132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:44]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum við 3. umr. fjáraukalaga fyrir árið 2005 og mér finnst full ástæða til að vekja athygli þingheims á framlagi stjórnarandstöðunnar til þessarar umræðu. Hvert er framlag hennar til umræðunnar? Við erum við lokaafgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 2005, fjárlaga sem sýna yfir 90 milljarða í tekjuafgang, fjárlaga sem sýna að lánsfjárafgangur er yfir 100 milljarðar. Aðalatriðið er að á ári eins og þessu, þegar líkur eru til þess að hagvöxtur verði yfir 6% sem er líklega sá mesti í Evrópu, er samneysluaukningin í heild sinni ekki nema um 2,4% en um 2% hjá ríkinu, eins og langtímaáætlunin stóð til. Hún mun standa.

Þetta er einstakt. Það hefur aldrei komið svona ár áður. Við munum minnast þessa árs þar sem aldrei hefur fyrr tekist að treysta svo fjárhag ríkisins sem á þessu ári. Ég á ekki von á því að á næstunni komi annað slíkt ár. Þá kemur stjórnarandstaðan — og hvað hefur hún fram að færa, virðulegur forseti? Jú, einhverjar gamlar tuggur. Mjög gott í sjálfu sér að tala um fjárreiðulögin, m.a. kom hv. þm. Einar Már Sigurðarson inn á eitt atriði sem meiri hlutinn hafði gagnrýnt í umræðum í nefndinni, þ.e. varðandi greiðslur til þess að standa straum af viðhaldi Þjóðleikhússins. Ég held að ég geti alveg verið hjartanlega sammála hv. þingmanni um það, eins og kom fram í nefndarstarfinu, að það er vafamál hvort þetta eigi heima í fjáraukalögum frekar en í fjárlögum. (Gripið fram í: Ekkert vafamál.) Þá er allt í lagi að horfa á slíka gagnrýni. Það er gott að hann kom fram með hana. En að það skipti einhverju máli, nei, það er af og frá. Það skiptir engu máli.

Svo er líka hægt að fara yfir það eins og alltaf er hægt að gera, virðulegur forseti, að meiri peninga mætti hafa þarna eða á einhverjum öðrum stöðum. Það er lengi hægt að tína til hvað er til góða og hvað mætti bæta, breyta, hækka, stækka og betrumbæta. Þetta er allt saman hárrétt, en meginmarkmið langtímaáætlunar ríkisstjórnar um ríkisfjármál er einmitt gagnstætt, að halda niðri tilfærslufjárlögum og halda niðri samneyslunni, einmitt í þeirri uppsveiflu sem er núna í landinu. Það er meginmálið, að gæta þessara atriða þegar vel árar. Það er einmitt þetta sem hefur orðið flestum Evrópuríkjunum að falli og þess vegna eru ríkisfjármál þeirra í því óstandi sem raun ber vitni, af því að þau hafa ekki gætt þess þegar vel hefur árað að halda niðri samneyslunni. Þetta gefur vonir um að við eigum í framtíðinni möguleika til þess að halda áfram á þeirri gæfubraut sem við höfum sannarlega verið á, að bæta lífskjör Íslendinga, þeirra sem nýlega eru fæddir, þeirra sem eru ungir og ég tala nú ekki um þeirra óbornu. Þetta eru stóru skrefin.

Hins vegar er ýmislegt gagnrýnisvert kannski í ríkisfjármálunum. Stjórnarandstaðan minnist hins vegar ekkert á það, ekki einu orði, enda passar það ekki inn í hugarheim þeirra. Stjórnarandstaðan kemur með tillögur og hvaða tillögur eru það? Jú, að auka og efla hitt og þetta. Ráðið til að fjármagna er hærri skattar. Þetta heyrum við í umræðunni um fjárlögin á hverju ári.

Það sem er gagnrýnisvert, virðulegi forseti, við ríkisfjármál Íslands hentar ekki stjórnarandstöðunni að tala um. Það sem er gagnrýnisvert er nákvæmlega eitt, þ.e. að stjórnsýslan á Íslandi hefur of mikla peninga. Þar erum við aldrei nógu vakin yfir málunum, að passa peningana. Stjórnsýslan hefur of mikla peninga. Við verðum að gæta að því hvenær sem er og alltaf að reyna að passa þá. Allt of miklir peningar. Það þarf sterk bein til að þola góða daga, segir máltækið. Við þurfum að passa okkur á þeim. Það er mikið góðæri á Íslandi í dag. Þess vegna er það alltaf og á alltaf að vera til skoðunar hvort við notum of mikla peninga í stjórnsýsluna. Ég svara því, virðulegur forseti, afdráttarlaust: Já, of mikla peninga. Því er það hið versta mál þegar menn halda að leiðin sé að hækka skatta. Leiðin er að lækka skatta. Á þeirri vegferð erum við og á þeirri vegferð ætlum við að halda áfram, að lækka skatta, vegna þess að við þurfum ekki á skatttekjunum að halda. Það er hægt að komast af með minni peninga, á að vera hægt og yfir því skulum við vaka.

Þetta er niðurstaða mín. Yfir þetta skulum við fara og þessu skulum við gera grein fyrir. Við erum að ljúka hér einhverju besta ári í sögu íslenskra ríkisfjármála, árinu 2005. Það hefur aldrei komið annað eins ár og mér er til efs að það komi nokkurn tíma aftur, a.m.k. ekki á næstunni, því að vonandi, eins og ég hef sagt áður, dregur úr einkaneyslunni strax á næsta ári. Vonandi lækka tekjur ríkisins á næsta ári. Það yrði okkur til gæfu vegna þess að sú skuldasöfnun sem einstaklingarnir standa fyrir erlendis mun hefna sín. Því fyrr sem því linnir, þeim mun betra.