132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:05]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum hér í lokaumræðu um fjáraukalögin fyrir 2005 og út af fyrir sig geri ég ekki neinar sterkar athugasemdir við þá aukningu sem nú kemur inn frá meiri hluta fjárlaganefndar, sem er upp á um 1,8 milljarða kr. tæpa. Langstærstur hluti tengist kjarasamningum. Tæplega 1,3 milljarðar kr. tengjast því að standa við þríhliða samkomulag ríkisvaldsins, atvinnurekenda og Samtaka launafólks nýverið — tengist eingreiðslum í desember til öryrkja, aldraðra og atvinnulausra og sömu eingreiðslum til starfsmanna ríkisins. Gert er ráð fyrir að í það þurfi að verja í allt 500 milljörðum kr., heildarfjárveitingin er 605 milljarðar kr. í launa- og verðlagsmál varðandi launþega ríkisins.

Síðan er önnur greiðsla sem ætlað er að renna í Lífeyrissjóð bænda, viðbótargreiðsla sem sett er inn í fjáraukalög upp á 430 millj. kr. og tengist sölunni á Lánasjóði landbúnaðarins. Þá munu heildargreiðslur inn á Lánasjóð landbúnaðarins nema rúmum 2,6 milljörðum þegar þeir fjármunir sem fengust fyrir lánasjóðinn hafa verið reiddir af hendi og kostnaður við sölu og smáuppgjörskostnaður dreginn frá. Um það var tekin ákvörðun síðasta vor, þegar ákveðið var að selja Lánasjóð landbúnaðarins, að þessum fjármunum skyldi varið inn í lífeyrissjóðinn.

Ég hafði uppi nokkra umræðu um þennan þátt málsins á vordögum vegna þess að mér fannst liggja nokkuð við, hæstv. forseti, að menn upplýstu um hver staða Lífeyrissjóðs bænda væri um þessar mundir og hvað fjárhagsstaða lífeyrissjóðsins batnaði mikið við þá fjármuni sem inn í sjóðinn kæmu. Í framhaldi af því hver yrði þá líkleg niðurstaða af því að hækka lífeyrisgreiðslur til bænda eða meta upp réttindi þeirra miðað við að sjóðurinn hefði bætt stöðu sína.

Lífeyrissjóður bænda hefur fyrir ekkert löngu síðan skert réttindi bænda í lífeyrissjóði eins og margir aðrir lífeyrissjóðir hafa þurft að gera og það byggist auðvitað á lögum um almenna starfsemi lífeyrissjóða. Þar er stjórnum lífeyrissjóðanna falið að sjá til þess að lífeyrissjóðir almennt eigi fyrir skuldbindingum sínum. Þetta ákvæði tekur einkum til þeirra lífeyrissjóða sem almennir launamenn eru í en ríkið ábyrgist hins vegar að stærstum hluta greiðslur til opinberra starfsmanna.

Margir lífeyrissjóðir hafa lent í því á undanförnum árum að þurfa að skerða þessi réttindi, m.a. Lífeyrissjóður sjómanna þar sem sá sem hér stendur á nú sennilega megnið af sínum réttindum og margir fleiri sem hafa starfað á sjó ásamt mér. En látum það liggja á milli hluta. Mig hefði langað til að vita, ef hæstv. fjármálaráðherra gæti aflað um það upplýsinga, hversu mikið krónuleg staða í Lífeyrissjóði bænda lagast við þá 2,6 milljarða sem settir eru inn í sjóðinn og hvað er þá líklegt að þau réttindi sem verið er að greiða út til bænda — sem eru því miður afar lág, það verður að segjast eins og er og þess vegna er skiljanlegt að menn reyni að lagfæra þessa stöðu — geti hugsanlega hækkað. Eða er staðan e.t.v. svo slæm í Lífeyrissjóði bænda að þessi eingreiðsla breyti engu til hækkunar á greiðslum til lífeyrisþega sem núna njóta lífeyrisgreiðslna úr Lífeyrissjóði bænda? Þetta hefði ég talið fróðlegt, hæstv. forseti, að fá upplýst við þessa umræðu því að við viljum auðvitað vita hvaða árangri menn ná við ákveðnar tilfærslur á fjármunum.

Það er vissulega svo að bændur lögðu fé inn í þennan sjóð, bæði með sérstöku gjaldi sem þeir greiddu til sjóðsins og síðan hafa þeir væntanlega byggt eignastöðuna í sjóðnum upp, eins og altítt er með viðskiptamenn sjóða sem greiða viðkomandi sjóði ávöxtun á því fé sem þeir fá lánað og mynda þar af leiðandi smátt og smátt inneign eða eignalega stöðu sjóðsins á einhverjum árum eða áratugum. Þetta er jú alþekkt úr t.d. sparisjóðunum þar sem menn byrjuðu með lág stofnfjárbréf og síðan voru það viðskiptamenn sparisjóðanna sem byggðu upp fjárhagsstöðuna en ekki endilega stofnfjáreigendurnir. Um þetta höfum við rætt hér á hv. Alþingi.

Það sama á auðvitað við um stofnlánasjóðinn. Það eru auðvitað viðskiptamenn sjóðsins og þeir sem greiddu til hans ákveðið gjald sem væntanlega hafa byggt upp stöðu hans að mestu leyti á undaförnum áratugum. Þess vegna kunna að vera full rök fyrir því að láta þessa fjármuni renna inn í lífeyrissjóðinn, en spurningin er hins vegar: Hvaða gagn gera þessir fjármunir? Hvað breytist hjá bændum sem fá lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum?

Í svari sem gefið var á síðasta þingi, 131. þingi, við fyrirspurn hv. þm. Drífu Hjartardóttur kemur fram að menn fá ekki háar greiðslur. Til dæmis fær enginn örorkulífeyrisþegi í Lífeyrissjóði bænda greiðslu yfir 60 þús. kr. og í ellilífeyri fær enginn greiðslu yfir 50 þús. kr. og meðaltalsgreiðslurnar eru ótrúlega lágar. Það verður að segjast alveg eins og er, hæstv. forseti, að það þarf að muna dálítið um þá fjármuni sem látnir eru inn í sjóðinn svo að hægt sé að halda því fram að verið sé að lagfæra stöðu bænda með þessari greiðslu.

Það tengist auðvitað öðru fyrirbæri sem ég hef gert að umræðuefni hér í þessum ræðustóli, m.a. við fjárlagaumræðuna sjálfa, og einnig varðandi eingreiðsluna í desember sem ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um hér fyrir nokkru og hann svaraði skýrt og skilmerkilega, en það eru þær skerðingarreglur sem gilda á útgreiðslur Tryggingastofnunar, þ.e. ellilífeyri og tekjutryggingu o.s.frv. þegar fólk fær viðbótartekjur úr lífeyrissjóði. Það er því miður þannig að menn tapa tæplega annarri hverri krónu, skerðingin er 45%, þ.e. fyrir hver 10 þús. kr. í auknum lífeyrisréttindum lækka menn í bótum hjá Tryggingastofnun um 4.500 kr. Síðan kemur tekjuskatturinn á eftir.

Ég benti á þetta við umræðuna í vor að það þyrfti að muna einhverju verulegu til þess að bændur fengju einhvern raunverulegan ábata af eingreiðslunni, það þyrfti að muna verulega um það í réttindainnvinnslu þessara stétta en hún er ekki há eins og þau dæmi sem ég tók hér áðan sýna. Síðan er meðferð makalífeyris og ýmislegt annað sem er í þessum sjóði og er reyndar í öðrum sjóðum nánast aftur úr grárri forneskju verð ég að leyfa mér að segja, hæstv. forseti. Ég held að það eigi einkanlega við ef fólk hefur ekki skipt á milli sín inngreiðslu í lífeyrissjóð, þ.e. hjón eða sambúðarfólk sem hefur starfað að landbúnaði, þá held ég að sé um verulega mismunun að ræða.

Ég ætla ekki að hafa umræðuna um þennan þátt málsins lengri en ég geri þetta að umræðuefni vegna þess að þetta mál er í breytingartillögunum og það hefði verið fróðlegt að fá þetta upplýst.

Aðrar tillögur í fjáraukaviðbótum meiri hlutans eru svo sem ekki stórar því að þegar búið er að leggja þær 430 milljónir sem koma í Lífeyrissjóð bænda til viðbótar við það sem fer í þá liði sem tengjast samkomulagi á vinnumarkaði, þá eru 76 millj. kr. umfram og ég ætla ekki að gera það að miklu umræðuefni hér.

Hins vegar er athyglisvert að afkoma ríkissjóðs er enn að batna mikið og nú er gert ráð fyrir því að í viðbótartekjur komi 11,2 milljarðar vegna tekjuskatta einstaklinga og lögaðila, vegna virðisaukaskattsins komi 7 milljarðar og vegna innflutnings á ökutækjum 4,1 milljarður. Það eru samanlagt 22,3 milljarðar sem gert er ráð fyrir að komi í auknar tekjur. Það er auðvitað að sumu leyti ánægjulegt að staða ríkissjóðs skuli vera svo góð en þetta er einnig vísbending um að við séum enn á miklu innflutningsfylleríi, ef hægt er að orða það svo, hæstv. forseti, það er mikið flutt inn af vörum nú. Við erum reyndar að nálgast jólamánuðinn og erum kannski rík á þeim tíma ársins þegar hvað mest er flutt inn. En hitt er alveg ljóst að innflutningur á ökutækjum hefur verið mikill allt þetta ár og er enn mjög mikill þannig að eyðsla almennings er mikil og það vekur áhyggjur þegar horft er til vaxandi skuldastöðu heimilanna.

Það er vissulega hægt að taka undir það sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði áðan um sérstaka fjárveitingu til Tryggingastofnunar ríkisins og ég gerði að umtalsefni við fjáraukann í 2. umr. Ég bað um að fá þetta minnisblað frá Tryggingastofnuninni með samantekt á því hvað væri búið að láta mikið fé í hönnun á tölvukerfi fyrir stofnunina en talað var um 75 milljónir til viðbótar í því skyni. Kostnaðurinn væri þá samtals orðinn um 400 milljónir við hönnun á tölvukerfi fyrir Tryggingastofnun.

Ástæðan fyrir því að ég fór að velta þessu fyrir mér var m.a. sú að ég hafði verið að glugga í svar við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur til fjármálaráðherra sem hún bar fram á 130. löggjafarþingi um hugbúnaðarkerfi ríkisins almennt þar sem hún spurði um ýmislegt sem sneri að kostnaði ríkisins. Þegar ég var að glugga í svar hæstv. fjármálaráðherra kom í ljós að búið var að eyða verulega miklum fjárhæðum í hönnun á alls konar tölvukerfum fyrir ríkið og sá pakki hjá Tryggingastofnun sem við vorum með hérna inni í fjáraukalögunum er hluti af því.

Þó að niðurstaðan í svari til hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á sínum tíma hafi verið sú að það væri ekki talin ástæða til þess að skoða í heild kostnað ríkisstofnana varðandi hönnun á ýmsum kerfum, bókhaldskerfum og launakerfum og eftirlitskerfum og öllu því sem ríkið er að láta vinna að fyrir sig, þá held ég, hæstv. forseti, og vil beina því hér við lok máls míns til hæstv. fjármálaráðherra að hann láti skoða hversu miklu ráðuneytin og einstakar stofnanir sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti hafi á undanförnum t.d. tíu árum ráðstafað í hönnun á sérstökum tölvukerfum og eftirlitskerfum fyrir stofnanirnar. Ég er ansi hræddur um, miðað við það svar sem var veitt við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur og það svar sem ég fékk við spurningu minni um Tryggingastofnun ríkisins, að full ástæða sé til að skoða þennan þátt málsins og kortleggja vel og vandlega hvað menn hafa verið að fást við í þessum efnum í ríkisgeiranum á undaförnum árum.

Hér á landi eru fjölmörg fyrirtæki sem sérhæfa sig í alls konar tölvuúrvinnslu og því hefði mátt gera ráð fyrir því nú seinni árin að mörg þeirra væru þegar búin að hanna alls konar lausnir fyrir hinn og þennan rekstur og að eitthvað af því hljóti að geta hentað ríkinu þannig að ekki þurfi að sérhanna öll tölvukerfi ríkisins sem mér sýnist vera mikið um að gert sé. Þess vegna beini ég því til hæstv. nýs fjármálaráðherra að þessar upplýsingar liggi fyrir áður en hann leggur fram nýtt fjárlagafrumvarp næsta haust. Ég held að það sé full ástæða til að það verði skoðað. Auðvitað væri hægt að koma með þetta hér í fyrirspurn og biðja um skriflegt svar en ég vil skora á hæstv. fjármálaráðherra að taka frumkvæðið í þessu máli og skoða hvað ríkið hefur gert í slíkri vinnu á undanförnum árum, t.d. sértölvukerfi sem hafa verið hönnuð fyrir spítalana o.fl. Ég held að það væri fróðlegt að fá þetta tekið saman í heild svo hægt sé að gera sér grein fyrir því hversu mikið fé er veitt í þetta.