132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:56]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil minna á að fjárreiðulögin eru frá 1997 og voru mikið framfaraspor frá þeim lögum sem við höfðum áður, eru miklu fyllri og betri í alla staði og ítarlegri. Á undanförnum árum höfum við lagt okkur mjög fram um að koma betra og meira skikki á ríkisreikninginn sjálfan. Fyrir nokkrum árum var hann ekki sýndur fyrr en löngu seinna. Við erum nú búin að koma því þannig fyrir að hann kemur alltaf árið eftir. Það er því komin röð og regla á ríkisreikninginn.

Hv. þingmaður veit að unnið er að þessu. Hann veit ósköp vel að tekist hefur að ná mörgum góðum áföngum í að hafa á þessu skikk og reiðu. Hins vegar er alveg rétt að því er ekkert lokið. Þessu starfi lýkur einfaldlega aldrei. Fjárreiður ríkisins þurfa eilífs eftirlits með og menn þurfa alltaf að vera vakandi yfir þeim og passa að gera betur. Það hefur verið reynt og hefur tekist að mörgu leyti. Það má gera betur, á að halda því starfi áfram og því starfi verður haldið áfram.