132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:40]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason nefndi Sóltún. Það er alveg rétt að önnur hjúkrunarheimili hér á landi horfa í átt til Sóltúnssamningsins, m.a. til þess sem kannski ekki hefur komið fram hér áður að það býr við þær sérstöku aðstæður að ef hinn aldraði hefur t.d. þurft að fá svo mikla lyfjagjöf að þegar ígildi kostnaðar hjúkrunarheimilisins er orðið 21 daggjald þá tekur ríkið við og borgar. Þessa njóta engin önnur hjúkrunarheimili á landinu.

Annað sem ég vildi segja líka í þessu sambandi er að eins og komið hefur fram í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra er verið að vinna að nýrri stefnumótun í sambandi við málefni aldraðra. Sannleikurinn er sá að óskynsamlegt er að geysast áfram í að byggja hjúkrunarheimili að óbreyttu ástandi, að óbreyttum rekstrargrunni, vegna þess að alls staðar á Norðurlöndunum hafa menn tekið upp aðra starfshætti. Nú hefur mikið verið rætt um það af aðilum úti í bæ að eðlilegt og sjálfsagt sé að hinir öldruðu haldi sínu peningalega sjálfsforræði þegar þeir koma inn á slíkar stofnanir eða hjúkrunarheimili og það er eðlilegt og rétt.

Hins vegar hafa t.d. aðrar Norðurlandaþjóðir og þjóðir í Evrópu farið aðrar leiðir en að byggja svona „mini-spítala“ eins og hjúkrunarheimilin eru í dag. Ekki að það sé alvont rekstrarfyrirkomulag heldur þurfum við að horfa í átt til annarra rekstrarforma sem þekkjast í kringum okkur og þá á þann veg að þeir öldruðu halda peningalegu forræði sínu og taka þátt í kostnaði í ljósi þess, hv. þm. Jón Bjarnason, sem ég vil sérstaklega benda á að byggingarkostnaður 90 rýma hjúkrunarheimilis er rekstrarkostnaður í tvö og hálft ár. Það er kannski ekki að furða þó að ríkið geysist (Forseti hringir.) ekki fram í þessu máli svo geysilegur kostnaður (Forseti hringir.) sem þessu fylgir.

Hins vegar tek ég undir að aldraðir eiga — það besta er ekki nógu gott, svo vel hafa þeir búið að framtíðinni.