132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[18:22]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að með þessu frumvarpi sé alveg skýrt kveðið á um með hvaða hætti ætlað er að eftirlit með þessum málum verði og það verði í höndum Vinnumálastofnunar. Það breytir hins vegar ekki hinu, eins og ég hef margítrekað og lagt áherslu á í máli mínu í dag, að um þessi samskipti eins og önnur gilda íslensk lög og kjarasamningar. Ég hef sömuleiðis marglýst ánægju minni og raunar aðdáun á íslenskri verkalýðshreyfingu hvað þessi mál varðar, hvernig hún hefur gengið fram, hvernig hún hefur raunverulega viðhaldið þeirri reglu sem er á íslenskum vinnumarkaði og varðar eftirlit með því að íslensk lög og kjarasamningar séu uppfylltir. Ég vonast sannarlega til, hæstv. forseti, að íslensk verkalýðshreyfing haldi þeim upptekna hætti, enda hefur það eins og fram hefur komið í dag skipt sköpum varðandi þessa umræðu, framgang hennar og það að við ræðum í dag í sölum Alþingis frumvarp til laga um starfsmannaleigur. Þar á verkalýðshreyfingin auðvitað mjög ríkan hlut að máli.