ráðningarsambandið er milli starfsmannaleigunnar og starfsmannsins en segja má að starfsmaðurinn vinni eiginlega fyrir tvo atvinnurekendur í einu, þ.e. fyrir starfsmannaleiguna sjálfa, sem yfirleitt greiðir honum launin, og svo fyrir notendafyrirtækið og lúti daglega stjórn þess fyrirtækis varðandi þá vinnu sem hann innir af hendi. Þetta er óvenjulegt en í hefðbundnum ráðningarsamböndum, sem við þekkjum helst til á vinnumarkaði, lýtur starfsmaðurinn stjórn vinnuveitandans sem greiðir honum launin, þ.e. notendafyrirtækisins miðað við hvernig það er sett upp í greinargerð rannsóknarsetursins. Þar eru bara tveir aðilar í spilinu en með starfsmannaleigunni eru þrír aðilar í spilinu.

Í greinargerðinni kemur einnig fram að takmarkað vinnuöryggi og vinnuvernd fylgi stundum starfsmannaleigu og að leigustarfsmennirnir séu útsettir fyrir mismunun. Það hefur komið fram í umræðunni í dag, virðulegi forseti, að á Kárahnjúkasvæðinu bjuggu starfsmenn, sem þar voru á vegum starfsmannaleigna, við bágbornar aðstæður. Þótt að sjálfsögðu sé ekki neitt broslegt við það þá muna sjálfsagt bæði þingmenn og aðrir landsmenn eftir því hvernig Spaugstofan fjallaði um það á sínum tíma. Aðbúnaðurinn var ekki til fyrirmyndar. Það gengur ekki að búa illa að starfsmönnum og allir mótmæla því. Ég vil ekki gera það að neinu skemmtiefni en ég held að þingmenn og aðrir muni ágætlega eftir umfjöllun um þau mál, m.a. úr þáttum Spaugstofunnar.

Í greinargerðinni kemur fram að útleigustarfsemi er heimiluð í öllum ríkjum Evrópu en hér kom fram hjá einum hv. þingmanni að kannski væri best að banna þessa starfsemi. Ég held að það sé flókið mál og gangi ekki upp og þess vegna sé eðlilegt að setja frekar reglur um starfsemina.

Þrátt fyrir mikla útþenslu í þessari útleigustarfsemi er hlutfall leigustarfsmanna í ríkjum ESB í heildina mjög lágt en á árinu 2001 var aðeins 1,9% starfa í þessum ríkjum unnin á vegum starfsmannaleigna. Þar fyrir utan er útleigustarfsemi hér á landi enn þá takmarkaðri en almennt gerist í ríkjum Evrópu enda þótt starfsmannaleigur séu til hér. Í greinargerðinni er sérstaklega minnst á tvö innlend fyrirtæki sem flokkuð eru sem starfsmannaleigur en það eru fyrirtækin Liðsinni-Sólarplexus ehf. og Alhjúkrun ehf. en þessi fyrirtæki leigja út hjúkrunarfræðinga.

Eftir að hin nýju aðildarríki gengu inn í ESB virðist upp á síðkastið hafa orðið fjölgun á erlendum leigustarfsmönnum hér á landi á grundvelli þjónustuviðskipta. Ég held að menn hafi almennt orðið varir þetta hér á landi .

Í ríkjum meginlands Evrópu er almennt frekar nákvæm löggjöf um starfsmannaleigur og réttindi leigustarfsmanna. Á Norðurlöndunum gilda á hinn bóginn almennt takmarkaðar eða engar reglur um útleigustarfsemi. Að vísu er undantekningar á þessu. Í Noregi eru ítarlegar reglur, í finnski og sænskri löggjöf eru fáar og í Danmörku engar. Þetta kemur svolítið á óvart af því að hinn norræni vinnumarkaður og Norðurlöndin hafa almennt má segja fylgst að í löggjöf. Það kemur manni á óvart hve Norðurlöndin eru, ég veit ekki hvort maður á að kalla það ósamstiga eða hafa tekið mjög mismunandi á þessum málum. Það eru engar reglur í Danmörku, fáar í Finnlandi og Svíþjóð en mjög ítarlegar í Noregi. Hér á landi gilda engar reglur í dag en við erum núna að setja okkur þær. Fyrir utan það er hvorki í Svíþjóð né Danmörku neitt um lágmarkskjör í lögum, það er í kjarasamningum. Það kemur manni svolítið á óvart með Danmörku að þar eru heldur engar reglur um þessa starfsemi þó að starfsmannaleigur eigi sér þar talsverða forsögu. Þetta kemur á óvart, virðulegur forseti.

Það kemur líka á óvart hve misjafnt er milli landa í hvaða störfum þessir leigustarfsmenn eru eða hvaða störfum þeir sinna. Það kemur fram að í ESB-ríkjum í heildina hafa iðnfyrirtæki einna helst nýtt sér vinnuafl á vegum starfsmannaleigna, einkum byggingarfyrirtæki. Þjónustufyrirtæki eins og hótel og veitingahús eru farin að nýta sér leigustarfsmenn í auknum mæli, sérstaklega á Norðurlöndunum. Í nýlegri skýrslu frá Dublinarstofnuninni þar sem fjallað er um útleigustarfsemi í sjö aðildarríkjum ESB kemur fram að þessi hreyfing á útleigustarfsemi frá iðnaði til þjónustustarfsemi hafi enn aukist enda þótt enn starfi hátt hlutfall leigustarfsmanna í framleiðsluiðnaði.

Á Norðurlöndunum er útleigustarfsemi einnig algeng í heilbrigðisgeiranum. Það kemur fram í greinargerðinni frá Bifröst að í Finnlandi störfuðu t.d. 19,5% allra leigustarfsmanna við heilbrigðisþjónustu árið 2002. Hlutfallið er einnig hátt í þeim geira í Danmörku þannig að bæði í Finnlandi og Danmörku starfa tiltölulega margir leigustarfsmenn í heilbrigðisgeiranum. Þetta er hugsanlega eitthvað sem við munum sjá á Íslandi í framtíðinni líka þó að erfitt sé að spá nákvæmlega um það.

Almennt hafa stéttarfélögin kvartað undan því að erfitt sé að fylgja því eftir hvort lágmarkskjara samkvæmt kjarasamningum sé gætt og erfitt sé að gæta réttinda erlendra leigustarfsmanna. Það hefur verið hin opinbera og viðkvæma umræða sem við höfum tekið eftir á síðustu missirum. Það er hins vegar alveg ljóst að leigustarfsmenn eiga rétt á lágmarkslaunum samkvæmt kjarasamningum og lögum.

Virðulegur forseti. Ég vil einnig gera að umtalsefni það sem kemur fram í lok greinargerðarinnar frá Bifröst að ef litið er til nágrannaríkja okkar á Norðurlöndunum þá virðist réttarástandið eins og það er í dag vera tiltölulega sambærilegt hér á landi og í Danmörku en hvorki hér né í Danmörku gildir sérstök löggjöf um útleigustarfsemina. Við ætlum að bæta úr því. Í báðum ríkjunum er vinnulöggjöfin sveigjanleg og kjarasamningar samtaka aðila vinnumarkaðarins hafa mikla þýðingu, en það er mikilvægt atriði sem skilur á milli. Á Íslandi hafa kjarasamningar um lágmarkskjör launafólks almennt gildi á ákveðnum lagagrundvelli en í Danmörku hafa kjarasamningar ekki slíkt almennt gildi sem lágmarkskjör á vinnumarkaði. Að því leyti er réttarstaða leigustarfsmanna betri hér á landi.

Hér á landi standa stjórnvöld frammi fyrir ýmsum kostum varðandi mögulega lagasetningu um útleigustarfsemi og það er mikilvægt við þá skoðun, þ.e. þegar við skoðum hvað við ætlum að gera, að hafa í huga að starfsmannaleigur hér á landi eru afar fáar. Miðað við þær upplýsingar sem aflað hefur verið hjá stjórnvöldum og hjá stærstu samtökum aðila vinnumarkaðarins verður ekki greint að sérstök vandamál hafi tengst starfsemi þeirra umfram það sem almennt gerist á vinnumarkaði. Þau vandamál sem verkalýðshreyfingin hefur einkum bent á lúta að erfiðleikum við að fylgja eftir lágmarkskjörum kjarasamninga sem leigustarfsmenn sem hingað koma á vegum erlendra starfsmannaleigna eiga rétt á lögum samkvæmt. Það er erfitt að gera sér grein fyrir hvort nægjanlega sé tekið á þessu vandamáli í samkomulagi Samtaka atvinnulífsins og ASÍ frá 7. mars 2004 og samningsaðilar virðast ekki vera einhuga um það efni. En það verður þó að hafa í huga að með því samkomulagi tókust atvinnurekendur á hendur verulegar skyldur að því er snertir upplýsingagjöf varðandi laun eða önnur starfskjör erlendra leigustarfsmanna og það ætti auðvitað að auðvelda réttindagæslu stéttarfélaganna.

Virðulegur forseti. Starfsmannaleigur eru ekki margar á Íslandi en umræðan hefur verið heit um þær sem hér hafa starfað og því er eðlilegt að við bregðumst við með því að setja löggjöf sem á að tryggja eins og kostur er að vel sé búið að hinum erlendu starfsmönnum sem hingað koma á vegum starfsmannaleigna, eins og öðrum starfsmönnum á íslenskum vinnumarkaði, og þeir fái að sjálfsögðu ekki minna en lágmarkslaun sem eru lög í landinu og starfsmannaleigum ber að fara eftir.

Í umræðunum hefur komið fram að skilgreiningin í 1. gr. sé hugsanlega of víð eða óljós. Nefnd hafa verið dæmi um að almenn útleigustarfsemi gæti hugsanlega fallið undir 1. gr. eins og hún lítur út núna og e.t.v. þurfi að þrengja skilgreininguna. Þetta eru auðvitað atriði sem við þurfum að skoða í félagsmálanefnd og fara ítarlega yfir. Það kemur þó á óvart ef þessi skilgreining er á reiki, en hv. þingmenn hafa bent á það og fært ákveðin rök fyrir því, af því að nú er ljóst að bæði Samtök atvinnulífsins og ASÍ voru með fulltrúa í þeirri nefnd sem kom að samningu þessa frumvarps og því kemur á óvart ef þetta hefur farið fram hjá þeim. En við munum að sjálfsögðu fara yfir þetta í nefndinni.

Það hefur líka komið fram að e.t.v. væri frumvarpið íþyngjandi fyrir íslenskar starfsmannaleigur. Mér finnst þetta líka atriði sem við þurfum að skoða sérstaklega en eins og ég sagði áðan kom fram í greinargerðinni frá Bifröst að þar eru tvö fyrirtæki sérstaklega tiltekin, þ.e. Liðsinni-Sólarplexus og Alhjúkrun sem bæði eru hjúkrunarfyrirtæki. Þetta er eitthvað sem við þurfum að átta okkur á í hv. félagsmálanefnd hvort á við rök að styðjast.

Ég vil líka nefna 16. gr. frumvarpsins en þar kemur fram reglugerðarheimild fyrir félagsmálaráðherra sem orðast svo, með leyfi virðulegs forseta: „Félagsmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um tímabundin atvinnuleyfi.“ Ég býst við því að hér sé verið að skjóta lagastoð undir þann möguleika að ráðherra gæti sett reglugerð um tímabundin atvinnuleyfi, þ.e. atvinnuleyfi sem félli úr gildi eftir einhvern ákveðin tíma. Slík atvinnuleyfi eru talsvert útbreidd og mikið notuð í nágrannaríkjum okkar, ég get nefnt Noreg sem dæmi, en við höfum ekki nýtt okkur slík tímabundin atvinnuleyfi. Ég geng út frá því að hér sé verið að skjóta lagastoð undir slíka reglugerð þannig að menn geti gripið til hennar. Mér finnst alveg sjálfsagt að hægt sé að grípa til tímabundinna atvinnuleyfa ef menn kjósa svo eins og í öðrum ríkjum.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni að þetta sé samkomulagsmál, þ.e. samkomulag um efnisinnihaldið. Að sjálfsögðu er það svo að ef einhverjir ágallar eru á málinu gerum við breytingartillögur um þá ágalla. En það verður að vera ljóst að það sé einhvers konar sátt um að það séu viðamiklir gallar á málinu þannig að ástæða sé til að gera breytingar. Frumvarpið er ekki meitlað í stein en við verðum að bera virðingu fyrir því að þetta frumvarp var liður í því að samkomulag náðist milli aðila vinnumarkaðarins um að kjarasamningar héldu. Þetta mál er því sérstakt að því leyti. Við fáum stundum slík mál inn í þingið, ekki oft en það kemur fyrir, og margir þingmenn þekkja af reynslunni að það er tiltölulega þungt fyrir fæti að breyta slíkum málum. Að sjálfsögðu gerum við það ef eitthvað í frumvarpinu er þess eðlis að við séum sammála um að það mundi bæta málið að breyta því. Ef okkur á að takast að klára málið fyrir jól sem ég heyri að aðilar vinnumarkaðarins eru áfram um og ég tel mjög æskilegt að gera líka, og tek undir með hæstv. félagsmálaráðherra um að við ættum að klára það fyrir jól og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess, þá er ljóst að við getum ekki farið út í miklar breytingar. En auðvitað skoðum við breytingar sem við teljum að lagi málið.

Ég vil fagna því sem kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem þekkir vel til þessara mála í gegnum þingstörf á Alþingi og í félagsmálaráðuneytinu, að hún og fleiri þingmenn ætla að leggja sitt af mörkum til þess að klára þetta mál fyrir jól en eins og hv. þingmaður sagði, og ég vil taka undir með henni, þá viljum við að sjálfsögðu geta verið sæmilega viss um að sú löggjöf sem við erum að setja gagnist. Annars er verr af stað farið en heima setið. Ég hlakka til að takast á við að vinna að málinu í félagsmálanefnd með þeim ágætu þingmönnum sem þar eru og tel að við getum klárað það fyrir jól með hugsanlega einhverjum breytingum.