132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:37]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur unnið að þessum málum um langt árabil. Eins og fram kom í andsvari hans þekkir hann þetta mjög vel og vafalaust mun betur en ég. En þau atriði sem hann kom að voru að taka undir þær áherslur sem voru í máli mínu. Ég tek undir með hv. þingmanni að sjóðstaða ríkissjóðs er það góð núna að honum ætti þess vegna að vera vansalaust að taka á málum elli- og hjúkrunarheimila, a.m.k. að stórum hluta. Ég var aðallega að hafa áhyggjur af að framtíðartekjugrunnur ríkissjóðs væri veikur með því að færa aukna hlutdeild tekna yfir á skatta af neyslu og viðskiptahalla, en eins og nú er er staða ríkissjóðs það góð að engin afsökun er að mínu mati fyrir því að taka ekki á málefnum elli- og hjúkrunarheimila og vistheimila.

Það er alveg hárrétt athugasemd hjá hv. þingmanni að ýmis form eru á rekstri elli- og hjúkrunarheimila, sem gott er, bæði með aðild sveitarfélaganna, með aðild ríkisins og félagasamtaka sem reka slík heimili sem þjónustu. Við höfum reyndar eitt heimili, Sóltún, sem er rekið á arðsemisgrunni og hefur hvað eftir annað verið hér til umræðu. Mörg heimili hafa sagt: Fáum við sama framlag á vistmann eða heimilismann hjá okkur og Sóltúnsheimilið, sem væri eðlilegt krafa, væru málin í nokkuð góðu horfi.

Ég veit og treysti á stuðning hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar í þessu máli og við munum standa saman þar.