132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:54]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hv. þingmaður tekur undir á þennan hátt, en miklu fleiri dæmi voru nefnd sem eru algjörlega hliðstæð. Þegar farið er í gegnum frumvarpið eru þau mýmörg, og því miður allt of mörg. En það sem var aðalmálið var að fá skýrt fram að hv. þingmaður átti ekki við það að fjárreiðulögin skiptu ekki máli. Þau skipta auðvitað máli og það væri miklu frekar fyrir hv. þingmann að fara betur yfir frumvarpið þó svo að dæmið um Þjóðleikhúsið sé býsna skýrt og auðvitað leiki enginn vafi á um að stærsti hluti þeirrar upphæðar eigi heima í fjárlögum. Eins og ég sagði á það við um allt of margt annað sem er í fjáraukalagafrumvarpinu og hefur verið í fjáraukalagafrumvörpum mörg undanfarin ár.

Það skýrist ekki almennilega fyrr en meiri hluti fjárlaganefndar stendur sig betur í að fá nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að fara yfir frumvörp með tilliti til fjárreiðulaga þannig að upplýsingar sem við eigum auðvitað að hafa aðgang að liggi fyrir strax í upphafi vinnuferilsins en ekki annaðhvort alls ekki eða bara í lokin. Að öðrum kosti er óhægt að bera þetta saman. Ég held að það blasi við, og hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála um það, að fyrr en síðar þurfi — það verður varla gert á þessu ári, vonandi á næsta — að taka eitt ár til að koma skikki á þessi mál. Það verður að vera hægt að taka eitt ár frá, þ.e. að ein fjárlög verði þannig að þau séu ekki algjörlega samanburðarhæf við önnur fjárlög af þeirri einföldu ástæðu að verið sé að koma skikki á málin. Þá getum við byrjað á núllpunkti þar á eftir og getum verið með fyllilega sambærileg fjárlög þaðan í frá og verið með fjáraukalög sem eru eins og gert er ráð fyrir í fjárreiðulögum, ella finnst mér meiri hlutinn á þingi skulda okkur að koma með breytingartillögu við fjárreiðulögin ef meiri hlutinn hefur engan áhuga á að fara eftir þeim eins og þau eru í dag.