132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Faggilding o.fl.

361. mál
[18:31]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja út í starfsemi faggildingarsviðs sem er verið að setja á legg núna, og verður, ef frumvarpið verður að lögum, innan Einkaleyfastofu. Samkvæmt greinargerðinni mun þetta svið faggilda starfsemi af fjölbreyttu tagi, bifreiðaskoðun, lífræna ræktun og fiskeftirlit og einungis er um tvo starfsmenn að ræða sem eiga að löggilda alla þessa mismunandi starfsemi sem hefur síðan eftirlit með fjölmörgum aðilum í þjóðfélaginu.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort einn til tveir starfsmenn dygðu í svo víðtæka starfsemi? Það væri mjög áhugavert að fá það inn í umræðuna hvort fram hefði farið mat á því. Fljótt á litið virðast þessum starfsmönnum falin viðamikil störf.