132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:29]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Nú er komið að lokum þessarar umræðu um fjáraukalög fyrir árið 2005 og rétt í lokin vil ég segja nokkur orð út af því.

Það liggur fyrir að við sjáum nú meiri tekjuafgang á fjárlögum en áður hefur þekkst og gildir þá einu hvort söluandvirði Símans er inni í þeirri tölu eða ekki. Í heildina erum við að tala um nálægt 9% af landsframleiðslu sem er auðvitað gríðarlega mikið en án sölu Símans eitthvað rúmlega 3%.

Við sjáum líka að lánsfjárafgangur er nálægt 100 milljörðum, við erum að lækka skuldir ríkissjóðs mjög mikið, sem er auðvitað sérstakt ánægjuefni og auðvitað mikilvægt innlegg til framtíðar.

Eitt mikilvægasta verkefni okkar í öllu þessu er að halda vexti samneyslunnar niðri eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu. Slíkt er auðvitað einnig til hagsbóta til framtíðar, en um þessar mundir fær ríkissjóður mjög miklar tekjur vegna þenslu í samfélaginu, vegna mikillar einkaneyslu og viðskiptahalla og við megum auðvitað ekki ráðstafa öllum þeim tekjum, sem eru sveiflukenndar og að mörgu leyti tímabundnar, til þess að auka samneysluna. Ég held að það sé eitt af okkar helstu verkefnum að hvetja þjóðina til þess að draga úr einkaneyslu og líta frekar til þess að spara fjármuni en að nota þá til einkaneyslu.

Í þessari umræðu eins og gjarnan í umræðu um fjárlög eða fjáraukalög, hefur komið fram að auðvitað vildu menn sjá að auknir fjármunir rynnu til ýmissa mála, en við vitum það, og ekki síst við sem fjöllum um þessi mál, að seint eða aldrei er hægt að gera allt fyrir alla eða mæta öllum kröfum og þörfum. En í heildina séð held ég að megi segja að fjáraukalagafrumvarpið eins og það liggur fyrir núna sé mjög gott. Í góðæri er mikilvægt að halda vel utan um og missa ekki tökin á rekstrarútgjöldunum, virðulegi forseti, því það fáum við auðvitað í bakið síðar meir, og við getum horft til reynslu annarra þjóða í þeim efnum.

Í þessari umræðu hefur töluvert verið rætt eins og áður um fjárreiðulög og vangaveltur um það hvort farið sé að þeim eða ekki. Það er út af fyrir sig mjög eðlilegt að slík umræða fari fram, sérstaklega þegar rætt er um fjáraukalög. Menn túlka hlutina auðvitað sitt á hvað en fjárreiðulögin eru mjög mikilvægt tæki og það var mikil framför þegar þau voru sett á sínum tíma og að sjálfsögðu einbeita menn sér að því að fara eftir þeim, en í umræðunni kemur síðan fram ýmist álit manna á því hvernig til tekst.

Í þessari umræðu hefur einnig verið töluvert rætt um upplýsingaöflun og fram hefur komið gagnrýni á að fjárlaganefnd fái ekki þær upplýsingar sem hún óskar eftir frá ráðuneytum og öðrum aðilum. Að sumu leyti er sú gagnrýni réttmæt og ég tek undir hana. Ég hef sjálfur gagnrýnt það nokkuð að fjárlaganefnd gangi illa að fá upplýsingar en við höfum jafnframt fengið skýringar á því frá fjármálaráðuneyti, en við höfum sannarlega gengið eftir því að fá þær upplýsingar sem menn biðja um og það eru hagsmunir okkar allra að það gangi eftir.

Virðulegur forseti. Ég vildi bara rétt í lokin segja örfá orð þegar þessi umræða er að enda komin og nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem hafa komið að umfjöllun um þetta frumvarp í fjárlaganefnd og hér á Alþingi fyrir gott samstarf.