132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:08]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hér er komið til 3. umr. frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005, yfirstandandi ár. Ég leyfi mér að vitna til nefndarálits sem ég stóð að og flutti við 2. umr. fjáraukalaga og einnig að vitna talnalega til niðurstaðna og annars talnaefnis til framsögu hv. formanns fjárlaganefndar, Magnúsar Stefánssonar.

Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005 og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er lagt til að útgjöld ríkisins verði aukin um tæplega 21 milljarð kr. Heimild til gjalda í fjárlögum ársins 2005 var 296,4 milljarðar kr., þ.e. 6,4% hækkun frá útgjöldum fjárlaga ársins 2004, eins og lagt var upp með samkvæmt fjárlögum fyrir um ári.

Enn er áréttað að í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í 43. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, segir að ef þörf krefur skuli í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir. Í 44. gr. laga um fjárreiður ríkisins kemur fram hvenær er heimilt að greiða fé úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum. Þar segir að valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þurfi til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skuli leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Undanfarin ár hafa ýmis fjárútlát sem fjáraukalagafrumvarp hefur kveðið á um, svo sem vegna mennta- og heilbrigðismála, verið fyrirsjáanleg við gerð fjárlaga og því átt heima í fjárlagafrumvarpi þess árs þegar það var samþykkt.

Í fyrra nefndaráliti 2. minni hluta, sem lagt var fram 14. nóvember sl. var farið yfir hversu ónákvæmar grundvallarforsendur fjárlaga hafa verið, t.d. vegna gengisvísitölu og viðskiptahalla.

Við getum rifjað það upp, frú forseti, að í forsendum fjárlaga fyrir árið 2005 eins og gengið var frá þeim fyrir um ári var gert ráð fyrir að gengisvísitalan á þessu ári yrði 122–124. Það voru þær forsendur sem lagt var upp með og atvinnulífið og viðskiptalífið áttu síðan að taka mið af. En hver hefur orðið raunin? Jú, gengisvísitalan hefur að undanförnu verið niður undir 100, þ.e. um 20% munur er á því sem áætlað var við gerð fjárlaga og er í raun. Viðskiptahallinn reynist líka miklu meiri, allmörgum milljörðum meiri á þessu ári en ráð var fyrir gert. Þetta sýnir kannski í hnotskurn hversu í fyrsta lagi óraunhæf áætlunargerð af hálfu ríkisins er og hversu á ýmsan hátt óraunhæf fjárlögin eru þegar þau eru samþykkt en einnig sýnir þetta stærsta veikleikann sem er að gerast í íslenskum efnahagsmálum, þ.e. hár viðskiptahalli, hátt gengi krónunnar, mjög erfið staða útflutningsgreinanna, háir vextir og verulega skert samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs.

Í þingsölum hefur undanfarið verið talað um hina erfiðu stöðu vegna hás gengis og hárra vaxta. Meira að segja sumir hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans, t.d. hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, hafa rætt um það. Ég sá í alveg splunkunýrri frétt frá OECD að væntanlega þurfi að hækka stýrivexti hér á landi enn meira frá því sem nú er. Það eru ekki nein sérstök gleðitíðindi fyrir íslenskt atvinnulíf. Þetta er spegill þeirrar efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin gengst fyrir og er að sliga allt atvinnulíf vítt og breitt um landið, sérstaklega útflutningsatvinnugreinarnar.

Þessi ónákvæmni í gerð áætlana sem ég hef rakið hefur einmitt verið ein af röksemdunum fyrir því að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum ítrekað lagt til að sérstök efnahagsskrifstofa verði sett á fót við Alþingi og þar starfi sérfræðingar sem geti lagt sjálfstætt mat á efnahagsforsendurnar og verið Alþingi og þingmönnum til ráðgjafar við mat og tillögugerð einstakra þátta efnahags- og fjármála. Ég held, frú forseti, að það sé aldrei brýnna en nú að Alþingi eigi sjálfstæða og óháða efnahagsskrifstofu sem geti verið til aðgerða hvað þetta varðar.

Núverandi efnahagsástand kalla margir ógnarjafnvægi með réttu þar sem óljóst er hvaða afleiðingar það ójafnvægi sem stóriðjuframkvæmdirnar hafa skapað hefur gagnvart öðrum atvinnugreinum eins og sjávarútvegi, ferðaþjónustu og hátækniiðnaði. Þess er skemmst að minnast að þegar sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækjum á Vestfjörðum var lokað fyrr í sumar, augljósar afleiðingar stóriðjustefnunnar, þeirra ruðningsáhrifa sem stóriðjustefnan hefur valdið og veldur enn og voru fyrirsjáanleg, þá sagði hæstv. iðnaðarráðherra við Vestfirðinga að ruðningsáhrifin gætu samt líka verið af hinu góða, þegar ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar ollu því að fiskvinnslufyrirtækjum á Vestfjörðum var lokað. Þetta er sú stefna sem núverandi ríkisstjórn hefur keyrt áfram og öllu öðru atvinnulífi blæðir.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum fram í upphafi þessa þings tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Fylgja þær tillögur með sem fylgiskjöl við frumvarp þetta en þar eru einmitt tínd til þau meginatriði sem grípa þarf til strax til að reyna að koma á efnahagslegum stöðugleika á ný og skapa atvinnugreinunum, útflutningsgreinunum, sjávarútvegi, fiskvinnslu, hátækniiðnaðinum, ferðaþjónustunni, starfsgrundvöll að nýju.

Eitt einkenni frumvarpsins og tekjuhliðar þess er hve stórt hlutfall tekna ríkissjóðs er orðið tengt viðskiptahallanum, þenslunni og einkaneyslu sem drifin er áfram af skuldasöfnun hvort sem er einstaklinga, heimila eða þjóðarbúsins alls. Þetta verður sérstakur skattstofn hjá ríkissjóði til að skattleggja með óbeinum sköttum, virðisaukaskatti og innflutningsgjöldum, og þetta er að verða aðaltekjustofn ríkissjóðs, þ.e. skattlagningin á viðskiptahallann og þensluna. Það er áhyggjuefni. Við vonum að þetta ástand vari ekki til eilífðar, að við söfnum ekki auknum viðskiptahalla áfram í mörg ár eða eyðum um efni fram. Hins vegar hefur ríkisstjórnin valið að lækka tekjuskatt, skatta á hæstu tekjur. Það er sú leið sem þessi ríkisstjórn velur í skattamálum, að lækka tekjuskatt á hæst launaða fólkinu en færa hlutfallslega skattbyrðina yfir á lágtekjurnar en með því veikir ríkissjóður tekjugrunn sinn þegar til framtíðar er litið sem getur líka ógnað efnahagslegum stöðugleika og möguleika ríkissjóðs á að axla ábyrgð á velferðarkerfinu. Sú stefna sem rekin er í skattamálum leiðir því til þess að tekjugrunnur ríkissjóðs verður veikari og veikari sem að mati þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er kolröng stefna.

Eins og áréttað var hér að framan á einungis að veita viðbótarheimildir í fjáraukalögum vegna ófyrirséðra verkefna. Undanfarin ár hafa sérstaklega verið nefndir hinir ýmsu fjárlagaliðir vegna mennta- og heilbrigðismála sem hafa fengið viðbótarheimildir í fjáraukalögum þrátt fyrir að bent hafi verið á við fjárlagagerð að ljóst væri að fjárveitingar væru ekki nægar. Sem dæmi um viðbótarheimildir í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005 er sérstaklega bent á viðbótarheimild til aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins og hefur áður verið gert hér að umtalsefni, 50 millj. kr., og til sendiráða Íslands, 276 millj. kr. Eini rökstuðningurinn fyrir viðbótarheimildinni er sagður vera uppsafnaður halli en í greinargerð Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga frá því í júní sl. kemur fram að 120 fjárlagaliðir voru með verulegan halla í árslok 2004. Halli samkvæmt höfuðstól einstakra fjárlagaliða í ríkisreikningi fyrir árið 2004 er alls rúmir 20 milljarðar, þar af eru lífeyrisskuldbindingar 7,3 milljarðar kr. Afskriftir skattkrafna eru 4,8 milljarðar en ónýttar fjárheimildir eru rúmir 16 milljarðar kr. Það er ljóst að sá vandi sem fluttist frá árinu 2004 yfir á árið 2005 verður hvorki leystur í fjárlögum fyrir árið 2005 né með fjáraukalagafrumvarpinu sem við fjöllum nú um. Í þessu sambandi má benda á að fjárlagaliðir sem komnir eru umfram heimildir hjá menntamálaráðuneytinu í árslok 2004 námu alls um 1,5 milljörðum kr. og hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti um 2,6 milljörðum kr. Ekki er tekið á þessum halla eða þessum skuldum í fjáraukalagafrumvarpinu sem við erum með til meðferðar hér.

Í fjáraukalagafrumvarpinu er lagt til 50 millj. kr. viðbótarframlag til Þróunarstofnunar Íslands til uppbyggingar og þróunarstarfs á Sri Lanka á árinu 2005 vegna jarðskjálftanna og flóðanna sem þar urðu í upphafi ársins. Enn fremur er lagt til 10 millj. kr. framlag til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar vegna sama máls. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mundu styðja hærri upphæð til þessara hamfarasvæða í Asíu. Þá er í frumvarpinu lagt til 31 millj. kr. framlag í svokallaðan Bush-Clinton-sjóð til stuðnings við fórnarlömb fellibylsins Katrínar í Bandaríkjunum og er allt gott um það að koma til stuðnings vegna þeirra hamfara sem þar urðu. Við 2. umr. frumvarps til fjáraukalaga lagði meiri hlutinn til að varið yrði 18,1 millj. kr. til hjálparstarfs vegna náttúruhamfaranna í Kasmír. Þá lagði 2. minni hluti eða sá sem hér stendur ásamt fleirum til að aðstoð við hjálparstarfið í Kasmír næmi samtals 98 millj. kr. Sú tillaga var síðan kölluð aftur til 3. umr. Nú hefur meiri hluti fjárlaganefndar lagt til að fjárveiting til hjálparstarfs í Kasmír verði hækkuð úr 18 millj. í 30 millj. kr. eða hliðstæð upphæð og veitt er til fórnarlamba fellibylsins Katrínar í Bandaríkjunum. Er það í áttina svo langt sem það nær.

Af fréttum að dæma ríkir mikil neyð á hamfarasvæðunum í Kasmír og er ákaft kallað til alþjóðasamfélagsins um stuðning. Vetur gengur nú í garð á þessum svæðum og eykur kuldi, snjór og samgönguerfiðleikar enn á hörmungarnar. Við Íslendingar þekkjum hörmungar náttúruhamfara af eigin raun. Því er lagt til að samtals 87 millj. kr. verði veittar til hjálparstarfsins í Kasmír á þessum fjáraukalögum en ég og nokkrir aðrir hv. þingmenn stöndum að þeirri tillögu. Þeir eru auk mín hv. þingmenn Guðjón A. Kristjánsson, Þuríður Backman og Guðmundur Magnússon sem höldum áfram fyrri tillögu lítillega lækkaðri reyndar sem við fluttum við 2. umr. fjáraukalaga um að okkur bæri að koma myndarlegar að hjálparstarfinu, neyðaraðstoðinni í Kasmír.

Reyndar má minna á, án þess að þurfa að tengja það neitt saman, að upphæðin sem við leggjum til að verði veitt þarna er sú sama og upphæðin sem ríkisstjórnin velur og leggur áherslu á á fjáraukalögum, 87 millj. kr., til að greiða hlutdeild í hernaðarflugi á vegum NATO til Afganistans og Íraks. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þessum málum er ljós. Það skal frekar verja fénu til að taka þátt í hernaðarumsvifum NATO en standa myndarlegar að þessu hjálparstarfi.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill sérstaklega benda á að ekki er tekið með nægilega ákveðnum hætti á uppsöfnuðum vanda hjúkrunar- og elliheimila. Uppsafnaður halli hefur í mörgum tilfellum aukist á árinu 2005 án þess að tekið sé á honum. Þá er einnig rétt að benda á að halli Háskólans á Akureyri hefur enn aukist á árinu og þær 110 millj. kr. sem veita á í fjáraukalagafrumvarpinu duga engan veginn til að leysa hallann sem skólinn hefur þegar safnað.

Frú forseti. Það er alveg makalaust að Háskólinn á Akureyri sem hefur einmitt sýnt að hann er eitt öflugasta átakið í rannsóknar- og menntunarstarfi og í atvinnu og nýsköpun hér á landi að ég tali nú ekki um á Norðurlandi, á Eyjafjarðarsvæðinu eða öllu Norðurlandi, skuli vera knúinn til að loka deildum en svo er hægt að senda sendisveit til að velta fyrir sér nýrri álbræðslu í Eyjafirði. Þetta er forgangsröðunin. Þegar fara á að undirbúa álverksmiðju hvort sem er í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum eða annars staðar þar sem ríkisstjórnin og hæstv. iðnaðarráðherra dettur í hug, þá eru til peningar. En þegar styðja á við mennta- og rannsóknarstofnanir eða aðra starfsemi þá eru þeir af svo af skornum skammti að meira að segja Háskólinn á Akureyri þarf að loka tveimur deildum til að standast þann fjárlagaramma sem honum er skammtaður svo þröngur.

Frú forseti. Alvarlegast er þó hvernig elli- og hjúkrunarheimilin eru skilin eftir við þessa fjáraukalagaafgreiðslu með mikinn uppsafnaðan rekstrarhalla sem annaðhvort hvílir á heimilunum sjálfum og torveldar starfsemi þeirra eða hlutaðeigandi sveitarfélaga sem hafa hlaupið undir bagga og tekið hallann á sig. Mörg þessara sveitarfélaga eru þó ekki fjárhagslega burðug fyrir til að taka á sig þennan halla en brýn nauðsyn krefur þau til. Þessi vandi er þó ekki nýr. Upplýsingar um hann lágu fyrir í fjárlaganefnd í fyrra, í hittiðfyrra, í ár án þess að á honum sé tekið og í orðaskiptum sem við áttum hér ég og hv. formaður fjárlaganefndar, Magnús Stefánsson, kom fram hjá hv. þingmanni að málið væri enn þá í skoðun í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, enn væri verið að skoða þessi mál og taka á þeim heildstætt til að sjá hver stærðargráðan væri, einhvern veginn þannig var það orðað. Gott og vel. Það er nauðsynlegt að hafa góða yfirsýn yfir þetta mál en eftir því sem ég fæ best séð liggja alveg fullnægjandi upplýsingar fyrir, bæði hvað vantar inn í rekstrargrunn þessara hjúkrunar- og dvalarheimila og hver hallinn er hjá viðkomandi heimilum og sveitarstjórnum sem tekið hafa á sig halla þessara stofnana. Það er því engin ástæða til að rekja það eða bíða eftir einhverri nefnd hvað það varðar.

Ég verð að segja fyrir mig að ég varð fyrir vonbrigðum með að ekki skuli vera tekið á þessu máli við 3. umr. fjáraukalaga, málið hefur verið rætt svo rækilega í haust, og að það skuli enn vera í nefnd til skoðunar. Það er dapurlegt til þess að hugsa ef það verður áfram í nefnd og áfram til skoðunar fram yfir 3. umr. fjárlaga. Mér fyndist afar sorglegt og dapurlegt ef það reyndist raunin og ég vona svo sannarlega að meiri hluti fjárlaganefndar, ríkisstjórnin og meiri hluti hennar á Alþingi láti ekki þá skömm um sig spyrjast að taka ekki á rekstrarvanda og halla hjúkrunar- og dvalarheimila áður en við ljúkum 3. umr. fjárlaga á Alþingi.

Í fylgiskjali með nefndaráliti mínu er vitnað í ýmis greinaskrif sem tengjast þessu máli, t.d. ágætisgrein eftir Elsu B. Friðfinnsdóttur, sem er formaður Félags hjúkrunarfræðinga, þar sem hún rekur þetta mál mjög vel en bendir jafnframt á hvernig staða og kjör þessa fólks fer aftar í röðina gagnvart hugðarefnum ríkisstjórnarinnar því greinin heitir, og hún leggur áherslu á sína skoðun, „Hjúkrunarrými í stað skattalækkana“. Þessi fyrirsögn segir margt og þarf ekki miklu við hana að bæta en í þessari grein rekur formaður Félags hjúkrunarfræðinga einmitt þetta mál, hversu þörfin er brýn og finnur að þessari forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Þá er og vitnað til ritstjórnargreinar Morgunblaðsins frá 5. nóvember 2005 varðandi ástandið á hjúkrunarheimilunum þar sem það er rakið. Ég nefni þetta hér af því að hv. formaður fjárlaganefndar taldi að enn þyrfti að skoða málið í nefnd. Ekki telur ritstjórn Morgunblaðsins þess þurfa en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um þjónustu við aldraða kemur fram að í einungis 57% tilvika búa aldraðir á hjúkrunarheimilum á einbýli miðað við 91% í Noregi og aðeins um 29% hafa sér baðherbergi.“

Síðan segir í forustugrein Morgunblaðsins:

„Það er ill meðferð á öldruðum að neyða þá til þess að búa í herbergi með öðrum, hvort sem um einn eða fleiri er að ræða. Friðhelgi einkalífs þeirra er ekki virt með þessum hætti.“

Áfram er fjallað um þessi mál í forustugrein Morgunblaðsins frá 5. nóvember 2005. Ég hefði því gjarnan viljað sjá að þessu hefði verið fylgt eftir í fjáraukalögunum og vona enn að fyrir lok 3. umr. fjárlaga verði þetta tekið fyrir.

Fjárlögin fyrir árið 2005 heimiluðu tæplega 300 milljarða kr. útgjöld og nú er bætt við tæplega 20 milljörðum kr. Tekjurnar í fjárlögum 2005 voru áætlaðar um 306 milljarðar kr. Þegar bætt er við auknum skatttekjum samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði um 340 milljarðar kr. án tekna af sölu Símans. Miðað við þá umræðu sem á sér stað núna um stöðu lífeyris- og örorkumála má búast við enn frekari uppsöfnun skulda vegna þeirra mála. Ýmislegt bendir því til þess að þrátt fyrir að skatttekjur ríkissjóðs séu mun meiri nú en áður vegna þensluástandsins verði nánast enginn rekstrarafgangur í ríkisreikningi fyrir rekstur ársins 2005.

Frú forseti. Til að bæta vinnulagið og tryggja að farið sé að lögum hefur sá sem undir þetta nefndarálit ritar tvívegis mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fjárreiður ríkisins. Þær fela í sér að þegar svo ber undir skuli fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til fjáraukalaga fyrir Alþingi að vori og aftur að hausti. Þingið samþykkir lög fyrri hluta árs sem geta haft í för með sér fjárskuldbindingar á sama ári. Ýmsar forsendur geta einnig breyst á nokkrum mánuðum bæði í tekju- og gjaldahlið ríkisbúskaparins. Það hlýtur því að liggja beint við að fjárlaganefnd taki þau mál til meðferðar og leggi fram fjáraukalagafrumvarp sem verði afgreitt fyrir þinglok að vori. Önnur fjáraukalög væri hægt að afgreiða í byrjun október og síðan kæmu lokafjárlög. Með þessum hætti gæti Alþingi fylgt eftir ábyrgð sinni, stýrt útgjöldum og brugðist við breyttum forsendum. Þannig yrði einnig komið í veg fyrir að efnt væri til útgjalda án heimildar Alþingis nema í algjörum undantekningar- og neyðartilvikum eins og lög um fjárreiður ríkisins kveða á um.

Afar brýnt er að þessi endurskipan fjárlagagerðarinnar komist sem fyrst á svo það verði Alþingi sem raunverulega ákveði fjárveitingar til einstakra verkefna. Eins og nú er stendur Alþingi frammi fyrir ákvörðunum framkvæmdarvaldsins um fjárveitingar sem þegar hafa í öllum megindráttum verið teknar. Sú er því miður raunin sem við stöndum frammi fyrir nú varðandi frumvarp til fjáraukalaga sem hér er til lokaafgreiðslu á þingi.

Frú forseti. Ég hef gert grein fyrir framhaldsnefndaráliti 2. minni hluta og þeim helstu áhersluatriðum sem ég vildi draga fram um frumvarp til fjáraukalaga sem hér er til 3. umr. en ef ástæða er til kem ég að öðrum atriðum í seinni ræðu.