132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:24]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður hefur það verið svo að bændur hafa haft minni möguleika til þess að vinna sér inn lífeyrisréttindi en aðrir og nú um stundir helgast það að mestu leyti af því að reiknuð laun í landbúnaði eru mjög lág. Staða Lífeyrissjóðs bænda hefur verið á þann veg á undanförnum árum að það hefur verið meira en 5% munur á eignum og skuldbindingum og ef sú staða er viðvarandi í fimm ár eða meira ber að breyta samþykktum til lækkunar.

Sú upphæð sem samkvæmt tillögu í fjáraukalagafrumvarpinu er nú lögð í Lífeyrissjóð bænda mun duga til þess að sjóðurinn verði í jafnvægi og því þurfi ekki að koma til þess að greiðslur verði skertar. Reyndar er það þannig að miðað við þá tölu sem er núna við 3. umr. mun það gera meira en að setja sjóðinn í jafnvægi og sem nemur um 400 milljónum. Ég held hins vegar að það vegi ekki stórt hvað varðar þær greiðslur sem væntanlega koma úr sjóðnum í framtíðinni. Ef við skoðum það síðan í samhengi við það hversu raunverulega lágar þær eru vegna hinna lágu reiknuðu launa mun það sjálfsagt ekki breyta mjög miklu. Það skiptir hins vegar mjög miklu máli upp á öryggi þeirra sem eiga réttindi í sjóðnum að hann skuli vera í jafnvægi og ríflega það. Það er ekki fyrirsjáanlegt að það muni þurfa að koma til skerðingar á sjóðnum í næstu framtíð.